1058 - Alltaf í blogginu (eða boltanum)

Það sem boðið er uppá á Netinu er alltaf að verða meira og meira. Í rauninni er það nokkuð gott hjá mér að talsverður fjöldi fólks skuli leggja það á sig að lesa (eða kíkja að minnsta kosti á) bloggið mitt. En bloggið er svosem bæði notað og misnotað. Sá hjá Jens Guð að einhver kona hafði skrifað leiðindasamsetning á Moggabloggið. Blogginu hennar hafði verið lokað, en auðvitað var hægt að nálgast afrit af því. Af hverju var Jens að segja frá þessu og af hverju er ég að minnast á þetta? Skil það ekki. Nóg eru nú tilefnin til að hneykslast. Viljum við Jens hjálpa öðrum að fylgjast með sem flestu markverðu á Netinu eða erum við bara að reyna að seiða til okkar lesendur?

Það er óneitanlega dálítið hlægilegt hve Evrópuandstæðingar geta gengið langt í áróðri sínum. Því er haldið fram að Íslendingar verði í stórhættu með að þurfa að gegna herþjónustu og verði áreiðanlega látnir leggja niður þjóðfána sinn og hætta að drepa hvali. Almennt eru þó hætt að halda því fram að Evrópusambandið muni hirða af okkur allar auðlindir.

Úr því búið er að samþykkja að sækja um aðild er rétta ráðið að bíða með allar yfirlýsingar af þessu tagi. Sannleikurinn kemur í ljós þó síðar verði. Samt er ekki víst að allir nenni að kynna sér hann og áróðurinn sem verður í gangi síðustu vikurnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um aðild mun ráða miklu. Hræðsluáróður Evrópuandstæðinga nú miðar að því að reyna að spilla þeim umræðum sem hefjast munu innan skamms.

Er hægt að halda úti fréttatengdri bloggsíðu án þess að tala að ráði um HM í fótbolta eða hrunið mikla? Ég er að reyna það. Einhverjir eru búnir að fá leið á þessu rugli í sjónvarpinu og víðar. Þá er að virkja það.

Egill Helgason segir að það sé nútíminn að sitja í lest á milli Moskvu og Leningrad og blogga. Það er heilmikið til í því. Það er að segja ef menn hafa einkum áhuga á að blogga. Ferðalög eiga að vera til þess að losna við allt það hversdagslega. Er ekki bloggið orðið æði hversdagslegt hjá mörgum? Sumir sitja bara heima og blogga meðan afkomendur og skyldmenni þeytast um allar jarðir. Án þess að blogga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Er yfirleitt hægt að segja að það sé nútíminn að sitja í lest? Það er býsna fornaldarlegur ferðamáti að verða -- og eftir því leiðinlegur.

Sigurður Hreiðar, 23.6.2010 kl. 11:37

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

lestir eru fínar :) nota þær daglega til og frá vinnu.. miklu betra en bíldruslan og margfalt ódýrara..

Óskar Þorkelsson, 23.6.2010 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband