2012 - Moska eða moska ekki

Hvað er það sem einkum hreyfir við mér á þessum mánudagsmorgni. Moskudeilan. Ég vil endilega mosku. Þó er ég viss um að ég mun aldrei koma þangað. Að vera á móti slíku er að loka sig inni í sínum eigin hugmyndaheimi. Hætta að þroskast. Það eina sem viðheldur lífinu er að læra eitthvað nýtt á hverjum degi, og helst oft á dag. Öll trúarbrögð eru gegnsýrð af alls konar vitleysu. Það skiptir í raun litlu máli hvaða dýr þú étur og hver ekki. Hvað þitt uppáhalds trúarrit segir að þú megir gera og hvað þú megir ekki gera. Öll túarrit eru óþörf. Það eina sem skiptir máli ert þú sjálfur og samspil þitt við annað fólk. Fremji menn illvirki er það ekki vegna trúarinnar heldur þrátt fyrir hana.

Á fésbók finnst mér yfirleitt best að gera sem minnst, því maður veit aldrei hvaða áhrif hlutirnir hafa. Súpervarkátt fólk ætti náttúrulega að varast að skrá sig á fésbók, en það er önnur saga. Sýnist samt að flestir, eða a.m.k. margir vilji gera sem mest þar. Það er í góðu lagi líka og minnkar traffíkina á blogginu. Fjasbókin og aðrir miðlar líkir henni eru af mörgum kallaðir samfélagslegir miðlar. Bloggið líklega líka, en það er samt takmarkaðra en fésbókin, twitter og forverar þeirra sem ég man ekki einu sinni nöfnin á. Bloggið, og Moggabloggið kannski sérstaklega, hentar vel fyrrverandi besservisserum eins og mér. Allir vilja vera á fésbók. Ekki bara fólk og fénaður, heldur allskyns fyrirbrigði og félagsskapur. Eiginlega er að verða svo troðið þar að maður kemst illa fyrir. Nauðsynlegt samt að fylgjast svolítið með. Ekki les maður nein dagblöð eða hlustar reglulega á útvarp. Sjónvarpsfréttir horfi ég þó nokkuð reglulega á.

6. júlí s.l. fékk ég eftirfarandi skilaboð á Moggabloggið mitt. Eflaust hafa margir fleiri fengið samskonar skilaboð því hann virðist hafa sent þetta á alla sína bloggvini þar, en þeir eru yfir 50.

Guðjón E. Hreinberg sendi þér skilaboð: Góðan dag kæri blogvinur Langar að gerast svo djarfur að deila með þér nýjustu færslu minni um mótmælasvelti mitt. http://gudjonelias.blog.is/blog/gudjonelias/entry/1305331/ Njóttu helgarinnar, veðrið er of gott ti lað vera inni við tölvuna ;)“

Auðvitað hrekkur maður svolítið við þegar maður fær skilaboð á blogginu sem þessi. Fannst samt að það væri svosem ekki mikið (jafnvel ekkert) sem ég gæti gert. Það er auðvitað leiðinlegt að sjá meðbróður sinn kveljast svona. Reyndi samt að fylgjast með Guðjóni næstu dagana en fáum dögum seinna virðist hann hafa hætt mómælasveltinu og á vefsetri hans (not.is) er vel hægt að fylgjast með honum og hvað hann tekur sér fyrir hendur.

Nú er klukkan farin talsvert að ganga átta (að morgni) svo það er sennilega best að drífa í því að senda þetta upp og gera næstu mynd tilbúna.

IMG 3507Runni.


Bloggfærslur 22. júlí 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband