1031 - Að halda uppi bloggmerki bekkjarins

Í einhverri bekkjar-sammenkomst fyrir fáum árum komst einhver svo að orði að hann væri hissa á því að ég skyldi verða til þess að halda uppi bloggmerki bekkjarins. Nú eða skólans í Hveragerði þessvegna. Mér finnst þetta þó ekkert skrítið því ég hef alltaf álitið sjálfan mig betur skrifandi en aðra.

Í skólanum þeim átti ég af ýmsum ástæðum meira saman að sælda við Jóa á Grund, Atla Stefáns, Þórhall Hróðmarsson og Jósef Skafta en aðra bekkjarfélaga mína. Af þeim samskiptum mætti segja margar sögur en þær verða ekki tíundaðar hér.

Stelpurnar voru auðvitað góðar fyrir sinn hatt en við höfðum ekki mikið saman við þær að sælda. Minnisstæðastar eru Kolbrún, Heiðdís, Erla og Jóna. Satt að segja litum við sem áttum heima í gerðinu hvera svolítið niður á sveitapakkið sem sent var til okkar á hverjum degi. Þó man ég vel eftir Jónínu og Guðrúnu.

Á myndinni sem fylgir í lok þessa bloggs eru þeir Jói og Atli á góðri stund. Myndin er tekin við skálann í Reykjadal og líklega er bara vatn á pyttlunni.

Stolið og stælt. (Hefði verið ágætt sem myndatexti ef ég hefði átt passandi mynd)

Grænt er það sem gægist milli steina
og getur aldrei fengið nóg af sól.
„Bláskel liggur brotin milli hleina"
og berin koma varla fyrir jól.

Og svo er bara að bíða eftir því að allt gerist í einu. Besti flokkurinn komist í meirihluta í Reykjavík og pólitískir meirihlutar bíði allsstaðar mikið afhroð. Hera sigri í söngvakeppninni og Katla fari að gjósa. Þetta gæti alltsaman gerst næstkomandi laugardag. Nú, eða ekki.

Sigurður Hreiðar kvartar undan því að ég sé hættur að vanda mig við bloggið. Það getur vel verið rétt. Svo getur líka verið að ég sé að verða þurrausinn. Annars óttast ég það ekki svo mikið því mín kenning er sú að því meira sem við skrifum þeim mun meira eigum við óskrifað.

IMG1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband