2969 - Hinn trompaði Trump

Þessar týpur sem allt vita, eða þykjast vita, og allt geta eru dálítið þreytandi til lengdar. Stundum er samt auðvelt að læra á þær og þá má fá þær án fyrirhafnar til að gera allan fjandann með því að fara rétt að þeim. Ef þær eru látnar komast upp með allt og ná of miklum völdum geta þær valdið talsverðum skaða. Frægasta dæmið um slíkt er Trump Bandaríkjaforseti. Hann hefur greinilega náð alltof miklum völdum og veldur gríðarlegum skaða. Auðvitað geta bandaríkjamenn sjálfum sér um kennt, að hafa kosið þetta gerpi til ábyrgðarstarfa. Samt verður að gera gott úr þessu og láta sem ekkert sé. Mistök af þessu tagi getur verið erfitt að leiðrétta, en í hinum vestræna heimi er slíkt samt gerlegt á fjögurra ára fresti. Það verður líka gert í haust. Verst er að sá sem tekur við er ekki mikill bógur þó hann sé að flestu leyti mun skárri en Trump. Annars skiptir stundum mestu máli í svona tilfellum hvernig nánustu aðstoðarmenn gerpisins haga sér.

Að fylla umhverfi sitt með áhugaverðu efni. Snýst fésbókin ekki aðallega um það? Fæstum tekst þetta almennilega, en þegar allt kemur saman má kannski segja að út úr því komi efni sem er áhugavert fyrir einhverja. Spurningin er bara hvar í fjandanum þeir eru. Sennilega halda þeir sig í mikilli fjarlægð. Afleiðingin verður yfirleitt sú að maður verður að leika þessa einhverja sjálfur og það er hundleiðinlegt. Er fésbókin þá hundleiðinleg? Það finnst kannski einhverjum, en flestir eru sífellt að leita. Verst að þeir vita ekki að hverju þeir eru að leita. Svona má fabúlera endalaust án þess að nokkuð komi útúr því.

Nú er ég farinn að liggja miklu meira fyrir í hjónarúminu, en ég áður gerði. Rúmið er líka miklu fullkomnara núna. Hægt að stilla það á marga vegu. Geimfarastillingin hugnast mér best. Þar fæ ég líka þessar geníölu hugmyndir alveg á færibandi. Ég nenni samt ekki nærri alltaf að koma þeim á blað þó þær eigi það vissulega skilið. Þyrfti að finna einhverja aðferð til þess að geta forðað þessum snjöllu hugsunum frá því að gleymast. Þarf semsagt að reyna að skrifa þó ég liggi útaf. Það gæti orðið erfitt. Allt má þó reyna.

Hvar eru takmörk mannlegrar snilli? Kannski felast þau í að koma sér sem oftast úr rúminu og að tölvunni. Mér hefur að minnsta kosti reynst það vel. Með því að afstilla geimfarastillinguna og flýta sér að tölvunni hefur mér tekist að forða margri snjallri hugsuninni frá gleymsku og dái. Þannin vil ég starfa. Með því stuðla ég að aukinni fjölbreytni í hugsunum homo sapiens sapiens.

Já, svona er hægt að halda lengi áfram. Er ekki bara best að hrósa sjálfum sér nógu mikið. Ekki gera aðrir það.

IMG 5800Einhver mynd.


Bloggfærslur 8. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband