1988 - LÍÚ og kvótinn

Nútíminn er undarleg blanda af konsjúmerisma og hedonisma. Í stjórnmálum er kapítalisminn að drepast eftir að hafa gengið af kommúnismanum dauðum fyrir svona rúmum tuttugu árum. En hvað tekur þá við? Mér finnst sósíalismi og natúralismi allskonar vera í mikilli sókn um þessar mundir. Sú kreppa sem nú skekur hinn kapítalíska heim á eftir að breyta hugsunarhætti fólks. Þjóðremban er t.d. á undanhaldi eftir að hafa átt blómaskeið sitt uppúr heimsstyrjöldinni síðari.

Magíska talan varðandi undirskriftasöfnunina er sennilega þrjátíu þúsund. Held að ÓRG mundi eiga erfitt með að neita að fara eftir áskorun um þjóðaratkvæðagreiðslu ef undirskriftir verða svo margar. Með hjálp forsætisráðherra kann þó að vera að hann finni undankomuleið.

Ekki skil ég af hverju menn (og konur) eru að lesa bloggið mitt. En það er auðvitað ekki mitt að skilja. Mitt er að skrifa og skrifa sem allra mest og það helst án þess að segja nokkuð. Ef ég segi of mikið móðga ég einhvern. En hvað gerir það til? Ekki móðgast ég þó menn hætti að lesa þetta blogg.

Í dag er (eða í gær var) kvenréttindadagurinn. Reyndar eru það ansi margir dagar sem þær vilja eiga, en sama er mér. Ekki vil ég eiga þá. Af því tilefni vil ég aðallega segja að mér finnst að á minni löngu ævi (ehemm) hafi jafnrétti karla og kvenna talsvert potast áfram hér á okkar Ísa köldu landi. (Launamálin má vel hafa til viðmiðunar, þó að mörgu fleiru sé að hyggja.) Þessvegna finnst mér það afleitt og eiginlega alveg óásættanlegt (einsog í tísku er að segja) að við séum jafnvel að fjarlægjast jafnstöðu í þeim efnum. Mér finnst ósköp skiljanlegt að kvenfólki finnist hægt ganga í launajafnréttinu en karlmönnum aftur á móti furðu hratt, en að fara afturábak er einum of mikið.

Var að enda við að lesa grein eftir Smára McCarty um Brynjar Níelsson og rökvillur hans í kvótamálinu. Lára Hanna benti á þessa grein á fésbókinni. Vissulega er grein Smára sannfærandi og vel má halda því fram að hann tæti Brynjar í sig. Grein Brynjars sem hann einbeitir sér að var líka óvenju léleg. Hann getur gert betur en þetta. Í mínum augum skemmir það nokkuð grein Smára að íslenskan er ekki eins vel rituð og ákjósanlegast hefði verið. A.m.k. finnst mér það ekki. Vel getur verið að sumar villurnar verði leiðréttar fljótlega en jafnvel þó það sem mér finnst vera villur væri dregið frá er greinin mjög góð. Ekki þarf að búast við því að Brynjar svari þessari grein í nokkru, enda er hún svo rökfræðilega rétt að það er ekki hægt.  

Í athugasemdum við greinina útskýrir Daniel Magnússon nokkuð vel hvers vegna Brynjar hafi skrifað grein sína. Sjálfur vil ég helst ekki vera stimplaður „virkur í athugasemdum“ og fjölyrði því frekar um þetta mál hér, þó lesendur yrðu sennilega mun fleiri ef ég bryti þann odd af oflæti mínu að athugasemdast við greinina.

IMG 3322Vinnustofa.


Bloggfærslur 20. júní 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband