26.7.2013 | 10:53
2017 - Flugeldar og aðrar bombur
Styrkir til stjórnmálaflokka. Styrkir til trúfélaga. Styrkir til fjölmiðlunar. Styrkir til samgangna. Styrkir til landbúnaðar og annarra atvinnugreina. Styrkir til húsbygginga. Styrkir til Styrkveitinga o.s.frv. o.s.frv. Allt má rökstyðja. Allt er pólitík. Allt er hægri eða vinstri stefna. Veit ekki hvar þetta endar. Auðvitað þarf að skattleggja til að eiga fyrir öllum þessum styrkjum. Auðæfum landsins þarf að skipta sem réttlátast. Ekki dugir að þeir ríku svíni endalaust á þeim sem minna mega sín. Öfgastefnur eru hættulegar. Miðjumoðið er best.
En hverjir stunda mest miðjumoð. Það er stóra spurningin. Kjósendur reyna að svara þeirri spurningu á fjögurra ára fresti í svonefndum kosningum. Stjórnmálamenn hafa nærfellt frjálst spil þar á milli. Fjölmiðlarnir reyna kannski að æsa fólk svolítið upp en tekst misjafnlega. Nú er almenningur orðinn leiður á aðgerðarleysinu og vill þjóðaratkvæðagreiðslur um allan fjárann. Enginn fjögurra ára friður lengur. Forsetinn hrifsar til sín þau völd sem hann getur og enginn segir múkk. Stjórnmálamenn reyna að þagga niður í almenningi með svokölluðu hruni. En það gerir fólk bara enn ruglaðra og örvæntingarfyllra.
Læt þetta nægja um stjórnmál á þessum fallega föstudagsmorgni. Að vísu er þoka hér í Kópavoginum en ætli hún fari ekki þegar líður á daginn. Vonum það a.m.k.
Setti áðan fyrirspurn á orðhengilinn á fésbókinni og ekki stóð á svarinu. Spurði hvað væri að larpa. Um það er rætt í fyrirsögn á mbl.is og það er víst myndað útfrá ensku setningunni: Live action role playing. Mér finnst nú nóg að þurfa að vita að forrit heiti öpp en að skammstafanasýkin úr amerísku enskunni sé orðin að íslensku það finnst mér of langt gengið.
Margt er einkennilegt í heimi alfræðiritanna. Britannica er alveg orðin úrelt. Wikipedia er einna heitust núna. Þar er margt einkennilegt. Um daginn var skrifuð á mbl.is fréttaskýring um umdeild mál á Wikipediu. Í undirbúningi er bók um það mál. Uppkast að henni er að finna hér: http://arxiv.org/ftp/arxiv/papers/1305/1305.5566.pdf Sel þetta ekki dýrara en ég keypti. Á alveg eftir að lesa þetta. Finnst það samt áhugavert.
Flugeldasala á Íslandi er stórskrýtin. Skátafélög, björgunarsveitir og íþróttafélög eiga þennan markað. A.m.k. man ég vel eftir því að Kaupfélögin og önnur slík gróðafélög vildu helst ekki koma nálægt sprengjum og þ.h. á sínum tíma. Þó er heilmikla peninga uppúr þessu að hafa. Hjá strákum á vissum aldri er sprengingahvötin næstum því eins sterk og kynhvötin. Gömlu fólki og kvenfólki finnst þetta skrýtið en svona er þetta. Meðan allur gróðinn af flugeldasölunni fer til björgunarsveitanna hafa sprengjuóðir karlmenn fyrirmyndarafsökun á reiðum höndum. Jafnvel öskureiðum. Þeir eru bara að styrkja björgunarsveitirnar.
Einstaka menn viðurkenna sprengingahvötina. T.d. má þar nefna leikarann Örn Árnason. Hann stofnaði (sennilega ásamt einhverjum öðrum) félag um að selja rakettur. Var hann þá að stela frá björgunarsveitunum? Nei, ætli hann hafi ekki bara verið að taka spón úr aski þeirra fégráðugu einkaaðila sem voru að reyna að ræna frá sveitunum þeirra réttmæta gróða.
Flugeldaverksmiðjur eru stórhættulegar, enda eru Íslendingar löngu hættir að framleiða skotelda sjálfir. Kínverjar eru svo margir að þeim má vel fórna í svona hættulegan iðnað. Í gamla daga sprengdi maður kínverjana í tætlur, kveikti á nokkrum blysum og skaut fáeinum rakettum (einni stórri) og hafði ekki efni á meiru. Nú eyða menn hiklaust jafnmiklu í flugeldatertur og jólagjafir.
Ók framhjá Kerinu í Grímsnesi um daginn. Sem betur fer þarf ekki að borga sérstaklega fyrir að sjá bílastæðið. Held að ég hafi meira að segja séð innheimtuskúrinn. Að sögn margra eru túristar æstir í að borga sem mest fyrir að sjá þetta náttúruundur. Einhverjir Íslendingar munu þó vera á báðum áttum um réttmæti skúrsins. Held að túrhestatrakið á ferðamannastöðum sé svolítið orðum aukið. Vissulega er ólíkt að sjá hve margmennt er við ýmsa staði sem áður var fámennt á. Líst samt illa á skúramenninguna.
![]() |
Handteiknar tölvuleik og larpar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2013 | 00:32
2016 - Moskur og pólitík
Nafnið Kuklinski dregur ekki mikið að. Moskur gera það áreiðanlega mun frekar. Þessvegna er ég að hugsa um að nota það í fyrirsögnina á þessari grein. Verst að ég er áður búinn að láta ljós mitt skína um fyrirbrigðið. Trúmál eru líka hættulegt umræðuefni. Það getur alveg farið úr böndunum. En ef ekki má skrifa um trúmál og ekki heldur um pólitík er þá ekki fremur lítið eftir? Það er ég hræddur um að sumum finnist. Samt er ég að hugsa um að taka áhættuna. En fyrst svolítið um pólitík.
Mikið er rætt um að sigurvegararnir í síðustu alþingiskosningum hafi ekki lofað að hygla LÍÚ sérstaklega heldur hafi menn átt að vænta almennra leiðréttinga o.þ.h. Það finnst mér heldur léleg eftiráskýring. Varla kjósa menn bara eftir því sem sagt er í kosningabaráttunni. Eitthvað annað og fleira hlýtur að vera haft til hliðsjónar. Kosningar snúast ekki bara um þann fagurgala sem er efst á baugi í aðdraganda kosninga. Margt annað kemur til álita. Saga frambjóðenda og flokka skiptir máli. Eins hugsanlega pólitísk sýn ættingja og vina. Mér finnst ég vera nánast hlutlaus þegar kemur að pólitík. Skoðanalaus er ég þó ekki.
Ríkisstjórnin glímir við mikinn forsendubrest. Það er engar forsendur til að semja við hrægammana. Forsendubresturinn er kannski alvarlegastur í sambandi við gjaldeyrishöftin. Það eru nefnilega engar forsendur til að afnema þau. Forsendur fyrir skattalækkunum eru mjög vafasamar. Fæ ekki séð að neinar forsendur séu til að ráðast á forsendubrestinn hjá íbúðalánasjóði eða lífeyrissjóðunum. Hvað er þá eftir? Nú, auðvitað fjárlögin. Kannski er hægt að kippa þessu öllu í lag með skynsamlegum fjárlögum og forsendubrestslausum.
Reglulegt blogg skiptir máli. Að blogga einu sinni eða tvisvar í mánuði getur hentað sumum ágætlega, en ekki mér. Almenn blogg sem þó snúast að litlu leyti um mig sjálfan eða fjölskylduna eru mitt spesíalítet. Já, ég sletti þegar mér finnst það eiga við. Mest þykir mér gaman að blogga um blogg. Málfar er mér líka mikið hugðarefni. Vil þó ekki takmarka mig við að skrifa um það eingöngu. Hugsa um svo margt annað. Get þó ómögulega skrifað um allt það sem mér kemur í hug. Sumt er svo ómerkilegt að ekki tekur því að blogga um það. Sumt er líka óviðeigandi. Siðfræðin og ýmislegt henni tengt er sömuleiðis mikið áhugamál hjá mér. Málfrelsi, tölvur og tækni einnig. Já, eiginlega allt milli himins og jarðar. Og skák líka. Sennilega hef ég einna mest vit á henni. Skrifa líklega alltof lítið um skák. Nenni samt ekki að endursegja gamlar fréttir. Gæti samt eflaust verið fróðlegt.
Margt sem tengist skák er sem brennt í vitund mína. T.d. man ég vel að ég fékk að fara með Axel á Reykjum og einhverjum fleirum á Selfoss þar sem þeir Taimanov og Ilivitsky tefldu fjöltefli eitt sinn þegar ég var smágutti. Hvor þeirra um sig tefldi við svona 30 til 40 manns. Fjölteflið var haldið í Selfossbíói sem á þeim tíma var glæsilegt og viðurkennt samkomuhús. Ekki tók ég þátt, en Axel gerði það og einhverjir fleiri frá Hveragerði og nágrenni. Man að Júlli í Gufudal sat við hliðina á Axel og held að þeir hafi teflt við Ilivitsky. Ekki er að orðlengja það að andstæðingur Júlla lék af sér manni snemma í skákinni. Axel missti við það áhugann á sinni skák og hugsaði um það eitt að hjálpa Júlla. Ekki man ég með vissu hvernig sú skák fór, en held endilega að Júlíus hafi annaðhvort unnið eða gert jafntefli. Ekki er víst að lesendur mínir hafi gaman af frásögnum sem þessari en þær á ég margar.
Almennt og yfirleitt finnst mér sólskin óþægilegt. Hef samt ekkert á móti hita. Svo lengi sem hann er ekki of mikill. Þegar hann fer að nálgast 30 stig finnst mér of langt gengið. 22 25 stig er ágætt. Útivið er það ekki algengt á Íslandi. Slagveðursrigning í köldu veðri finnst mér versta veðrið. Snjókoma og bylur er skárra. Kulda er tiltölulega auðvelt að klæða af sér. Auðvitað er ekki sama hvort maður er gangandi eða í bíl. Hálka og mikill snjór eru verstu veðrin fyrir bílferðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)