2979 - Enn um helvítið hann Trump

Það er orðið nokkuð langt síðan ég hef bloggað. Nú er ég andvaka og ágætur tími til þess. Kórónuhræðslan hefur stórlega minnkað hjá mér. Ég er t.d. miklu minna hræddur við hurðarhúna og lyftuhnappa en ég var. Hvað mig snertir er lífið óðum að færast í sama horf og áður. Stórfjölskyldan hefur heldur ekki orðið fyrir neinum meiri háttar áföllum vegna veirufjandans, en kannski er of snemmt að fagna sigri í því efni. Við fáum okkur sennilega nýjan bíl eftir helgina. Þá er eftir að selja Fókusinn. Svalalokun erum við líka að hugsa um að fá okkur.

Ekki get ég með öllu hætt að hugsa um Trump og heimspólitíkina. Sennilega er ég í grunninn svolítið íhaldssamur, þó ég álíti mig vinstrisinnaðan. Auðvitað er Trump stórskrítinn. Allt öðruvísi forseti en bæði Bandaríkjamenn og aðrir eru vanir. Í heildina tekið eru Bandaríkjamenn ekkert stórlega öðruvísi en annað fólk. Þeir vilja fara eftir lögum, leggja mikla áherslu á mannréttindi og persónufrelsi. Þar standa þeir framarlega. Vantrú almennings á stjórnvöldum og einkum því elítukerfi, sem óneitanlega þrífst í kringum Alríkisstjórnina í Washington, er mikil. Þessvegna voru þeir á sínum tíma (2016) tilbúnir til að kjósa Trump þrátt fyrir alla hans galla. Af hverju í ósköpunum kusu þeir þá þennan ömurlega og spillta auðmann? Ástæðan er einkum sú að þeir fundu að hann var óvenjulegur og barðist á móti stofnanaveldinu. Pressan hefur með örfáum undantekninum verið á móti honum. Segja má að hann hafi sveigt Repúblikanaflokkinn að sínum eigin öfgum. Með þeim hefur hann vonandi tryggt sér sögulegan ósigur í kosningunum í haust. Ætlun hans hefur eflaust verið að tryggja sér endurkjör með blómlegu efnahagslífi, en kórónuveiran hefur svo sannarlega komið í veg fyrir það. Með óbreyttri Trump-stefnu munu Bandaríkjamenn, sem greinilega hafa ákveðið að snúa sér fremur að öðrum heimshlutum en Evrópu, upplifa vaxandi einangrunarstefnu og minnkandi áhrif þrátt fyrir yfirburða hernaðarmátt.

Að minnast á þrennt að minnsta kosti í hverju bloggi er minn stíll. Ástæðulaust með öllu er að blogga daglega. Í síðustu viku var Helena (sem er að verða átta ára) hjá okkur alveg frá sunnudegi til föstudags og stóð sig með afbrigðum vel. Einskonar sumarbúðir hjá henni og í framtíðinni verður það minna átak fyrir hana að vera án foreldranna.

IMG 5769Einhver mynd.


Bloggfærslur 12. júlí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband