2976 - Forsetakosningar

Mér skilst að um næstu helgi verði forsetakosningar. Mér finnst þó afar stutt síðan við kusum okkur forseta síðast. Að sumu leyti eru þessar kosningar óþarfar. Guðni vinnur þetta mjög augljóslega og mjög auðveldlega. Samt er það svo að sitjandi forsetar eiga ekki sjálfsagðan rétt á því að vera forsetar áfram, þó þeir vilji. Sennilega vilja flestir t.d. (ja, Íslendingar a.m.k.) að Trump bandaríkjaforseti tapi kosningunum sem verða þar í haust. Kannski er það að einhverju leyti vegna þess að allflestir fjölmiðlar virðast vera á móti honum. Það er samt allsekki aðalástæðan. Hún er sú að hugsunarháttur allmargra Bandaríkjamanna er gjörólíkur okkar Íslendinga og Evrópubúa yfirleitt.

Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar um næstu helgi hefur mestan part farið framhjá mér. Meðal annars held ég að það sé vegna þess að stjórnmálaflokkar, nema kannski Miðflokkurinn svonefndi, hafa leitt þær algjörlega hjá sér. Ekki er eðlilegt að gera forsetakosningar allt í einu pólitískar og lofa miklum breytingum. Það hefur samt annar frambjóðandinn svikalaust gert. Þessvegna m.a. má búast við því að hann tapi stórt. Á ýmsan hátt gæti Guðmundur Franklín samt sennilega orðið ágætur forseti, en hann tekur greinilega snarvitlausan pól í hæðina. Þetta eru ekki pólitískar kosningar, þó hann vildi vitanlega gjarnan að svo væri.

Flest það sem gerist í bandarískum stjórnmálum þessa dagana virðist vera Trump forseta mótdrægt. Vitanlega er það engin furða. Hann hefur hagað sér eins og asni undanfarið. Sennilega hefur honum fundist að fótunum væri kippt undan sér, þegar hagvöxturinn stöðvaðist. Hann er umfram allt fulltrúi hans. Sú gerviveröld er honum mikilvægari en allt sem lífsanda dregur. Sjálfan sig tekur hann væntanlega út fyrir sviga samt.

Kosningar og pólitík allskonar virðast vera mínar ær og kýr. Að minnsta kosti skrifa ég mest um þau fyrirbrigði. Það er mikilvægt að hafa skoðanir á slíku. Ekki ætlast ég þó til að lesendur mínir séu ætið sammála mér. Fjarri fer því. Samt finnst mér það hreinsandi að láta það á blað sem ég hugsa um þau mál. Auðvitað gæti ég skrifað um ýmislegt annað. A.m.k. finnst mér oft að áhugasvið mín séu ótrúlega fjölbreytt. Þó get ég ekki neitað því að með aldrinum hefur áhugamálum mínum fækkað nokkuð. Ennþá get ég samt skrifað um bækur og þessháttar, íþróttir, pólitík, trúmál, vísnagerð og margt fleira. Segja má ennfremur að Íslenskan sé eitt af mínum hugðarefnum. Ég er samt þeirrar skoðunar að þýðingarlaus með öllu sé sú aðfinnslu- og leiðréttingarárátta sem greinilega hrjáir suma.

Það er undarlegur siður hjá mér að vera sífellt að þessu bloggi án þess að hafa nokkuð að segja. Vonandi meiði ég samt fáa með þessum skrifum mínum.

IMG 5780Einhver mynd.


Bloggfærslur 25. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband