1132 - Já, þetta er kóngablæti

Lára Hanna (sem ég hélt að væri hætt að blogga) skrifar blogg um Davíð Oddsson sem hún kallar „Er þetta kóngablæti?" Margt í þeirri grein er vel sagt og ég get að mörgu leyti tekið undir það sem hún segir um þennan fyrirferðarmikla frænda minn. 

Mér finnst D.O. þó ekki verðskulda þá athygli sem Lára Hanna sýnir honum. Vil heldur ekki hlíta því sem aðrir segja mér um hvað ég eigi að lesa eða hvernig nethegðun mín eigi að vera. Viðurkenni samt að nethegðun fólks skiptir máli.

Fór snemma á fætur í morgun. Sótti Benna og Angelu til Keflavíkur klukkan 6:30. Fór svo á fund hjá BÍS og eftir hádegið ætlaði ég í berjamó eins og á föstudaginn en ekki kom annað út úr þeim fyrirætlunum en búðarferðir o.þ.h. Aðallega vegna veðurs. Var víst ekkert búinn að segja frá berjatínslunni á föstudaginn hér þó ég hafi minnst á það á fésbókarræflinum. Sú ferð var einna merkilegust fyrir það að ég datt og meiddi mig svolítið í hendinni. Finn aðeins fyrir því ennþá en ekkert að ráði.

Einu sinni þegar við bjuggum á Vegamótum gerði hvassviðri mikið um miðja nótt. Gluggi inni hjá strákunum skelltist til og frá svo ég fór að loka honum. Benni hafði þá vaknað við lætin og sagði svolítið aumingjalega: „Hann var að reyna að loka sér sjálfur."

Hluti af þeim hégiljum og hindurvitnum sem fólk ánetjast í stórum stíl er einhvers virði. Annað er að engu hafandi og jafnvel skaðlegt. Vandinn er að greina þarna á milli.

Næringarfræðingar verða meðal helstu gúrúa framtíðarinnar. Maður er það sem maður étur. Enginn vafi er á því. Hreysti, heilbrigði og langlífi er undir því komið hvernig lífi maður lifir og hvað maður lætur ofan í sig. Eitt er samt að kunna heilræðin og annað að halda þau.

IMG 3007Hverja er eiginlega verið að hylla þarna? Ekki veit ég það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband