2747 - Enn um Trump

Slæmt er að vera með Trump ræfilinn svona á heilanum, þegar um nóg annað er að hugsa. Að sumu leyti er ekkert skrítið þó Bandaríkjamenn flykki sér um mann sem á svo áberandi hátt beitir sér gegn kerfinu eins og hann gerir. Allt vill hann samt gera flokkspólitískt og kennir að sjálfsögðu demókrötum um allt sem miður fer. Stundum mismælir hann sig reyndar og lýgur pínulítið. Ekki getur hann samt kennt þeim um það. Verst er að hann skuli koma frá hægri og vera svona ríkur og sérgóður. Auðvitað verður ekki á allt kosið, en vel finnst mér að megi hræra svolítið upp í njósna-, her- og öryggiskerfunum í bandaríkjunum. Verst hvað Trump er öfgafullur í flóttamannamálum. Svo má segja að fjölmiðlamálin séu sér kapítuli.

Sennilega er það Jón Baldvin Hannibalsson sem hefur komið því inn hjá mér að skandinavíska velferðarkerfið sé mun betra en ameríska kerfið á flestum sviðum, þó hefur það bandaríska hingað til verið með því besta í mannréttindamálum. Annars eru alþjóðleg stjórnmál talsvert fyrir utan og ofan við minn skilning. Hreyfiöfl þess eru mér alls ekki eins kunn og ég vil stundum vera láta.

Í gær (mánudag) vorum við viðstödd útför í Skálholtsdómkirkju. Þar var borinn til grafar Guðjón Gunnarsson, faðir Sollu hans Þórs. Komum aðeins við hjá Herði og Ingibjörgu og fórum með þeim í athöfnina. Þau voru að sjálfsögðu sveitungar Guðjóns um langa hríð. Á eftir borðuðum við á heisluhæli NLFÍ og þar hitti ég Guðmund Ólafsson en Hörður þekkti hann greinilega. Man vel eftir því að hann og Þór Eysteinsson voru ákaflega duglegir við að skrifa á Imbu í gamla daga. Hittum Bjarna Harðarson sem snöggvast á Selfossi í bakaleiðinni og eftir því sem hann sagði þá er blessuð rigningin besti vinur bóksalans.

Nú er sumarið greinilega komið. Sennilega stendur það stutt, en við eigum svosem ekki öðru að venjast. Undanfarin ár hafa að mörgu leyti verið undantekningin sem sannar regluna. Veit ekki hvort ég nenni að setja þetta upp á bloggið. Áreiðanlega nota menn þetta góðviðri til annars en lesturs. Svo er ég eiginlega ekki alveg búinn með kvótann.

Langminnugir muna kannski eftir því að Kári Stefánsson gaf fyrir hönd Íslenskrar Erfðagreiningar Landsspítalanum jáeinaskanna fyrir fáeinum árum. Samkvæmt Morgunblaðinu (ekki lýgur það) er stefnt að því að gefa út starfsleyfi fyrir hann á næstunni. Kannski kemst hann einhverntíma í notkun. Svona ganga hlutirnir bara fyrir sig hérna á Íslandi og ekkert við því að gera.

IMG 7947Einhver mynd.


Bloggfærslur 18. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband