12.5.2020 | 22:29
2956 - Trump og kosningarnar í haust
Trump Bandaríkjaforseti er mjög eða a.m.k. fremur óvinsæll meðal flestra þeirra sem ekki hafa kosningarétt í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sérstaklega virðist sumum þjóðarleiðtogun vera uppsigað við hann. Heimafólk hans, það er að segja Bandaríkjamenn eða nægilega stór hluti þeirra, kaus hann samt árið 2016. Munu þeir gera það aftur? Það er allsekki víst. Vinstri sinnað fólk á Vesturlöndum hefur reynt að halda því fram að hann hafi ekki fengið meirihluta atkvæða. Vissulega fékk hann færri atkvæði í heildina en Hillary Clinton. Kosningakerfið er þannig í Bandaríkjunum að hann var samt réttkjörinn forseti þar.
Yfirleitt er það tiltölulega auðvelt fyrir sitjandi forseta að tryggja sér endurkjör. Hann hefur gjarnan alla þræði í hendi sér. Mótframbjóðandinn þarf að koma honum frá. Oftast nær bera Bandaríkjamenn mikla virðingu fyrir forseta sínum og telja hann hafinn yfir pólitískt dægurþras. Varla er Trump eins ómögulegur forseti og Pressan vill hafa hann. Fyrstu ár hans á forsetastóli voru Bandaríkjunum mjög hagstæð efnahagslega og án efa hefur hann ætlað að notfæra sér það. Þar á bæ kjósa menn gjarnan með peningaveskinu. Frambjóðendur eyða líka vænum summum í auglýsingar.
Tvennt kemur samt til núna sem gerir kosningarnar í haust afar spennandi. Annað er að sjálfsögðu Covid-19 faraldurinn og afleiðingar hans. Hitt er að ef gert er ráð fyrir að fylgi þeirra sé í rauninni nokkuð jafnt er samt talsverður fjöldi fólks í báðum flokkum sem hatar báða frambjóðendur. Sá hópur kýs gjarnan að prófa eitthvað nýtt. Trump naut þess árið 2016, þá var Hillary álitin fulltrúi ríkjandi afla og auk þess fremur óvinsæl hjá sumum hópum. Hann nýtur þess samt allsekki núna.
Allt útlit er fyrir að Joe Biden verði frambjóðandi Demókrata. Hann hefur lengi haft afskipti af stjórnmálum og var varaforseti hjá Barack Obama. Er allsekki óumdeildur og þar að auki gæti þriðji frambjóðandinn hugsanlega ruglað þessu öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.5.2020 | 11:13
2655 - Bóluefni
Er einhver sérstök ástæða til að bjarga Flugleiðum? Mér finnst það ekki. Að vandræði þeirra séu flugfreyjum að kenna eða flugmönnum er fjarstæðukennt í meira lagi. Fyrirtækið er sennilega bara illa rekið. Öll flugfélög í heiminum eiga í miklum vandræðum um þessar mundir. Áðan sá ég þotustrik á himninum, en þau eru jafnsjaldséð núorðið og sumir fuglar. Að Flugleiðir, eða Icelandair eins og þeir kjósa víst að láta kalla sig, geti e.t.v. bjargað þeim sem látið hafa peninga sína í hótelbyggingar að undanförnu er vonarpeningur í besta falli.
Þær þrengingar sem kunna að vera í vændum fyrir okkur Íslendinga kunna að vera miklar og margvíslegar. En hvort sem þær verða af efnahagslegum toga eða öðrum er ekki um annað að ræða en að standa saman þar til þær eru að mestu yfirstaðnar. Pólitískar hræringar kunna að verða miklar og engin leið er að spá neinu um hvernig þær verða. En hvernig sem allt veltist og snýst munum við komast út úr þessum þrengingum og takast á við framtíðina.
Engir svelta á Íslandi (skilst mér) og alltaf er hægt að fara uppávið með kröfurnar og á margan hátt höfum við það bara fjandi gott hérna. Jafnvel í Bandaríkjunum, sem margir álíta himnaríki á jörð, er faraldursaðstoð við almenning meiri en samskonar aðstoð við fyrirtæki. Að flestu leyti höfum við Íslendingar farið ótrúlega vel útúr þeim hremmingum sem Covid-19 hefur valdið í veröldinni. Ef bóluefni finnst fljótlega, og við höfum efni á að kaupa það, gætum við vel flotið ofaná.
Framtíðin verður ef til vill talsvert öðruvísi en við gerðum ráð fyrir, en við þvi er ekkert að gera. Hvernig hún verður, að loknum þessum veirufaraldri er ekki nokkur leið að vita. Við sem elst erum munum hverfa héðan áður en mjög langt um líður. Þegar við vorum að alast upp um miðja síðustu öld var tuttugasta og fyrsta öldin langt í fjarska og mörg okkar gerðum ráð fyrir að hún yrði með öllu áhyggjulaus og vissulega er hún það, ef miðað er við þau gildi sem þá var notast við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)