2957 - Bloggar

Er kominn á þá skoðun að heppilegra sé að blogga oft og lítið í stað þess að láta gamminn geysa og blogga sem allra lengst og besservisserast sem mest. Þ.e.a.s. ef maður vill að margir lesi bloggin. Svo er það náttúrulega skilgreiningaratriði hvað er „margir“. Stjórnmál og allskonar átök eru vinsæl í þessu tilliti, en margt fleira getur skipt máli. Stýringar miðla eru miklar og mikilvægar í þessu sambandi. Tölvur stýra þessu eins og flestu. Algrím eða algorithmar ráða því oft hvaða fréttir og skoðanir þú sérð. Kannski er þetta ekki beinlínis ritskoðun en það er erfitt að eiga við þetta.

Ekki er nóg að vera á móti Fésbók og Instagram. Áhrifin og afskiptasemin eru feikilega mikil bæði þar og annarsstaðar. Mikið er talað um falsfréttir og erfitt getur verið að ákveða hverjum skuli treyst. Vefmiðlar eru flestir einskonar skoðanayfirlýsingar þó reynt sé að láta fréttayfirbragð skína frá þeim. Fréttirnar eru valdar og skýrðar í bak og fyrir. Pólitískar fréttir eru afleitar. Oft skiptir meira máli að koma skoðunum skrifarans að, en að segja frá fréttinni sjálfri og ýmsum útúrdúrum hennar á sem hlutlausastan hátt.

Auðveldast af öllu er fyrir bloggara að hafa allt á hornum sér. Auðvelt er að finna ýmislegt sem hæglega gæti farið betur. Aðfinnslur útaf málfari eru mjög algengar. Sérfræðingar á því sviði eru legíó. Æðsta boðorð allra bloggara ætti að vera að vera skiljanleg(ur). Kyngreining tungumálsins er eitt atriði sem hafa þarf í huga. Auðvitað skiptir máli hvaða orð eru notuð. Flestum orðum fylgir löng saga. Hún kann að vera mismunandi eftir móttakanda.

IMG 5917Einhver mynd.


Bloggfærslur 14. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband