3047 - Um Þórberg Þórðarson (og Trump)

Einhvers staðar sá ég minnst á fataherbergi. Það minnir mig á Þórberg Þórðarson. Þetta þarf ég væntanlega að útskýra nánar. Eitt sinn var ég nefnilega verslunarstjóri í Silla&Valda búð á Hringbrautinni. Í sama húsi bjó Þórbergur. Í bókum sínum talar hann oft um umskiptingastofuna. Það hefur sennilega verið herbergi sem var notað af honum, og hugsanlega Möggu líka, sem einskonar fataherbergi. Fékk nokkurskonar hugljómum um þetta núna rétt áðan. Kannski hefur þetta komið fram áður. Ég veit ekkert um það. Hef ekki einu sinni lesið bækurnar sem Pétur Gunnarsson skrifaði um Þórberg. Svo hef ég ekki einu sinni komið á Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit. Man bara eftir þvi að Lilla Hegga kom eitt sinn í heimsókn til Birnu systur sinnar þegar ég var á Bifröst.

Enn get ég ekki annað en minnst á Trump. Upphaflega taldi ég að ekki gæti orðið af kæru fyrir embættisglöp (impeachment). Einkum taldi ég það vera vegna tímaskorts og að ekki væri ástæða til að efna til aukinnar úlfúðar í þjóðfélaginu. Nýlega sá ég því haldið fram að Mitch McConnell væri að snúast gegn honum. Í bréfi sem hann sendi nýlega til kollega sinna í repúblikanaflokknum kveðst hann munu ef til vill greiða atkvæði með sakfellingu Trumps. Ef svipaður bilbugur kemur í ljós hjá Kellyanne Conway og Söru Sanders er ég tilbúinn til að endurskoða þessa afstöðu mína og breyta henni. Steve Bannon finnst mér ekki skipta máli. Hann er eins og Trump sjálfur upptekinn af eigin skinni.

Konurnar tvær og McConnell munu einkum gera þetta með heill repúblikanaflokksins í huga og sú röksemd er þung að með því megi koma í veg fyrir að hann bjóði sig fram árið 2024. Þannig megi koma í veg fyrir að það hreðjatak sem hann óneitanlega hefur á flokknum, verði til þess að koma í veg fyrir að góður og gegn flokksmaður komist í framboð það ár.

Alltaf styttast bloggin hjá mér. Þetta er ég samt að hugsa um láta duga að þessu sinni.

IMG 5091Einhver mynd.


Bloggfærslur 14. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband