2981 - Kynjun tungumálsins

Kynjun tungumálisins getur verið með margvíslegum hætti. Fyrir skemmstu var ég að lesa frétt á mbl.is. Þar stóð: „Þau sem hafa keypt sér miða.“ Þarna var verið að tala um Þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum. Ég er nú svo gamall og myglaður að mér hefði fundist eðlilegra að þarna hefði staðið: „Þeir sem hafa“. Konur eru nefnilega menn, eins og oft er sagt. Blaðamaðurinn hefur þó líklega bara verið að forðast að styggja feminista, því það er alveg rétt hjá þeim að allt getur haft áhrif. Ef hann hefði skrifað: „Þær sem hafa“, hefði það frekar misskilist, þó auðvitað gæti hann hafa haft orðið manneskjur í huga.

Svokallaður Banksy er gott dæmi um snobbið í listaheiminum. Hirði ekki um að gera nánari grein fyrir honum. Sennilega kannast flestir við verk hans. Nýlega var gerð stórkostleg frétt úr því að hreingerninngarfólk hafi fjarlægt listaverk eftir hann og greinilega haldið að um venjulegt veggjakrot væri að ræða. Sem það auðvitað var. Vissulega á snobb alls ekki við um nema lítið brot af listafólki. Þessi Banksy er sennilega undarlegt samkrull af listamanni og veggjakrotara. Auk þess hefur hann greinilega gott lag á fjölmiðlum. Alltaf vilja þeir, sem þar starfa, láta á sér bera og skrifa fréttir sem margir vilja lesa. Það er ekki nema von. Athygli fjöldans er oft auðvelt að breyta í pólitík. Svokallaðir álitsgjafar eru af svipuðum meiði. Margir þeirra eru að láta allskyns fyrirtæki nota sig til auglýsinga. Vitanlega þurfa þeir einhverjar tekjur. Oft hefur þeim tekist að vekja nægilega athygli á sér áður á fésbókinni eða öðrum félagslegum miðlum með ýmsum hætti. Kannski er ég að reyna að vekja athygli á mér sem „gamalmennabloggara“. Til slíks er Moggabloggið einmitt heppilegt.

Hugleiðingar mínar um heimsmálin og Trump forseta hugnast kannski einhverjum. Það eru samt fáir sem gera athugasemdir hér samanborið við þau hundruð sem stundum kíkja hér inn og lesa hugsanlega bloggið mitt. Slík verður að rækta. Það hefur Jens Guð gert aðdáunarlega vel. Visserbesserar eins og Villi í Köben eiga í erfiðleikum núna á þessum Google-tímum. Samt hefur hann stóran lesendahóp hér. Ég er gamall besservisser sjálfur, en reyni samt á þessum Google og Veiru-tímum að blogga um aðskiljanlegustu hluti. Kannski hef ég mest vit á skák og bókmenntum. Forðast samt að blogga mikið um slíkt. Ekki veit ég hversvegna. Stjórnmál þykja mér oft heldur þunnur þrettándi en skrifa samt mikið um þau. Endursögn á einhverju sem ég hef lesið eru þau stundum, jafnvel oft.

IMG 5764Einhver mynd.


Bloggfærslur 16. júlí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband