3.8.2013 | 00:27
2022 - Enn um Vesturfara
Sennilega lesa bloggarar ekki mikið blogg eftir aðra. Þykist þó hafa tekið eftir því (miðað við athugasemdirnar) að þónokkuð margir málsmetandi bloggarar lesi bloggið mitt. Ekki veit ég af hverju það er. Og þó. Kannski er það vegna þess að ég blogga frekar mikið um blogg. Eða kannski það sé vegna þess.... ég þori varla að nefna það.... að þeim finnist ég skrifa svona vel. Jæja, nú er ég búinn að segja það. Það var ekki nærri eins erfitt og ég hafði haldið. Það er gott að vera búinn að því. Nú mega menn segja, alveg eftir geðþótta, að ég sé innbilskur og hégómagjarn. Ekkert fær snert við mér. Sjálfsálitið þarf svolítið að temja. Ekki er samt gott að vera með öllu laus við það. Hvort maður viðurkennir það svo fyrir sjálfum sér og öðrum, það er annað mál.
Þá get ég áhyggjulaust snúið mér að einhverju öðru.
Er Internetið hinn nýji raunveruleiki? Ekki er laust við að manni finnist sumir álíta það. Það er helsti félagi þess, sem enga félaga á. Það er huggun þess, sem enginn vill sinna. Það er andleg næring þess sem hungrar og þyrstir eftir slíku. Það er tilbúinn veruleiki sem algjörlega er skapaður af manninum og þessvegna laus við alla þá galla sem alheimurinn er fullur af. Líka er það bara spegilmynd af veruleikanum. Það er sá veruleiki sem allir nálgast á sama eða svipaðan hátt. Gerir heldur engan greinarmun á ríkum og fátækum. Hef þá skoðun að þeir sem á annað borð hafa ánetjast því, láti það ganga fyrir flestu. Það er erfitt að vera án þess lengi. Fráhvarfseinkennin geta verið sterk.
Það er hægt að halda svona endalaust áfram. Ég ætla samt ekki að gera það. Aðallega vegna þess að ég get það ekki. En svona taka menn oft til orða. Hætt er við að sá sem lítið veit noti o.s.frv. í óhófi. Það er heldur engin synd að þykjast gáfaðri en maður er.
Eitt af stefnumálum núverandi ríkisstjórnar er að leggja allt eftirlit niður. Kannski er þetta fulldjúpt í árinni tekið hjá mér. Vel getur verið að eitthvað eftirlit verði eftir. T.d. eftirlit með þvi að menn pissi ekki í skóinn sinn úti á götu. Sumir hafa sagt að Hrunið hafi stafað af eftirlitsleysi. Það getur varla verið því eftirlitsleysið sparar svo margar krónur og er svo vinsælt. Hægt er ganga af öllu framtaki dauðu með of miklu eftirliti. Er þá ekki bara sjálfsagt að afnema það alveg? Skilst að það verði gert mjög fljótlega.
Það er svo fátt sem hægt er að eyða tímanum í að fara djúpt í. Samt væri það vel þess virði. Sumt sem haldið er fram hér á netinu er þess eðlis að vert væri að skoða það nánar. T.d. heldur Gunnar Gunnarsson því fram í athugasemd hjá Ómari Ragnarssyni að hér á Íslandi hafi nánast engin fátækt verið. Það er samt alveg öruggt að fátækt var ein af aðalástæðunum fyrir flutningum Íslendinga til Vesturheims.
Frá því ég fyrst fór að lesa frásagnir af flutningum þangað hefur það blasað við mér að fólk taldi sig neyðast til að fara frá landinu. Það var alls ekki eingöngu vegna veðurfarsins heldur var það augljóst að landið bar ekki meiri fjölda en þar var með þeim aðferðum sem notaðar voru. Hvernig átti það fólk sem fluttist út að gera sér grein fyrir að það stafaði af því að öllum verklegum framkvæmdum í landinu var haldið niðri? Seinni tíma mönnum sem höfðu samanburðinn við nágrannaþjóðirnar var þetta alveg augljóst og margir þeirra létu það í ljós.
Auðvitað verða menn seint sammála um sjónarmið, en staðreyndum verður ekki mótmælt með árangri til lengdar. Vel getur samt verið að Baldur Hermannsson hafi gengið fulllangt í umfjöllun sinni í fjötrum hugarfarsins. Það breytir því samt ekki að sú söguskoðun sem kennd hefur verið við Hriflu-Jónas er í meginatriðum röng. Vistarbandið var við lýði fram á tuttugustu öldina hvað sem skrifað var á eitthvert blað. Hef sjálfur séð bréf frá Einari Benedikssyni, skáldi og sýslumanni, þar sem hann viðurkennir það og kvittar fyrir peningagreiðslu sem amma mín greiddi honum fyrir lausamennskuleyfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)