24.4.2014 | 02:15
2157 - Unglingabækur
Hver er galdur rithöfundarins? Það er að láta lesandann skilja sig. Allt það óskiljanlega bull sem nútildags er skrifað skilur höfundurinn kannski sínum skilningi, en hugasanlegt er að lesandinn skilji það alls ekki. Já, en lesendurnir eru misjafnir. Sumir skilja allan fjandann, en sumir skilja ekki neitt. Það er einmitt galdurinn. Að skrifa þannig að sem flestir skilji.
Ég mundi verða foj við ef ég hefði lagt mig fram um að skrifa bók og svo væri hún kölluð unglingabók í niðrunarskyni eingöngu. Þetta þurfti Vilborg systir hans Bjössa að sætta sig við. Þegar hún vann uppi á Stöð 2 hjálpaði ég henni við að prenta út handrit af Korku sem hún kallaði fyrstu bókina sína þá. Minnir að hún hafi verið nefnd eitthvað annað þegar hún kom út. Í einhverjum lista sem ég sá seinna var hún kölluð unglingabók og flokkuð samkvæmt því. Hver er munurinn á unglingabók og fullorðinsbók? Er það bara snobbmunur? Það finnst mér. Kannski eru hlutir útskýrðir aðeins betur í unglingabók (young adults) annars held ég að það fari einkum eftir skapi flokkunarmeistarans þá stundina hvort bók lendir í því að vera kölluð unglingabók eða fullorðins.
Mér finnst skipta svolitlu máli hver verður niðurstaðan af fyrstu skoðanakönnuninni sem gerð verður eftir framboð Guðna Ágústssonar. Þó eru víst ekki öll kurl komin til grafar í því máli. Annars eru sveitarstjórnarkosningarnar í maí ekkert sérlega áhugaverðar. Getur verið að framsókn og nýji sjallaflokkurinn sameinist? Þetta er bara hugmynd sem ég fékk svona óforvarendis. Kannski Doddson taki bara Simma uppí til sín.
Ef ég ætti að sálgreina nokkra Moggabloggara væri það einhvernvegin svona: Best að hafa sjálfan sig fremstan svo það valdi engum misskilningini. Mér finnst ég vera fjölbreyttur og blogga um allt mögulegt og ómögulegt. Hugsanlega mest um stjórnmál og blogg. Kannski er ég líkastur Jens Guði, nema hvað hann er miklu fyndnari, betur að sér um tónlistarmál og skreytir mál sitt oft með myndum sem hann finnur víðsvegar um netið, en ég læt mér aftur á móti mínar eigin myndir duga, þó lélegar séu.
Jens Guð er alveg ómetanlegur. Sögur hans, bæði af Lullu frænku og ýmsum öðrum eru óviðjafnanlegar.
Páll Vilhjálmsson er undarlegur bloggari. Hann bloggar stutt og oft og bara um eitt ákveðið málefni, en nær umtalsverðum vinsældum samt. Vitanlega les ég ekki blogg allra Moggabloggara, en stórhausana er ég farinn að kannast við flesta.
Ómar Ragnarsson er á margan hátt hinn dæmigerði besservisser í hópi bloggara. Flest veit hann betur en aðrir og hefur alltaf rétt fyrir sér. Kannski er hann bara svona fróður og hefur lagt allar umtalsverðar fréttir á minnið. Kannski bara svona fljótur að gúgla.
Jón Valur Jensson skrifar og skrifar en gafst samt upp á guðfræðinni og hefur nú sett sér það markmið að forða íslendingum frá því að ganga í ESB, jafnvel þó það kosti hann tíu blogg á hverjum einasta degi. Skyldi einhver lesa öll þessi ósköp?
Villi í Köben lítur á sjálfan sig sem umboðsmann Ísraelsstjórnar og hefur oft rétt fyrir sér. Skrifar vel.
Nú sé ég að blaðið er að verða búið og ég á hvort eð er eftir að minnast á Ásgautsstaði og að Björn Bjarnason er of hátíðlegur fyrir minn smekk. Aðrir verða að bíða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)