2420 - Er Trump hættulegur?

Já, ég held að Donald Trump sé beinlínis hættulegur. Það er allsekki óhugsandi að hann verði næsti forseti Bandaríkjanna og þar með einhver valdamesti maður heims og með fingurinn á atómgikknum. Hann er af mörgum vanmetinn en gæti samt náð langt. Vissulega ætti hann ekki að verða neinskonar einvaldur en gæti samt haft talsverð áhrif á gang heimsmála. T.d. er ekki óhugsandi að ný heimskreppa riði fljótlega yfir taki Bandaríkin upp þá einangrunarstefnu sem hann virðist boða. Einnig er ekki hægt að horfa framhjá því að fyrir hans tilstuðlan gæti þjóðremba og stríðsglamur farið vaxandi í heiminum. Kalda stríðið virðist vera að skella á aftur án þess að hægt sé þó að kenna honum um það.

Bandaríska forsetakjörið og undirbúningur þess er afar spennandi. Margt óvænt getur gerst og gerist í því sambandi. T.d. getur andlát hæstaréttardómarans þar nýlega haft talsverð áhrif.

Gangur heimsmála er mér hugleikinn þó ég viti allsekki meira en flestir aðrir um þau mál. Íslensk stjórnmál eru heldur lítilfjörleg í samanburðinum þó auðvitað hafi þau á ýmsan hátt mikil áhrif á hag þeirra sem þetta lesa.

Stundum dettur mér í hug að aðalstarfið hjá blaðamönnum DV sé að lesa misgáfulegar athugasemdir á fésbókinni. Það kemur svosem fyrir mig líka. Stundum svara menn fyrir sig þar og nýlega las ég langan svarhala um bílalagningar á bílastæðum. Yfirleitt var þetta fremur illa skrifað. Samt vottaði fyrir nýjungum í orðavali. Sumt var þar alveg ágætt og ég er ekki frá því að sumar orðmyndirnar eigi sér langa lífdaga fyrir höndum. T.d. er greinilega skárra að vera hurðaður en urðaður.

Einkennilegt er af íhaldsmönnum að halda því fram að þjóðfélagslegt ástand og réttlæti hafi ekkert með dómsúrskurði að gera. Ef ætíð væri hægt að finna lög um nákvæmlega þau atriði sem til úrskurðar eru, væru dómstólar alveg óþarfir. Allir lögfræðingar vita þó að því aðeins er réttlætanlegt að leita úrskurðar æðstu dómstóla að vafi leiki á um lagalegar forsendur. Að gera sér alls ekki grein fyrir slíku ber vott um lélega lögfræðikunnáttu.

Einhverntíma skrifaði ég heilmikið um „Sögu Akraness“. Í því máli hafði ég mest af mínu viti frá Hörpu Hreinsdóttur en hún skrifaði, eða bloggaði réttara sagt, heilmikið um þetta mál allt á sínum tíma. Nú stendur víst til að farga afganginum af þessum bókum og ef einhverjir skyldu vilja fræðast meira um þetta mál þá er þeim bent á að fara á http://ruv.is/frett/saga-akranesbaejar-i-og-ii-a-leid-a-haugana

WP 20160129 10 37 56 ProRafmagnstengingar.


Bloggfærslur 16. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband