1964 - Kemst kannski á koppinn um Hvítasunnuna

Hver veit nema takist að koma nýrri stjórn á laggirnar um þessa ferðahelgi. Aðrir en Bjarni og Simmi hafa átt erfitt með sumarbústaðaferðir að unanförnu. Búast nefnilega við að verða ráðherrar. Kannski fer þessum galdradansi að ljúkja.

Rabb um hitt og þetta. Það er það sem bloggið mitt er. Nokkuð margir virðast samt kunna vel að meta það. Eiginlega eru það bara magnaðir besservisserar sem enn halda áfram að blogga.  Þeir hafa semsagt þörf fyrir að láta ljós sitt skína. Mín ljós eru reyndar nokkuð mörg. Hálfgerð jólasería. Sum ljósin sem á blogginu birtast eru óttaleg stjörnuljós. Þ.e. þau blossa upp og dofna síðan og deyja út mjög fljótlega. Þannig er því oftast varið með stjórnmálaskrif og ég reyni eftir mætti að forðast þau. Oft eru þau samt svo skemmtileg að ég get ekki stillt mig.

Margir setja allar sínar myndir (gamlar líka) á fésbókina. Kannski ekki alveg allar en oft án mikillar umhugsunar eða íhugunar. Þar með lenda þessar myndir í einhverskonar sameiginlegum potti sem allir geta ausið úr að vild og á þann hátt sem þeim sýnist. Ekki er víst að um hagsmuni fyrirmyndanna eða ljósmyndarans sé neitt hugsað. Auðvitað má það sama segja um ritað mál. Það er þó ekki alveg sambærilegt því fyrirmyndirnar má oft þekkja á myndunum og þeir sem þær sjá mynda sér kannski vafasamar hugmyndir útfrá þeim. Kannski er myndin frá upphafi birt (og jafnvel tekin) í algjörri óþökk viðkomandi.

Ég segi þetta ekki útfrá neinu ákveðnu dæmi, en dæmin eru samt mörg. Sumir forðast líka eftir mætti að setja myndir á fésbók. Svo eru aðrir eins og t.d. ég sem setja alltaf myndir á bloggið sitt. Myndmálið er sífellt að verða ágengara. Bráðum verður farið að ætlast til þess að lokaritgerðir við Háskóla landsins verði myndskreyttar ef kostur er. Og áður en varir verða kvikmyndir og vídeótökur allskonar sú almenningseign sem blessaðar ljósmyndirnar hafa lengi verið. Áður fyrr var það talsverður viðburður að láta taka af sér mynd. Nú eru svo margar myndir teknar á hverjum degi af hverjum sem er, að óðs manns æði væri að ætla sér að telja þær.

Finnst betra að blogga of lítið en of mikið. Margir skrifa alltof mikið. Eitthvað hlýtur að mega missa sig. Svo hengja margir sig í óttaleg aukaatriði eins og t.d. Söngvakeppnina. Samt er ég nú að hugsa um að fylgjast a.m.k. með spennunni í lokin. Finnst þetta þó með öllu laust við að vera athyglisvert. Kannski er þetta samt hámark lýðræðisins. Að fá leyfi til að hringja 20 sinnum á stuttum tíma og losa sig við slatta af peningum. Óviðjafnanlegt.

IMG 3149Einhverntíma hefur þetta verið reisulegt hús.


mbl.is „Áhyggjur verði Vigdís ráðherra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. maí 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband