25.6.2013 | 22:36
1993 - Kerið í Grímsnesi
Frétt er um það á mbl.is að Kerfélagið hafi nú hafið gjaldtöku við Kerið í Grímsnesi. Sem betur fer hef ég oft séð Kerið og aldrei borgað fyrir það. Það segir samt ekkert um þessa framkvæmd. Um gjaldtökuna má annars margt segja og verður sjálfsagt fjölyrt mjög um þessa framkvæmd. 350 krónur mun kosta að sjá dýrðina.
Mín skoðun er sú að það verði ekki bæði sleppt og haldið. Ef það á í alvöru að stórfjölga ferðamönnum sem sækja landið heim og græða sem mest á þeim mun eitthvað svona verða mjög algengt. Íslendingar hafa hingað til viljað hafa frelsi til þess að flækjast um landið sitt að vild og skoða það sem þeim sýnist án þess að borga sérstaklega fyrir það. Einu sinni þótti t.d. sjálfsagt að tjalda hvar sem er. Hræddur er ég um að svo sé ekki lengur.
Aðfinnslur vegna málfars í fjölmiðlum eru algengar, en því miður oftast líka leiðinlegar. A.m.k. er ég hræddur um að þeim sem helst þyrftu á þeim að halda finnist það. Eiður Guðnason er alveg búinn að týna sjálfum sér í Molum sínum þó þeir sem lesa þá séu yfirleitt ánægðir með þá. Svipað er að segja um Orðhengilinn. Þar er velt vöngum yfir mörgu skemmtilegu, en vafasamt er að þeir sem helst þyrftu á leiðbeiningum um rétt málfar að halda séu tíðir gestir þar.
Þá er eftir að minnast á skólakerfið. Vani margra er að kenna því um flest það sem aflaga fer. Auðvitað hefur kennsla í íslensku farið minnkandi og e.t.v. er það ein af ástæðunum fyrir hrakandi málfari. Eldri kynslóðir eru þó nær alltaf mótfallnar málfari yngri kynslóða. Vafasamt er þó að sú íhaldssemi sé réttmæt. Kunnátta í meðferð netsins (Orðabækur og Google) leysir margan vanda, en sú kunnátta er ekki einhlít. Ekkert getur komið í staðinn fyrir æfingu og þjálfun. Nú er ég búinn að blogga nokkuð lengi og get fullyrt að það að setja orð á blað verður sífellt auðveldara. Jafnvel hef ég áhyggjur af því að það sé að verða fullauðvelt. Meiningin getur orðið fyrir barðinu á of mikilli þjálfun.
Mér finnst alveg nóg um hve margir lesa bloggið mitt. Mér hefur sjálfum fundist að ég skrifi aðallega um blogg og fésbók. Skrifa þó oft um eitthvað annað og ánægður varð ég þegar einhver líkti blogginu mínu við spjallþáttinn sem einu sinni var í útvarpinu og nefndist Um daginn og veginn. Ekki get ég gert að því þó ég sé stórhaus einsog Brjánn (Brian Curly) kallar það. Held að ég hafi orðið það á svipuðum tíma og af svipaðri ástæðu og Lára Hanna á sínum tíma. Hún er samt fyrir löngu búin að yfirgefa Moggabloggið og orðin afar vinsæll bloggari. Varð svolítið hissa í gær þegar ég sá að Jóhannes Laxdal Baldvinsson er kominn í 398. sæti á 400 listanum á Moggablogginu. Hann er bæði prýðilega hagmæltur og bloggið hans er yfirleitt mjög skemmtilegt aflestrar fyrir utan að hann á það til að athugasemdast hjá mér. Skýringin er eflaust sú að hann hefur ekkert skrifað síðan í byrjun þessa mánaðar og er sennilega ekki stórhaus eins og ég.
900 ára gamall hundaskítur. Það fer ekki á milli mála að þetta er frétt dagsins. Sjálfur Snowden lávarður bliknar við hliðina á þessum ósköpum. Tala nú ekki um Pútín greyið, hann er eins og hver annar Schwartzenegger og getur ekki komið höndunum nema í námunda við mjaðmirnar fyrir vöðvum.
![]() |
Hefja gjaldtöku við Kerið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2013 | 08:37
1992 - Undirskriftasöfnun um ESB
Til hvers er seinni undirskriftasöfnunin sett af stað? Hún heitir Klárum dæmið og fjallar um viðræðurnar við ESB. Ég er ekki búinn að skrifa undir því ég var að sjá minnst á hana rétt í þessu (á mánudagskvöldi) Kannski er hugsunin bara sú að þreyta fólk. Ellefu þúsund og eitthvað voru búnir að skrifa undir þegar ég sá þetta. Eru undirskriftir á netinu að verða séstök íþróttagrein? Útheimtir ekki mikla krafta. Svo getur alveg verið séstök íþróttagrein að bera saman undirskriftasafnanir og túlka með ýmsum hætti.
Fésbókin er á margan hátt frábær. Allir geta haft gagn af henni. Hún er ekkert séstaklega fyrir þá sem skilja hana út í hörgul. Svo er alltaf verið að breyta henni.
Tímaritið Skoðun (skodun.is) er búið að vera á netinu síðan 1999. Ritstjóri er Sigurður Hólm Gunnarsson. Þar er margt ágætra greina.
Er að lesa þessa dagana í kyndlinum mínum kynningu og upphaf á bók sem heitir: The Emperor of All Maladies: A Biography of Cancer. Þessi bók er eftir Siddhartha Mukherjee og er ákaflega athyglisverð. Hef ekki keypt hana ennþá a.m.k., en er enn að pæla í gegnum kynninguna. Þarna er rakin saga krabbameins allt fram á okkar daga (bókin er gefin út árið 2011) á ákaflega auðskilinn og einfaldan hátt. Þegar ég var að alast upp mátti helst ekki minnast á þennan sjúkdóm. Hann var svo hræðilegur. Engin lækning var til og þeir sem hann fengu voru nánast dauðadæmdir. Nú er öldin önnur. Margir sigrar hafa unnist í baráttunni við þennan sjúkdóm, sem reyndar er margir sjúkdómar en lýsir sér aðallega í því að frumuskipting verður stjórnlaus.
Hvað skyldi vera það erfiðasta við að vera læknir? Sennilega að taka ákvörðun um að gefast upp og hætta allri meðferð annarri en þeirri sem líknandi er. Sennilega er léttast ef sjúklingurinn getur tekið þá ákvörðun sjálfur eða fjölskylda hans, en annars er líklega reynt að hafa marga í samráði um slíkt. Sjálfur hef ég nokkrum sinnum þurft að taka slíkar ákvarðanir varðandi gæludýr og bara það er verulega erfitt.
Bókmenntasmekkur minn er dálítið skrýtinn. Fyrir nokkru las ég bókina Stiff eftir Mary Roach og skrifaði eitthvað um hana í maí síðastliðnum. Nú er það nýjasta bókin eftir hana sem ég þarf endilega að fara að lesa. Hún heitir: Gulp. Adventures on the Alimentary Canal.
Stiff fjallaði um fjölbreytt not af líkum og The Alimentary Canal er ekki bara vélindað heldur öll leiðin frá munni og niður úr. Svo held ég að einhver bók sé til eftir Mary um þyngdarleysi og áhrif þess á mannslíkamann.
Mikið er talað um nauðgunarmál o.þ.h. Hæstiréttur sneri nýlega við héraðsdómi og sýknaði menn, sem áður var búið að dæma til fangelsisvistar. Ég hef ekki lesið dóm hæstaréttar, þó ég ætti vel að geta það. Sú hugmynd sem ég hef fengið um verknaðinn af fréttum er að hæstiréttur sé í sjálfu sér sammála um að hinir ætluðu gerningsmenn séu sekir um hann, en ýmislegt í sambandi við rannsóknina og ytri aðstæður valdi því að ekki sé hægt að staðfesta dóminn.
Þetta er dálítið slæmt, því nauðsynlegt er að sæmileg sátt sé um úrskurði dómstóla. Hér á Íslandi hefur svo verið lengi og nauðsynlegt er að þannig verði það áfram. Skipun manna til dómsstarfa er ekki hafin yfir þjóðarvilja og hugsanlegt er að láta almenning ráða einhverju um þá skipun. Ekki er samt víst að bein kosning sé það rétta og alls ekki í æðstu dómstóla landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)