952 - Atkvæðagreiðslan og ýmislegt fleira

Er að fylgjast með nýjustu tölum. Ekki er spenningurinn mikill. Sýnist kjörsókn vera svipuð og búast mátti við. Átti ekki von á að úrslitin yrðu svona afgerandi en það er ágætt að þau voru það. Hver túlkar þau auðvitað á sinn hátt. Verst að hætt er við að þetta sé enginn endapunktur á Icesave-málinu. Framtíð ríkisstjórnarinnar verður líklega mest til umræðu á næstunni. Best væri auðvitað að hvíla sig á þessum ósköpum öllum saman. Ekki geta það þó allir. Nú bíða flestir eftir því að byrjað verði að hrekkja útrásarvíkingana.

Aðfaranótt síðastlisins föstudags dreymdi mig að ég væri í heljarmikilli veislu hjá Ómari Kristjánssyni sem áður rak þýsk-íslenska verslunarfélagið. Í draumnum þótti mér sem ég hefði áður verið í svipaðri veislu hjá honum. Allir gátu fengið það sem þá langaði mest í og ráfað um landareign hans í Mosfellssveit. (Þetta var bara svona í draumnum. Ég veit ekki til þess að hann eigi neina landareign í Mosfellssveit.) Ég gæti auðvitað lýst þessari veislu í smáatriðum en það þjónar engum tilgangi.

Ómar sjálfan var hvergi að sjá í veislunni og furðaði ég mig á því. Hakkaði þó í mig það sem mig langaði mest í og mikill fjöldi fólks var þarna samankominn. Veðrið var bærilegt en þó var að minnsta kosti hluti veisluhaldanna í tjöldum.

Tefldi þrjár skákir í deildakeppni skáksambandsins í Rimaskóla núna um helgina og er þreyttur vel eftir það. Einkennilegt hve erfitt er að rata í Grafarvoginum. Týndi Rimaskóla hvað eftir annað en fann hann jafnan aftur sem betur fer. Eitt sinn villtist ég í svartaþoku í Grafarholtinu og hafði litla hugmynd um hvar ég flæktist. Keyrði svo útúr þokunni á Gullinbrú og þá var eftirleikurinn auðveldur.

Einkennilegt er að nú skuli innvígður og innmúraður sjálfstæðismaður vera orðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Skiptir mig auðvitað ekki miklu máli því ég les það sjaldnast. Talsvert margir held ég samt að geri það og mögulega hefur þessi ráðning áhrif. Held samt að Ólaftur Stephensen sé fyrst og fremst fagmaður. Hann þurfti líka að víkja fyrir Davíð við Morgunblaðið svo ef til vill er honum ekki alls varnað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmi hjá Kristjánssyni,
sínum hjartans vini,
af kynlegu er hann kyni,
karlinn sá úr tini.

Galdrakarlinn í Oz

Þorsteinn Briem, 7.3.2010 kl. 06:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband