2973 - Ánamaðkar

Gerði eina smá örsögu áðan í miðri andvökunni og kannski ég láti hana bara flakka. Það er annars undarlegt með mig að þessar árans örsögur trufla mig mikið nú um stundir. Allt sem ég skrifa er þó einkum það sem lesendur minir (sem oft eru u.þ.b. 200 talsins) vilja sjá. Kannski vilja þeir ekki sjá þessar örsögur og þá hætti ég að skrifa þær að sjálfsögðu. Hef ég svo ekki þessi formálsorð fleiri.

- - - - - - - - - - - - - - - -

Einu sinni voru tveir ánamaðkar, sem hétu Jan og Jenna. Já, þetta voru strákur og stelpa. Engum sögum fer af þvi hvernin þeim áskotnuðust þessi nöfn. Nafngiftir eru alls ekki með sama sniði hjá ánamöðkum og öðrum. En nóg um það, við vitum þetta bara allsekki og við það verður að una. Reyndar skiptir litlu sem engu máli hvort nöfnin voru karlkyns eða kvenkyns því kynlíf ánamaðka er mjög frábrugðið því sem er hjá okkur mannfólkinu. En förum ekki nánar út í það.

Það var komið vor og moldin var ekki frosin lengur. Smám saman vöknuðu þau Jan og Jenna úr dvala sínum og fundu að regnvatnið seitlaði um allt. Þau leituðu til yfirborðsins eins og eðlisávísunin bauð þeim. Þessi eðlísávísun er frábrugðin venjulegum ávísunum að því leyti að hún er með öllu óskrifuð nema í DNA-ið hjá öllum ánamöðkum.

Apropos, eðlisávísun og DNA. Hún (eðlisávísunin altsvo) segir öllum ánamöðkum að passa sig á rigningunni, því að hún sé hættuleg. Drukknun geti verið afleiðing að of miklu vatnssulli.

Fljótlega komust þau í súldina. Framundan sér sáu þau gangstíg einn malbikaðan og fínan. Þangað fóru þau allshugar fegin, því þar virtist bleytan vera minni. En eins og allir vita þá forðast ánamaðkar rigningu eins og pestina, eða þ.e.a.s. Covid-19. Frá þeim að sjá í grasinu er malbikið hreinasta guðsblessun og þangað hröðuðu þau sér.

Ekki tók þar betra við því risi einn mikill og illúðlegur nálgaðist óðfluga. Þar var samt enga óða flugu að sjá heldur er bara tekið svona til orða í íslensku máli. Samkvæmt útreikningum einkaleyfaskrifstofu ánamaðafélagsins stefndi risi þessi beint á þau Jan og Jennu og samkvæmt nánari útreikningum sem þau fengu upplýsingar um gegnum snjallúrið sitt var útlit fyrir að hann mundi stíga á þau skötuhjúin í fyllingu tímans.

Sem hann og gerði og lýkur þar með þessari sorglegu sögu.

IMG 5789Einhver mynd.


Bloggfærslur 19. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband