924 - Breytt stjórnskipan

Nú líður að hinni umtöluðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Margir vilja þó komast hjá henni og stjórnmálamenn rembast sem rúpan við staurinn við að finna einhverja aðferð til þess. Kannski eru þeir bara búnir að mála sig útí horn allir sem einn. 

Úrslitin í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu munu ráðast af því hvað gerist á næstu vikum í íslenskum stjórnmálum. Engin hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum hér og þýðingarlaus er hún ekki nema kjósendur ákveði að svo sé. Samt er meira og minna óljóst hvað muni gerast að henni lokinni. Ég er alls ekki búinn að ákveða hvernig ég muni verja atkvæði mínu og ekki víst að ég geri það fyrr á síðustu stundu.

Kristrún Heimisdóttir fyrrum aðstoðarmaður ráðherra en nú sjálfstætt starfandi lögfræðingur skrifar ágæta grein um Icesave í Fréttablaðið. Ekki er annað að sjá á greininni en Kristrún sé þeirrar skoðunar að mistök hafi verið gerð þegar málið fór í þann farveg sem það hefur verið fast í að undanförnu. Alþingi hefur ekki með góðu viljað fallast á þær skilgreiningar sem þar eru og forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson hefur ákveðið að skjóta málinu til þjóðarinnar.

Það er galli að Ólafur Ragnar Grímsson forseti landsins skuli tjá sig um málefni þess án alls samráðs við ríkisstjórnina. Mér finnst hann að vísu hafa alveg rétt fyrir sér en það er engu að síður nauðsynlegt að æðsta stjórn ríkisins sé sæmilega samstíga í málflutningi sínum. Ólafi finnst hann eflaust vera að stíga inn í einhvers konar tómarúm sem skapast hafi.

Vissulega eru tímarnir nú óvenjulegir en ef forseti landsins fer að koma fram sem valdamaður þá er stjórnskipanin breytt. Hingað til hefur ríkisstjórnin ráðið og forsetinn ekki látið í ljós skoðanir sínar hafi verið hægt að túlka þær sem afskipti af málefnum sem ríkisstjórnin er vön að ráða.

Það hefur áður komið fram í bloggskrifum mínum að ég telji lagaleg og siðferðileg rök hníga að því að víð Íslendingar eigum að borga okkar Icesave skuldir. Í pistli Kristrúnar sem vikið er að hér að ofan kemur fram að álit hennar er að pólitísk og hagfræðileg rök sýni að endurskoða þurfi málið frá grunni. Hvort já eða nei þjónar best hagsmunum landsins í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu er einfaldlega ómögulegt að segja.

Les sjaldan ljóðabækur.
Var samt að enda við hundgána hans Eyþórs.
Vel skrifuð og lýsandi.
Fáir punktar. Engar kommur. Góð bók.
Undarlegt með þessi skrif.
Sumir skrifa lítið en aðrir mikið,
alltof mikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband