1064 - Um reikningshausa

Reikningshausar og ekki reikningshausar. Áhugaverð pæling hjá Láru Hönnu. Kannski er skilningur þeirra sem þó þykjast skilja verðbætur, gengistryggingu og fleira þessháttar alls ekki sá sami þó hann virðist vera það. 

Rak mig á það sjálfur að jafnvel einfaldasta flatarmálsfræði er ekki alltaf eins og hún sýnist vera. Að reikna út í huganum hve margir fermetrar það herbergi er, sem er 2,5 metrar á kant, finnst mörgum auðvelt. Þar á meðal mér. En ef ég á að reikna á sama hátt hve margir fermetrar herbergi er sem er 5,5 metrar á kant, þá klikkar mín aðferð, þó ég geti nálgast rétt svar ef ég vanda mig. Á blaði er þetta enginn vandi og enn minni á vasareikni. Samt er þarna um að ræða einhverja tegund af skilningi.

Lára Hanna segir að næst sé að ráðast á verðtrygginguna því hún sé jafnóréttlát og gengistryggingin. Því miður eru hlutirnir ekki svona einfaldir. Sveiflan frá engum rétti lánveitandans (eins og var) og til algjörra yfirburða hans er meiri en svo að hún verði leiðrétt í einu hendingskasti. Ég hef samúð með sjónarmiðum Marðar Árnasonar og Kidda sleggju þó illa sé um þá talað í bloggheimum núna. Líklegt er að sjónarmið í líkingu við þeirra verði ofaná að lokum.

Svik og prettir - það er síminn. Segir Jón Daníelsson. Hann er úrvalsbloggari og með sitt eigið lén. Kannski höfum við ekki réttar viðmiðanir sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að þjónustu einokunarfyrirtækja. Ekki öfunda ég þá sem ekkert val hafa þegar kemur að fjarskiptaþjónustu. Hér um slóðir níðir hver skóinn niður af öðrum og þó þessi mál séu öll orðin svo margflókin að erfitt sé að skilja þau, er þó betra að geta valið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aldrei hef ég verið góður til að reikna og ekki hefur það háð mér neitt. Nema síður væri líklega. Hefur stundum sýnst að mikill reikningur leiddi fólk út í tómt ergelsi. En svo veit ég líka að ef rétt er reiknað veitir niðurstaðan haldbæra vitneskju. Og svoleiðis nokkuð má alltaf nota. Til einhvers. En sé rangt reiknað getur vitleysan orðið mikil og djúprætt. Orð og tölur eiga því margt sameiginlegt, enda tákn hvorttveggja.

Það er sjónarmið sukkarans að vilja afnema verðtryggingu á peningum. Þannig er það. Ég er hálfgamall svo ég man þá tíð þegar lán þótti að fá lánað og borga ekki nema lítinn hluta fjárins til baka. Margur sukkaði þá á annarra kostnað og hélt sér digra veislu. Skömmtunarstjórar og hyglarar áttu þá góða daga. Margt var þá reiknað vitleysislega. Meðan hér er króna í landi verður að vera á henni verðtrygging.

K.S. 29.6.2010 kl. 08:28

2 Smámynd: Klukk

Ég reiknaði út að það er betra að borga minna. Meira þarf ég ekki að reikna, nema þegar ég þarf að reikna með tengdó í mat. Konan reiknar út restina.

Klukk, 29.6.2010 kl. 08:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband