950 - Af hverju er Ísbjörg Kjartansdóttir?

Ætli ég haldi ekki áfram að skrifa um Icesave og þess háttar vitleysu fram að þjóðaratkvæðagreiðslu. Finnst samt meira gaman að skrifa um annað og held að lesendur mínir kynnu betur að meta það. 

Það sem ég vildi sagt hafa er að líklega semja Bretar og Hollendingar við okkur á síðustu stundu eða þeir semja alls ekki. Með því að semja nú geta þeir haft áhrif á atkvæðagreiðsluna. Auðvitað er ekki að vita hver þau áhrif verða en að henni lokinni hafa þeir enga ástæðu til að flýta sér að semja.

Samninganefndin sem nú er í Bretlandi er alls ekki samninganefnd ríkisins heldur allra þingflokkanna. Ekki er þó að sjá að Sigmundur Davíð vilji semja en hugsanlega Bjarni Ben. Ég er alveg andvígur SDG í því að samningsleysi er mun verra en samningur. Þetta mál verður ekki leyst öðruvísi. Hægt er að rövla og rífast um lagaflækjur og þess háttar út í það óendanlega.

Vonandi verður næsta þjóðaratkvæðagreiðsla um eitthvað áþreifanlegra. Til dæmis um kvótann eða hvort efna skuli til stjórnlagaþings og þá hvenær og hvernig. Með nýrri stjórnarskrá yrði væntanlega gengið af núverandi flokkaskipan dauðri. Er það ekki einmitt það sem flestir vilja?

Réttast væri að halda stjórnlagaþing fljótlega. Slík þing voru síðast í tísku þegar einveldi konunga leið undir lok og lýðræði tók við. Lýðræði það sem við Íslendingar höfum búið við að undanförnu hefur reynst stórlega gallað og stjórnarskrá sú sem við höfum haft lengi er í raun ekki annað en plagg sem Danir hentu í okkur á sínum tíma og að flestu leyti afrit af þeirra eigin stjórnarskrá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Auðvaldið mátti ekki styggja
og talsamband varð að tryggja.
Landsbankann skyldi gefa,
góðvinum FLokksins án efa,
óviturt eftir á að hyggja.

Bjöggi í botn allt gaf
ekkert var slegið af
Skipun dagsins var gróði,
gáfu í flokkanna sjóði,
sigldu á Ísbjörg og sukku í kaf
áhöfn þjóðarskútunnar svaf.

Um oss Jóhanna reisti gjaldborg
gaf hún samt loforð um skjaldborg.
Skálkar fengu að sukka,
svo á okkur að rukka,
reist verður kannski tjaldborg?

Aðrar þjóðir oss ofbeldi beita
Bretland og Holland þær heita.
Til reiði þeir mig reita
ráðningu mun ég þeim veita
og Icesave á laugardag neita.

Theódór Norðkvist, 5.3.2010 kl. 02:58

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Held hann SD hundfúll sé,
honum ekkert látum í té,
í fyrra varð í flokknum B,
formaður eins og Mao Tse.

Þorsteinn Briem, 5.3.2010 kl. 03:20

3 identicon

Fínustu vísur hjá ykkur Theódór og Steini........Fyrir mér og fleirum er að koma upp óskastaða. Nú er bara að vona að við (og þá reynir að sjálfsögðu mest á skrípastjórnina sem við höfum nú við völd) náum að nýta okkur hana. Í stað þess að bíða skjálfandi á hnjánum og vona að sá brúni opni munninn og mæli við okkur þá væri best ef hann sleppti því alfarið og færi bara í mál við okkur. Þannig fengist vonandi réttlát niðurstaða í þetta mál. Ég held við íslendingar gætum sætt okkur við að skuldinni væri skipt jafnt í 3 hluta, á milli okkar, breta og hollendinga. Við eigum öll jafna sök á því hvernig komið er.

assa 5.3.2010 kl. 07:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband