11.9.2013 | 23:30
2043 - Kristín Ingólfsdóttir
Kristín Ingólfsdóttir hefur staðið sig illa sem rektor Háskóla Íslands. Á hennar tíma hafa deilur orðið miklar. Nægir þar að benda á tvö mál: Bjarna Randvers málið og nú síðast stóra JBH-málið. Bæði þessi mál virðast við fyrstu sýn vera lítilvæg, en eru það sennilega ekki. Ég hef áður skrifað um JBH-málið og ætla ekki að endurtaka það hér. Skoðanir eru mjög skiptar um það mál og langflestir sem um það skrifa reyna að draga fram þær hliðar sem þeim finnst skipta mestu máli. Að mínum dómi fjallar það einkum um mannréttindi og Háskóla Íslands. Að öðru leyti vil ég helst ekki ræða það mál frekar. Um það og hinar ýmsu hliðar þess mætti samt auðvitað skrifa margar bækur.
Svo virðist Gylfi Ægisson ætla í einhvern einkabardaga við homma og gleðigöngur. Líst frekar illa á það hjá honum. Held að ein af ástæðunum fyrir miklu fjölmenni í gleðigöngunni svokölluðu sé vöntun á fjöri hér á norðurslóðum. Einnig er því ekki að neita að Íslendingar hafa greinilega mikinn áhuga á baráttu fyrir mannréttindamálum allskonar, þó aðferðirnar sem notaðar eru í því efni hugnist ekki ávallt öllum.
Ekki veit ég af hverju ég hef hirt eftirfarandi klausu, en ég fann hana áðan í einhverju dóti og set hana hér til uppfyllingar. Líklega er hún nokkurra vikna eða mánaða gömul, en allsekki eldri en það. Sennilega er þetta af DV. Sjálfur er ég ekki hræddur um að verða úthýst af Moggablogginu og nokkrum sinnum hefur Óskar kommentað á mitt blogg. Blogg hans hafa yfirleitt verið sérviskuleg nokkuð og undarleg. Ég hef öðru hvoru kíkt á það en ekki skoðað það neitt reglulega. Það er bara svo auðvelt að þagga niður í mönnum.
Þetta var vegna hvatningar minnar til íslensku þjóðarinnar vegna þessarar yfirgengilegu þolinmæði sem við sýnum með því að henda þessum þingmönnum ekki til hliðar sem hafa verið að kvelja okkur síðastliðin ár. Það á bara að taka þetta lið í pólitíkinni og berja það bara persónulega. Harðar aðgerðir, harðar aðgerðir - eins og búið er að leika þessa þjóð, fólk og fénað og mig. En barsmíðarnar eru bara fyrsta skref, segir Óskar Helgi Helgason, kaupmaður í Hveragerði og fyrrverandi bloggari á Mbl.is, sem hefur nú verið hent út af Moggablogginu fyrir að hvetja til ofbeldis gegn Alþingismönnum. Óskar Helgi hefur bloggað á Mbl.is undir heitinu Svarthamar frá árinu 2007.
Aðspurður hvort hann hafi verið að hvetja til ofbeldis gagnvart þingmönnum segir Óskar Helgi. Já, svona léttra barsmíða. Óskar Helgi segist vera falangisti - ein gerð fasisma sem yfirleitt er nefndur í sömu andránni og einræðisherrann Francisco Franco á Spánni. Við úti á hægri brúninni getum teygt okkur yfir til kommúnistanna." Óskar Helgi segir að hann hafi verið að hvetja til þess að allir þingmenn þjóðarinnar myndu sæta barsmíðum. Þau öll, 63, allir þingsetar en í mismunandi mæli þó eftir ábyrgð. Ætli þeir Sigmundur Davíð og Bjarni beri ekki mesta ábyrgð.
Óskar Helgi er ósáttur við að hafa verið hent út af Moggablogginu og telur sakirnar ekki vera miklar. Hann segir þó að fleiri sem hann þekkir hafi verið hent út fyrir minni sakir: Ég er ekkert sá eini í þessari stöðu sem hefur verið hent út fyrir að segja skoðanir mínar, aðrir hafa lent í því fyrir minni sakir.
Bloggsíðan Svarthamar eru ekki lengur til á vef Morgunblaðsins, ekki heldur eldri færslur Óskars Helga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2013 | 00:03
2042 - Eygló Harðardóttir
Í kosningabaráttunni s.l. vor sagði Eygló Harðardóttir að vandalaust væri að taka aftur skerðingar þær sem gerðar voru á greiðslum til aldraðra og öryrkja á síðasta kjörtímabili og það yrði svo sannarlega eitt af allra fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar ef Framsóknarflokkurinn kæmist til valda. Auðvitað réði hún því ekki og það var ekki gert nema að litlu leyti. Hún sagði þá að það mundi samt áreiðanlega ekki dragast lengur en í mesta lagi fram í nóvember næstkomandi að það yrði gert. Svo verður þó að líkindum ekki. Önnur verkefni verða álitin brýnni. Samt eru þetta svik við allmarga. Fleiri býst ég við að muni álíta sig svikna. Kannski hefðu aðrir svikið líka og ég vil að óreyndu ekki búast við öllu illu af þessari ríkisstjórn.
Mér finnst þetta mál samt skipta verulegu máli. Kannski er það vegna þess að ég er farinn að eldast sjálfur og er háður þessum peningum. Margt þarf að gera og fé vantar allsstaðar. Að svíkja það sem lofað er eftir að hafa komist til valda (með röngu a.m.k. að sumra áliti) og orðið ráðherra, er þó fyrirlitlegra en flest annað.
Held að lesendum mínum sé að fækka aftur. Eiginlega er ekki hægt annað en að kenna Morgunblaðinu um það. Eða jafnvel Sigmundi Davíð. Þetta pólitísk spinn sem sumir þurfa endilega að setja á alla hluti er talsvert leiðigjarnt. Spillingin og einkavinavæðingin er mikil hérna í fámenninu, en hvað með það? Svona hefur þetta alltaf verið. Það verður ekki ráðin bót á öllu per samstundis.
En kannski hefur Hrunið opnað augu einhverra. Hugsanlega margra. Sumir, t.d. Egill Helgason virðist kenna bönkunum um allt sem aflaga fer. Sagan um manninn í Svíþjóð sem brýtur ávallt rúðu í banka í hvert skipti sem hann losnar úr fangelsi höfðar alltaf meira og meira til mín. Kannski er það bara þjóðsaga. Hef sagt hana áður. A.m.k. tvisvar, held ég. Stjórna bankarnir stjórnvöldum? A.m.k. hefur fátt batnað við það að þeim var trúað til að búa til peninga í stað úthlutunarnefndanna. Svo voru þeir einkavæddir. Ekki bætti það úr skák. Fjárhagsráð var á sínum tíma kallað Fjáransráð. Ekki var það að ófyrirsynju og eru margar sögur til af því. Ætli væri þó ekki bara betra að hafa Fjárhagsráð núna en útrásarvíkingana. Varla mundi það stela eins miklu. Þegar það var við lýði var heldur ekki búið að finna uppá því að senda illa fengna fjármuni til Tortóla.
Er viðunandi að hafa svona marga starfandi í Seðlabankanum og svo er enginn þar með nægilegt vit til að kæra fyrir sérstökun saksóknara á réttan hátt? Svo hlæja dómararnir bara að honum. Ætli bankarnir stjórni dómurunum líka? Er Seðlabankinn stikkfrí? Nei, ég held að það sé meira vit að hugsa um eitthvað annað en pólitík.
Las nýlega í Kyndlinum mínum kynningu á bók um maura. Las lítið meira en formálann enda var það sem á eftir kom fræðilegt í meira lagi og ég skildi það afar illa. Þetta eru merkileg kvikindi og mjög lítið rannsökuð. Þeir eru líklega um þrír fjórðu hlutar alls lifandi efnis (biomass) á jörðinni. Á margan hátt má líta á einstök dýr í einu maurabúi sem frumur og þessvegna eru þeir afar vel fallnir til allskyns rannsókna því sérhæfingin er mikil hjá þeim. Harðgerðari dýr eru vandfundin. Alltaf tekst þeim á endanum að ráða framúr öllum erfiðleikum. Þola t.d. geislun betur en nokkur önnur dýr. Næstum allsstaðar (nema á Íslandi) lifa þeir góðu lífi og tegundirnar eru fjölmargar.
Þegar fésbókin segir mér að gera eitthvað (eða stingur uppá því) geri ég það bara einstöku sinnum. Mér finnst ég vera frjálsari þannig og að ég þurfi ekki að óttast eins mikið að mínum persónuleika verði stolið, eins og maður hefur heyrt svo margar hryllingssögur af. Mér finnst fésbókin farin að verða hræðilega vinsæl. Fólk situr yfir þessu lon og don. Sérstaklega þeir sem þurfa ekki að mæta til vinnu. Eiginlega hef ég aldrei orðið fyrir neinu á netinu eða tölvutengdu. Varla að ég hafi tapað gögnum og engum finnst taka því að reyna að brjótast inn í heimabankann minn. Annars er það heimsstyrjöldin síðari sem ég er upptekinn af núna. Varð það með því að lesa upphafið á bók Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um Dauðann í Dumbshafi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)