987 - Rifrildi í athugasemdum

Steini Briem og Gísli Ásgeirsson lentu í rifrildi á blogginu mínu um daginn. Það byrjaði með því að Gísli gagnrýndi vísurnar hans Steina harkalega og Steini tók því ekki þegjandi. Annars hafa þeir báðir sér til ágætis nokkuð. Bloggið hans Gísla á malbein.is les ég oft og þykir með þeim allra bestu. Líka er bróðir hans Páll Ásgeir úrvalsbloggari, en er alltaf að hætta og byrja aftur. Báðir eru þeir útivistarmenn og fjallagarpar miklir og Páll hefur skrifað margar bækur um slík mál. Gísli er hinsvegar bæði langhlaupari, þýðandi og spurninganörd hinn mesti. Fyrrverandi kennari.

Gísli orti (að ég held) á sínum tíma fyrir hönd Más Högnasonar hér á Moggabloggið en er hættur því. Mörgum þótti hann full níðskældinn og alvörulaus. Yrkja jafnvel um atburði sem ekki ætti að yrkja um, hvað þá í hálfkæringi eins og Már köttur gerði gjarnan. Annars er meiri saga af Má Högnasyni en bara vísurnar. Fer samt ekki útí það hér. Mér þótti hann (og Gísli) um of á móti Moggabloggurum og setja þá alla undir sama hatt.

Á sínum tíma var það sameiginlegt einkenni flestra sem höfðu bloggað áður en Moggabloggið kom til sögunnar að finna því allt til foráttu. Þar held ég að þjóðmálapólitík hafi ekki ráðið heldur bloggpólitík. Nefni bara nafn Stefáns Pálssonar og þá vita líklega margir hvað ég á við.

Tískustraumar koma og fara í tölvuheimum eins og annars staðar. Einu sinni var irc-ið í tísku, tölvupóstur, msn, blogg, myspace, facebook o.s.frv. Sumir stöðvast í einhverju ákveðnu en aðrir eru sífellt að leita að einhverju nýju og eru aldrei ánægðir. Hvert nýtt trend ber jafnan í sér svolítinn hluta þeirra eldri og bætir einhverju nýju við.

Fésbókin finnst mörgum vera heillandi núna og vel kann svo að vera. Sé samt ekki betur en bloggið henti mér ágætlega, einkum vegna blogg-gáttarinnar þó satt að segja séu þeir orðnir ansi margir sem þar eru skráðir. RSS straumar hjálpa líka mikið þó margir (þar á meðal ég) viti varla um hvað þeir snúast. Samstarf milli bloggveitna mætti vera mun betra. Það sem ég hef einkum á móti fésbókinni er að þar skuli eitt fyrirtæki ráða öllu en auðvitað er hægt að vera þar og blogga eins og vitlaus maður líka.

Mitt helsta boðorð í bloggskrifum er að hafa hvert blogg ekki óhóflega langt. Svona eins og langa athugasemd. Það er þýðingarlaust að láta móðann mása endalaust og skrifa bara eitthvað. Enginn nennir að lesa slíkt svo nú er ég hættur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég opnaði fésbókarsíðu í byrjun árs í fyrra.  Það var gaman í byrjun og margir gamilir vinir og vinkonur dúkkðu upp, sem ég hafði ekki heyrt af í áratugi. Við marga færði ég bréfaskriftirnar bara yfir á tölvupóst.  Svo eru venslamenn mínuir systir móðir, frænkur og frændur um alla jörð og gaman að spjalla í hálfkæringi við þau.

Þetta er þó ekki að neinu leyti sambærilegt við bloggið og óttalega innihaldslaust bull í gangi svona almennt. Varð fljótt leiður á þessu, auk þess sem maður varð að passa sig á að segja ekki hug sinn í öllu til að móðga ekki heilu og hálfu bæjarfélögin.  

Varð fljótt leiður á þessu.  Það fór allt of mikill tími í þetta og erfitt að halda vinalistanum eins og maður vildi hafa hann. Ég gat ekki hafnað vinabónum, jafnvel þótt ég kannaðist ekkert við fólkið.  Ég lokaði þessu því og sé ekkert eftir því. 

Það er þó nokkuð víst, eins og þú íjar að, að margt moggabloggið stendur ekki undir nafni sem blogg og á miklu frekar heima á físboka (eins og norðmenn kalla það, prumpbókin). 

Það eru margir kvæðamenn, semm eru ansi þumbaralegir og leiðinlega gagnrýnir á kveðskap. Telja að það séu svo njörvaðar leikreglur í þessu að þeir sem ekki þekkja þær í hörgul, eigi ekkert erindi við kveðskap. Það finnst mér argasti dónaskapur og hroki. Það eru engin lög, sem gilda um ljóð og prósa í raun. Mér finnst þesskonar gagnrýni ekki eiga heima hér frekar en stafsetningarnasismi. Hér er allskonar fólk með fjölbreyttan bakgrunn og menntun.  Það er enginn að falast eftir gagnrýni rykfallinna málhefðarorthodoxa.

Þeir ættu því að halda sig fjarri ef þeim líkar ekki og finna annan vettvang til að berja sér á brjóst. Ef þeir vilja miðla af þekkingu inni á málefninu, þá ættu þeir að skrifa blogg um það og kenna fólki í stað þess að rífa það niður með óumbeðnum athugasemdum úr heimasmiðuðum fílabeinsturnum sínum.

Gísli ætti í raun að skammast sín og reyna að sýna meiri þroska og bróðerni. Það er lágkúrulegt að hæða sköpun manna í heyrandi hljóði. Það er lágmark að gera það undir fjögur augu, ef mönnum er  það mál.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.4.2010 kl. 08:24

2 identicon

Fyrst útrætt mál er tekið upp á ný vil ég segja þetta:

Ofmælt er að kalla orðaskipti okkar SB rifrildi. Ég setti fram eina staðhæfingu, hann var á öðru máli, ég bað hann afsökunar. Þetta geta þeir séð sem nenna að lesa.

Orð JSR dæma sig sjálf.

Gísli Ásgeirsson 11.4.2010 kl. 08:52

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég er skráður á Smettu (Facebook) en skil hana ekki og finnst hún því fádæma leiðinleg. Fer þar inn svona einu sinni í mánuði að vita hvort ég verði einhvers vísari en það hefur ekki orðið hingað til. Nema helst að skoða myndasöfn afkomenda minna.

Sigurður Hreiðar, 11.4.2010 kl. 14:42

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér finnst leiðigjarnt til lengdar að lesa illa kveðnar vísur og mér finnst að þeir sem eru í því að framleiða slíkt, eigi að halda því fyrir sjálfa sig.

Vísurnar hans Steina Briem eru ekki til útflutnings.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.4.2010 kl. 16:11

5 identicon

Hvaða, hvaða ... eru ekki allir vinir? Bendi á að ég var að fá glænýjar Húmorpumpur fyrir þá sem hafa verið að missa niður húmorinn undanfarið.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 11.4.2010 kl. 16:36

6 identicon

Steini Briem er sá allra skemmtilegasti á moggablogginu og fésinu og sé ég ekkert nema húmor og skemmtilegheit í vísunum hjá honum. Áfram Steini Briem:)

Pæja 11.4.2010 kl. 17:35

7 Smámynd: Kama Sutra

Ég er sammála Pæjunni.  Ég hef mjög gaman að vísunum hans Steina - þær eru bæði fyndnar og skemmtilegar.  Mér gæti ekki staðið meira á sama hvort þær eru "rétt" ortar eða ekki.

Þeir sem ekki fíla vísurnar, geta þá bara sleppt því að lesa þær.  Varla er neinn að halda hníf að hálsinum á fólki til að pína það til að lesa þær?

Kama Sutra, 11.4.2010 kl. 18:01

8 identicon

Steini minn ... láttu þessa neikvæðu alvitringa ekki hafa þessi áhrif á þig ... þú ert langbestur ... koddu til baka og segðu okkur vísur. Gerðu það ...

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 11.4.2010 kl. 18:09

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég var ekkert sérstaklega að visa til þín Gísli með málfars og rímnafasisma. Hér að ofan er eitt himinhrópandi dæmi í gleðispillinum Gunnari Th. beturvita með meiru.

Gunnar: Hvernig væri að skella fram eins og einu "rétt" kveðnu erindi eftir sjálfan þig?

Fyrirgefðu Sæmi, ég er kannski að útfæra fyrirsögnina þína helst til bókstaflega, en það sýður í mér blóðið, þegar ég sé svona yfirþyrmandi analisma og sjálfhverfu. 

 Djöfull held ég að það sé erfitt að vera svona og neyðast til að vera í sama herbergi og maður sjálfur alla tíð og komast ekki frá.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.4.2010 kl. 18:38

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jón Steinar (gleðigjafi?), ég þarf ekki að vera hagyrðingur til að þekkja og kunnna að meta góðan kveðskap.

Ég get látið hér ferskeytlu flakka sem ég samdi þegar ég var 11 ára. Húna er að vísu ekki alveg gallalaus m.t.t. bragfræðinnar, en mér hlýtur að fyrirgefast það.

Fálki flýgur yfir mó,

feita rjúpu leggur.

Að brjósti hennar beinir kló

og beinin sundur heggur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.4.2010 kl. 20:00

11 Smámynd: Kama Sutra

Mætti ég frekar biðja um vísurnar hans Steina.  Þær eru allavega fyndnar.

Kama Sutra, 11.4.2010 kl. 21:22

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ekki gallalaus, nei. Færi betur á að segja beitir í stað beinir. En það er þó kannski bara smekksatriði.  Stuðlar og höfuðstafir eru á skjön á milli atkvæða, svo ég verði líka svolítið anal. Áherslan í öðru orði fyrstu línu en en þriðja (fjórða) orði í þriðju línu.

Allt í steik, en ellefu ára snáða fyrirgefst það.  Þótt þér þyki mósart góður, þá er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að líða það að áhugamenn spili fyrir fólk.  Það er nú eiginlega mitt point.  Frámunalegur dónaskapur og sjálfumgleði að geta ekki staðist það að gera lítið úr því sem fólk er að gera sér til gamans. 

Athugasemdir þínar hjá Jensi Guð við rapptexta drengsins sem vann söngvakeppni framhaldskólanna voru vægast sagt aumkunarverðar.  Ég hugsa að það sé ekki nokkur maður að rukka þig um álit, þótt þú gefir þau svona rausnarlega á báðar hendur. Hvað þá að nokkur taki svona fýlupúka alvarlega.

Hlakka til að heyra gagnrýni þína á uppsetningu Jólaguðspjallsins hjá leikhópnum perlunni, eða bara umsagnir um sönghæfni leiskólabarna.  Taktu einn svona Jón Viðar á það líka. Um að gera að drepa alla jákvæðni, sem kynni að örla fyrir á þessum alvörutímum.  

Jón Steinar Ragnarsson, 11.4.2010 kl. 21:53

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einn "fúll á móti"

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.4.2010 kl. 21:59

14 identicon

Talandi um Fýlupúka og "fúla á móti" ... Ég fæ í vikunni prufusendingu af "Fýlueyðum", gænýrri japanskri uppfinningu sem eyðir fýlu úr Fýlupúkum á um það bil þremur klukkustundum.

Haldiði að það sé einhver markaður hér að landi fyrir svoleiðis græju?

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 12.4.2010 kl. 02:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband