3007 - Kartöflugarðar og önnur fyrirtæki

Að minnsta kosti tveir Þorsteinar lesa bloggið mitt að staðaldri. Kommenta oft á það sem ég skrifa. Báðir eru þeim miklir sérfræðingar, en það er ég ekki. Ég er gamalmenni. Komst á sínum tíma lengst á fræðasviðinu fyrir ríflega hálfri öld með því að komast á Samvinnuskólann að Bifröst árið 1959. Við útskrift þaðan var ég í slöku meðallagi hvað einkunnir snerti.

Steini Briem segist hafa unnið á Morgunblaðinu og verið næturvörður í Seðlabankanum. Hann bloggar ekki sjálfur núorðið á Moggablogginu en lætur ljós sitt skína víða annarsstaðar. Hefur mikið yndi af fyrirsögnum og feitletrunum. Fjármál eru hans ær og kýr. Hinn Þorsteinninn er Siglaugsson og er ef til vill tiltölulega nýútskrifaður lögfræðingur. Að því er ég best veit hefur hann fyrir ekki löngu hafið Moggablogg eitt mikið og á örugglega framtíð fyrir sér sem slíkur. Veit ýmislegt en hljómar stundum eins og kennslubók í hagfræði.

Þó ég hafi horn í síðu fésbókarinnar er ekki þar með sagt að ég kenni henni um allt sem aflaga fer í samskiptum fólks. Ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega vill gjarnan tosa landinu í átt til Bandaríkja Norður-Ameríku, en ég og aðrir vinstri menn viljum gjarnan að landið þokist meira í átt til Evrópu og Norðurlandanna sérstaklega og þar með í átt til ESB. Auðvitað er þetta ekki einfalt mál og margar hliðar á því. Vextir Seðlabankans og það hvort eitt pínulítið flugfélag lifir eða deyr eru smámál í stóra samhenginu. Allt er komið undir þróuninni.

Í bloggi um daginn sagði ég eitthvað á þá leið að hlutabréf væru ímynduð verðmæti. Við það stend ég og geri ekki þann greinarmun á kartöflugörðum og öðrum fyrirtækjum sem Þorsteinn Siglaugsson vill gera. Hlutabréf geta sem best verið einskonar afurð. Meirafíflskenninguna vil ég standa við. Minnir að ég hafi fyrst heyrt um hana í einhverju sem haft var eftir Margeiri Péturssyni. Engin furða er þó ekki fallist allir á það að hlutabréfamarkaðurinn sé nútíma vestræn útgáfa af keðjubréfum. Þessi skoðun er nefnilega talsvert róttæk og ég eigna mér hana allsekki. Blessuð keðjubréfin tröllriðu nefnilega einu sinni Íslenskum veruleika.

IMG 5492Einhver mynd.


Bloggfærslur 15. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband