1043 - Smjörklípa og fleira

Í útvarpsfréttum var nýlega sagt að einhver atburður hefði orðið eða ætti að verða „á Þorlákshöfn". Þarna er venja að segja í Þorlákshöfn. Forsetningamál af þessu tagi eru erfið. Mér er ekki kunnugt um neina reglu á svona málum. Málvenja staðarbúa hlýtur að ráða. Séu fréttamenn í vafa um hvort nota eigi á eða í þarf að spyrja. Þeim sem til þekkja finnst svona lagað skelfilega einfalt. 

Útivera (öskufallslaus) er miklu heilnæmari en innivera. Tala ekki um þegar komið er fram á vor. Kannski ég fari að stunda gönguferðir og lýsa þeim hér á blogginu.

Það eitt að Jón Gnarr skuli í viðtölum tala hægt og vanda sig er mikil bót frá venjulegu kranafráskrúfelsi hjá öðrum stjórnmálamönnum. Honum fyrirgefst líka þó hann glotti svolítið stundum. Sennilega er hann bara að hugsa um eitthvað sniðugt.

Fótboltinn er skemmtilegur, sagði ég í færslu eða athugasemd um daginn. Kvennaboltinn er þó skemmtilegastur. Mér finnst það meðal annars vegna þess að ég skil hann betur enda hægari en karlaboltinn. (Og stelpurnar auðvitað fallegri.)

Fylgdist talsvert með tennismótinu á (eða í) Roland Garros þar sem úrslit réðust um síðustu helgi. Sagt var frá þeim í fréttum hér á Íslandi í fáeinum orðum og sagt að sigur Nadals í karlaflokki táknaði mikil tímamót. Það fannst mér ekki en úrslitaleikurinn í kvennaflokki milli Schiavone og Stosur hinsvegar gera það. Gæti skrifað langa færslu sem væri bara um tennis en hver hefði áhuga á því?

Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður sagði í dag að hann hefði traustar heimildir fyrir einhverju sem hann tiltók um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Traustar heimildir eru einskis virði ef ekki er vitað hvaðan þær koma. Ef ekki er hægt að segja frá því eru þær afar ótraustar. Simmi reyndi að sauma að Jóhönnu í kastljósinu í kvöld en hafði ekki erindi sem erfiði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Er ekki bara kominn einhver forsetningaruglingur á fólkið á Reykjavík? Eða kannski í höfuðborgarsvæðinu almennt?

Sigurður Hreiðar, 8.6.2010 kl. 12:25

2 identicon

Afi minn fæddist í Hvammstanga og amma á Keflavík. Þau hittust fyrst í Selfossi.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 8.6.2010 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband