1962 - Og stjórnin heitir....

Það að búið er gera ráð fyrir þingflokksfundum bendir til þess að helmingaskiptastjórnin sé að skríða saman. Ekki veit ég hvað hún verður kölluð í framtíðinni, en svo virðist sem búið sé að finna nafn eða nöfn á stjórnina sem er að fara frá. Hún virðist ætla að verða ýmist kölluð norræna velferðarstjórnin (með örlitlum háðshreim) eða Jóhönnustjórnin. Þingvallastjórnin var þar á undan og olli Hruninu. Þar áður voru Viðeyjarstjórnin og Helmingaskiptastjórnin sem undirbjuggu Hrunið af mikilli samviskusemi.

Það að manni finnst sífellt færri bækur vera skrifaðar um það sem maður hefur mikinn áhuga fyrir, kann að vera vegna þess að áhugasviðið þrengist jafnt og þétt. Eiginlega þarf maður einnig að vanda sig sífellt meira við val á þeim bókum sem maður þó les. Í dag fór ég á bókasafnið og fékk lánaðar einar 10 bækur og 6 hljóðbækur. Ólíklegt er samt að ég geri meira en að glugga í þessar 10 bækur því mér þykir mun þægilegra að nota kyndilinn minn við bóklestur og ég á mjög margar bækur þar ólesnar.

Það hlakkar mjög í andstæðingum íhalds og framsóknar þessa dagana. Hræddur er ég um að sú ríkisstjórn sem Simmi og Bjarni eru að reyna að koma á koppinn verði fljótt óvinsæl. Jafnvel svo fljótt að ekki verði hjá því komist að mynda nýja.

Falin er í illspá hverri
ósk um hrakför sýnu verri

sagði Stephan G. um árið. Helmingaskiptastjórn a la Davíð og Halldór ætti samt alveg að geta plumað sig. Tímarnir eru bara svo breyttir að hæpið er að gera ráð fyrir því. Þannig að vafasamt er fyrir báða flokkana að mynda slíka ríkisstjórn án þess að hafa plan B í bakhöfðinu. Læt ég svo útrætt um stjórnmálin, enda hef ég ekkert vit á þeim.

Ég get ekki að því gert að þegar ég sé menn með alvöru mottu á efri vörinni eins og þessi erkitípa sem er landsliðsþjálfari Þjóðverja eða eitthvað slíkt, þá verður mér alltaf hugsað til þess hvernig þessum vesalings mönnum gangi að borða. Sjálfur er ég með alskegg en ekki svona vöxtulegt yfirskegg og þegar það (yfirskeggið altsvo) er orðið of mikið þá fer ekki hjá því að það getur valdið truflun við át.

Vitsmunum stolið. Bíræfnir þjófar geta stolið hverju sem er. A.m.k. hverskonar munum. Jafnvel vitsmunum. Veit ekki af hverju mér datt þetta í hug en þetta er kannski ekki vitlausara en hvað annað. Ég hugsa t.d. oft um margfalda merkingu orða. Yfirleitt finnst mér íslenskan einstök að því leyti en líklega er hún það ekki. Hún er samt það mál sem ég get yfirleitt hnoðað til á þann hátt sem mér líkar best. Við önnur mál get ég það ekki. Flest þeirra skil ég raunar alls ekki.

IMG 3144Rusl – eða hvað?


mbl.is Þingflokkarnir boðaðir á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. maí 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband