925 - Sjónvarp Akureyri

Oft kemur ókunnugum á óvart hve langur aðdragandi tækninýjunga er. Til dæmis halda margir að Internetið sé tiltölulega nýlegt fyrirbæri. Svo er þó alls ekki. Það er að vísu rétt að það náði ekki verulegri útbreiðslu hér á Íslandi fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar. 

Þá hafði það þó verið við lýði í marga áratugi og notið talsverðra vinsælda meðal háskólafólks og hernaðarsérfræðinga. Einkum var það í Bandaríkjunum sem það var notað.

Almenningur notaði hinsvegar gjarnan BBS-kerfin svokölluðu sem tengdu tölvur saman með símalínum. Talsvert var um slík kerfi hér á landi og eitt sinn bjó ég til lista um slík kerfi sem ég þekkti. Tölvuþróun réð miklu um þessa tækni og tölvur urðu varla almenningseign hér á landi fyrr en eftir 1980.

Annars ætlaði ég ekki að tala um Internetið hér heldur sjónvarpið. Þeim sem ekki þekkja til kemur ef til vill á óvart að fyrstu tilraunaútsendingar með sjónvarp fóru fram hér á landi árin 1934 til 1936. Já, þetta er engin prentvilla. Það var á fyrri hluta síðustu aldar sem þetta átti sér stað. Að vísu var aðeins um móttöku merkja að ræða en útsendingar áttu sér stað frá Crystal Palace Studios í Lundúnum.

Frá þessu er sagt í bók sem gefin var út árið 2007 í tilefni 20 ára afmælis Háskólans á Akureyri. Það var breski trúboðinn Arthur Gook sem segja má að hafi á vissan hátt staðið fyrir þessu. Hann hafði flutt inn til Akureyrar vönduð tæki til útvarpsrekstrar. Tilraunaútsendingar gengu hinsvegar ekkert sérstaklega vel og þegar að því kom að Íslenskt útvarp komst á laggirnar var leyfi Gooks afturkallað.

Tækin voru þó enn til staðar og þegar tilraunir til sjónvarpsútsendinga hófust nokkru fyrir síðari heimsstyrjöld voru Bretar mjög framarlega í þeirri tækni sem til þurfti. Baird-fyrirtækið barðist fyrir því að BBC tæki upp á sína arma vélræna en ekki rafræna tækni við sjónvarpsútsendingar. Til að flytja slíkt merki voru útvarpsbylgjur notaðar og einmitt þar komu tækin á Akureyri til sögunnar.

Það voru þeir verkfræðingurinn breski Fredrik Livingstone Hogg og Grímur Sigurðsson síðar útvarpsvirki til margra áratuga sem einkum stóðu að þessu. Hluta búnaðarins sem notaður var fengu þeir erlendis frá en margt urðu þeir að smíða sjálfir.

Frásögn af þessu hefur oft birst en aldrei vakið neina verulega athygli. Grímur Sigurðsson vildi þó fyrir hvern mun koma vitneskju um þetta á framfæri en gekk það illa. Hann dó árið 1984 og tók eflaust margt af því sem við nú vildum gjarnan vita um þetta merka framtak með sér í gröfina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband