2945 - Er Kim dauður?

Kim Il Sung, Kim Jong Il og núna Kim Jong Un. Þeir eru víst hver undan öðrum. Sungarinn afi þess núverandi, sem sennilega er verstur. Blóðþyrstur harðstjóri eftir því sem sumir Bandaríkjamenn segja. Ekki þó Trump. Hann kallaði Unarann „Little Rocket Man“, ef ég man rétt. Eins gott að hafa þessi nöfn á hreinu, ef maður skyldi þurfa að skreppa til Norður-Kóreu. Sumir segja að Unarinn sé dauður, eða algjört grænmeti eftir misheppnaða hjartaskurðaðgerð. Kannski er Kim einskonar ættarnafn. Venjulega eru ættarnöfn ekki höfð fremst, en því ekki það? Ekki eru nafngiftarsiðir okkar Íslendinga álitnir sérlega skynsamlegir af öllum.

Ef spekúlerað er í heimspólitík er óhjákvæmilegt að velta Norður-Kóreu fyrir sér. Sennilega er Kíverjum illa við of mikinn óstöðugleika þar. Gæti trúað að þeim sé nákvæmlega sama um Kim Jong Un, en vildu samt síður að hann dræpist. Hann gæti svosem verið stöðugleikaímynd þeirra í öllum óstöðugleikanum. Kannski er hann svolítið truflaður. Bandarískir blaðamenn vilja reyndar meina að Trump sé það líka.

Sumir virðast trúa því í alvöru að Kínverjar hafi komið Covid-19 af stað bara til þess að klekkja á Bandaríkjamönnum. Ég á bágt með að trúa því. Þetta er greinilega alvörufaraldur. Aumingja WHO-kallinn sem Trump ætlar víst að skjóta. Ekki á hann sjö dagana sæla núna.

Ekki er ég að hugsa um að kaupa hlutabréf í Flugleiðum, þó það gæti alveg verið skynsamlegt. Enda mundi þá ekki muna mikið um þessar fáu krónur sem ég gæti hugsanlega skrapað saman. Þessi ólukkans veirufaraldur verður varla eilífur. Hvort heldur sem ríkið hendir peningum í þetta vonlausa fyrirtæki eða lífeyrissjóðirnir, þá verður það sennilega gert í mínu nafni. Þ.e.a.s. einhvern veginn verður þetta áreiðanlega tekið af okkur pöplinum. Hmm, ekki er nú samkvæminni mikið fyrir að fara hjá mér. Áðan var skynsamlegt að fjárfesta í þessu fyrirtæki, en nú er það orðið vonlaust.

Áhrifin af kórónuveirunni á Ísland verða eflaust mikil. Fá lönd eru sennilega eins háð ferðamönnum og Ísland. Spánn er það kannski og Ítalía hugsanlega. Bæði þau lönd og flest önnur hafa við fleira að styðjast en blessaða ferðamennina.

IMG 6089Einhver mynd.


Bloggfærslur 30. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband