1100 - Hvítá

Vorið 1844 varð hörmulegt slys í Hvítá í Árnessýslu skammt frá svonefndu Langholtshverfi. Tveir menn drukknuðu þar af fimm sem farið höfðu út á ána á báti sem þeir höfðu tekið traustataki. Erindi þeirra var að steypa undan veiðibjöllu sem gert hafði sér hreiður í hólma úti í ánni. 

Straumur hreif bátinn fljótlega og aðeins 2 árar voru í honum og önnur þeirra brotnaði innan skamms. Bátnum hvolfdi síðan og yngsti maðurinn sem var um tvítugt (hinir voru allir mun eldri, flestir fimmtugir eða meira) komst í land og sótti hjálp. Tveir menn björguðust þá en tveir mannanna fundust ekki og drukknuðu í ánni.

Því skrifa ég um þetta hér að frásögn af þessu slysi las ég nýlega í bók sem ég fékk lánaða á bókasafninu. Sú bók heitir „Íslenskt mannlíf I" og er eftir Jón Helgason ritstjóra. Margar frásagnir eru í þessari bók sem er vel skrifuð og ýtarleg. Frásögnin af þessu slysi tekur þar einar sjö blaðsíður (með einni teiknaðri mynd og ítarlegri ættfærslu á öllum sem við sögu koma). Þó er oft skrifað enn lengra mál um ómerkilegri atburði.

Nú er orðið nokkuð umliðið síðan ég birti síðast ímyndað viðtal við sjálfan mig. Blaðamenn BloggTíðinda eru samt alltaf á eftir mér og einn þeirra náði að króa mig af um daginn:

BT:  Til hvers ertu að blogga?

SB:  Nú, til þess að vera lesinn.

BT:  Og heldurðu að einhverjir lesi þetta bull?

SB:  Já.

BT:  Jæja, kannski. En tölum um eitthvað annað. Hvernig líst þér á trúmáladeilurnar hér á Moggablogginu.

SB:  Alveg svakalega.

BT:  ?? Vel eða illa?

SB:  Bara bæði.

BT:  Nú?

SB:  Já. Sumt er fjári gott en annað afskaplega lélegt.

BT:  Já, svoleiðis.

SB:  Já, einmitt.

BT:  En nú er Moggabloggið að deyja....

SB:  Hvur segir það?

BT:  Allir bara.

SB:  Ekki ég. Annars færi ég eitthvert annað.

BT:  Já, einmitt. Af hverju ferðu ekki eitthvert annað?

SB:  Bara nenni því ekki. Allt of mikið fyrirtæki. Nú er ég með ærnu erfiði búinn að koma mér upp svolitlum hópi sem virðist lesa bloggið mitt reglulega. Ætti ég að yfirgefa þennan hóp og fara eitthvert annað án þess að vita hvort margir fyndu mig þar? Eða nenntu yfirleitt að leita?

BT:  Já. Ef þú ert nógu góður hljóta þeir að gera það.

SB:  Er ég nógu góður til þess?

BT:  Veit það ekki. Kannski mætti prófa.

SB:  Vil ekki gera þannig tilraunir.

BT:  Ég sagði að Moggabloggið væri að deyja. Lesendum þess og fylgifiskum er a.m.k. að fækka mikið. Ef þú yfirgæfir þetta bloggsvæði hvert mundir þú fara?

SB:  Hef ekki hugmynd um það.

BT:  Nú.

SB:  Ja, ef einhverjir vildu endilega fá mig og byðu mér peninga.....

BT:  Heldurðu að bloggið þitt sé svo mikils virði?

SB:  Nei, eiginlega ekki.

BT:  Heldurðu að margir bloggarar fái borgað fyrir að skrifa?

SB:  Nei, alls ekki. Kannski Egill Helga. Varla margir aðrir.

BT:  Nú bloggar þú svolítið öðruvísi en aðrir. Fjasar mikið um blogg og þykist vera voða gáfaður....

SB:  Nú, er það?

BT: Mér finnst það a.m.k.

SB:  Og er það eitthvað marktækt sem þér finnst?

BT:  Kannski. Sumum finnst....

SB:  Þú ferð bara undan í flæmingi.

BT:  Ja, ég er nú eiginlega....

SB:  Já, datt mér ekki í hug. Eiginlega á móti bloggi. Og samt ertu að vinna hjá BloggTíðindum. Og taka viðtal við stórbloggara eins og mig. Það er....

BT:  Hmm, er ég að taka þetta viðtal eða þú?

SB:  (afundinn) Líklega þú. Haltu þá áfram að spyrja.

BT:  Hvert var ég kominn? Sjáum til. Já, einmitt. Jú, hvert mundir þú fara ef þú hættir að blogga á Moggablogginu?

SB:  Ég er ekkert að hætta þar.

BT:  Ertu einhver Davíðsaðdáandi eða hvað?

SB:  Nei, sko eiginlega ekki, en þessir afturhaldskommatittir vaða nú dálítið uppi. Finnst þér það ekki? Þykjast alltaf vera „Góða fólkið", eins og hann Tryggvi Herbertsson segir. Ágætismaður hann Tryggvi.

BT:  Iss, mér finnst nú ekki mikið til hans koma. Svo vil ég ekki vera að tala um einhverja ákveðna menn. Bara blogg almennt og svoleiðis.

SB:  Nú, varst það ekki þú sem byrjaðir?

BT:  Byrjaði á hverju?

SB:  Að tala um ákveðna menn.

BT:  Nei alls ekki.

SB:  Ég hélt að þú hefðir verið að tala um Davíð Oddsson.

BT:  Já, ég spurði þig víst hvort þú værir aðdáandi hans. Ertu það?

SB:  (óttasleginn) Nei, nei.

BT:  Er það hættulegt?

SB:  Kannski. Margir bloggarar segja að hann sé að reyna að koma sínum skoðunum og sínu fólki að á Moggablogginu.

BT:  Og reka hina eða loka blogginu þeirra.

SB:  Já, einmitt.

BT:  Og trúir þú þessu?

SB:  Nei, eiginlega ekki.

BT:  Nú ert þú búinn að blogga lengi. Hvað....

SB:  Hver segir það?

BT:  Bara allir. Eða a.m.k. flestir.

SB:  Ekki eins lengi og Jónas.

BT:  Hvaða Jónas?

SB:  Jónas Kristjánsson.

BT:  Nú hann. Er hann búinn að blogga lengi?

SB:  Já. Fyrst bloggaði hann á Vísi og ýmsum öðrum blöðum. Svo fór hann að blogga á eigin vefsetri. Er þetta ekki fínt orð hjá mér? Vefsetur. Virkilega flott.

BT:  Jú, jú. En þá dettur mér það einmitt í hug. Hvernig skilgreinir þú blogg.

SB:  Skilgreini? Ég skilgreini það ekki neitt.

BT:  Hvað er blogg?

SB:  Kannski allt sem skrifað er. Og svo rífa hundarnir það í sig.

BT:  Hvaða hundar?

SB:  Bara hundar. Einhverjir hundar. Æ, ég er búinn að fá leið á þessu. Slökktu á þessu fjárans tæki.

Og svona endaði þetta. Og bloggið mitt líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæmundarháttur eins og hann gerist bestur. Takk fyrir það.

Svanur Gísli Þorkelsson, 4.8.2010 kl. 01:42

2 Smámynd: Grefillinn Sjálfur

Guð blessi þig, Sæmundur.

Grefillinn Sjálfur, 4.8.2010 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband