2980 - Fráflæðisvandi og fleira

Nýtt kalt stríð er greinilega í uppsiglingu. Að þessu sinni er það ekki á milli Sovétríkjanna og USA heldur er Kína komið í stað Sovétríkjanna. Pútín Rússlandsforseti er í hlutverki púkans á fjósbitanum, sem álítur það sinn hag að þessir fjendur eyði sem mestu í allskyns vopn og verjur, og til þess að hafa sem mest áhrif á aðrar þjóðir. Trump skiptir ekki miklu máli í þessu sambandi nema kannski fyrir heimsku sakir. Bandaríkjamenn vilja gjarnan að Evrópuríkin sjái sem mest um sig sjálf. Englendingar vilja vera memm USA. Johnson er kannski ekki eins skyni skroppinn og Trump ræfillinn, þó Englendinar séu langt frá því að vera það heimsveldi sem þeir eitt sinn voru. Þetta eru hugleiðingar mínar um heimsmálin í dag.

Þessi intermittent fasting sem ég er búinn að vera í að mestu leyti í síðan um síðustu áramót gengur bara nokkuð vel og mér finnst ég hafa breyst talsvert við það. Ég fer líka í svona klukkutíma langa gönguferð flesta morgna. Kannski er skynsamlegt að blogga sem mest um sjálfan sig. Aðrir gera það ekki. Þessi blogg mín fá við það heilmikinn dagbókarsvip. Hver veit nema það sé einmitt af hinu góða. Þeir sem þó lesa þessi ósköp munu eflaust halda því áfram þó ég bloggi mest um sjálfan mig.

Um daginn  kláraði ég að lesa bókina „The Chomolungma diaries“ eftir Mark Horrell. Þetta er allnákvæm dagbók um göngu á Everest að norðanverðu eða frá Tibet. Venjulega er á gengið á fjallið að sunnarverðu eða frá Nepal. Þetta er bók sem ég fékk ókeypis í Kyndilinn minn frá Amazon. Sannar frásagnir af löngum og erfiðum ferðum eiga vel við mig. Mér leiðast krimmar. Þetta er nokkuð góð bók og engin ástæða til að efast um að nokkurn vegin satt og rétt sé sagt frá. Everest er alveg sérstakur bókaflokkur og ekki er hægt að fara í grafgötur með það að Mark Horrell er greinilega einn fremsti frásegjari af slíkum ferðum.   

Nú er ég kominn á einn af þessum frægu biðlistum. Ég fór til augnlæknis um daginn og nú stendur til að skipta um augasteina í mér. Bíð semsagt eftir því að komast að hjá Landsspítalanum. Sem betur fer kvelst ég ekki neitt og finnst ég sjá alveg sæmilega. Það er að segja ef ég er með réttu gleraugun. Gallinn er sá að ég gleymi oft að skipta um þau. Ömurlegra hlutskipti en að verða „fráflæðisvandamál“ á Landsspítalanum get ég varla hugsað mér.

Um daginn gerði ég vísu um deiluna milli Smára McCarthy og Kára Stefánssonar. Vísan var útaf fyrir sig ekkert merkileg og ég man ekkert hvernig hún var. Man samt að ég notaði orðin Smári og Kári fyrir aðalrímorð í henni og að þetta var ferskeytla. Ég var a.m.k. nógu ánægður með hana til þess að ég ætlaði að setja hana á Boðnarmjöð. En það gekk ekki því fésbókarræfillinn vildi ekki leyfa mér að nota nöfn sem rímorð og kom alltaf með einhverjar ógáfulegar og sjálfvirkar tillögur að öðrum og ítarlegri nöfnum en ég vildi nota. Að endingu gafst ég alveg upp á þessu. Auðvitað hefði ég sennilega getað tekið þessa sjálfvirkni af ef ég hefði kunnað nógu vel á Fésbókarforritið. Einhvernvegin finnst mér þó að Fésbókarfræði sé ekki mín deild.

100kr 0002Einhver mynd.


Bloggfærslur 13. júlí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband