2421 - Borgunarplatið

Já, já. Það getur vel verið að það verði Sanders og Trump sem komi til með að berjast í sumar og haust um bandaríska forsetaembættið. Ég er einmitt talsvert hræddur um að þá hafi Trump flest trompin á hendi. Þó er það allsekki víst. Sanders gæti alveg eins sigrað. Hugsanlega eru Bandaríkjamenn mun vinstri sinnaðri nú en þegar McGovern tapaði fyrir Nixon árið 1972. Ef ég ætti að velja mér frambjóðendur þá yrðu það Rubio og Sanders. En ég er nú svo vinstri sinnaður að það er lítið að marka.

Máttur endurtekningarinnar er mikill. Margir foreldrar verða fyrst og fremst varir við þetta hjá börnum sínum þegar þau sýna sérstakan áhuga fyrir nauðaómerkilegum auglýsingum. Mér hefur dottið í hug að þessi máttur endurtekningarinnar fari uppeftir aldursstiganum á þann hátt að fyrr en varir verði þetta að áhuga unglingannna á popplögum hverskonar. Fleira blandast auðvitað inn í þetta s.s. minningar o.fl. Einnig virðist sumu ungu fólki þykja nauðsynlegt að fylla tómið sem umlykur það dagsdaglega með sem mestum hávaða og hvað er þá heppilegra en ærandi popplög?

Yfirleitt er það ekki sérstakt fréttaefni þó einhver eða einhverjir láti plata sig. Ef platið er mjög stórt getur samt verið öðru máli að gegna. Einhverntíma í fyrndinni lét ég plata mig til að flytja mín bankaviðskipti, sem ekki eru ákaflega mikil, til Landsbankans. Ekki var ég samt plataður um fjóra til sex milljarða eins og mér skilst að bankastjórn téðs banka hafi gert. Verst er sennilega að bankastjórnin átti ekkert í þessum milljörðum. Ekki er samt efast um að hún hafi haft lagalegan rétt til að láta plata sig. Ýmsir hafa samt látið í sér heyra útaf þessu, en kannski samsvarar þetta ekki nema svona 5000 venjulegum plötum.

Stundum er sagt að vísnagerð okkar Íslendinga rísi hæst í hestavísum, klámvísum og drykkjuvísum. Hestamaður er ég enginn. Við hitt hef ég stundum fengist en orðið svolítið afhuga með aldrinum. Vísnagerð er samt eitt af mínum áhugamálum. Víngerð var það einu sinni sömuleiðis. Einhverskonar samsláttur virðist hafa orðið hjá mér í þessu vísukorni. Kannski hefur vísnagerðinni þó fremur slegið saman við víndrykkju, en við því er erfitt að gera:

Yndislegt finnst ávallt mér
áfengt vín að smakka.
Brennivínið blessað er
Bakkusi að þakka.

Mikið er fjargviðrast útaf lélegri málfræðikunnáttu þeirra sem mest hafa sig í frammi á bloggi, samskiptamiðlum o.þ.h. Fjölmiðlun öll er, fyrir tilverknað netsins, mjög að breytast. Ein af breytingunum er sú að miklu fleiri tjá sig en áður var. Ef óheflað orðbragð kemst uppá yfirborðið við það er ekkert við því að segja. Orðaval það sem elsta kynslóðin hefur vanist er ekkert endilega það besta. Hugsanlega er of mikið lagt uppúr því að allir eða sem allra flestir geti lesið sem elstan texta.

WP 20160217 10 51 45 SmartSnjór.


Bloggfærslur 17. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband