9.4.2013 | 22:42
1935 - Birgitta komin heim
Mogginn segir að Birgitta sé komin heim, óhandtekin og allt. Hún ætti að gleðjast yfir því að fylgi Píratanna virðist vera að rjúka uppúr öllu valdi. Eða þannig. Á margan hátt er ég samt orðinn fyrirfram leiður á þessu kosningastagli. Mest er talað um milljarða núna. Það er liðin tíð að talað sé um milljónir og þessháttar smápeninga. Ætli það verði ekki trilljónir næst. Eða jafnvel skrilljónir.
Eftir lauslega talningu hef ég komist að því að flokkarnir hér á landi eru a.m.k. 26. Ellefu voru í sjónvarpinu áðan. Flokkur heimilanna er samstarf átta flokka hefur mér skilist og Bjarni Harðarson segir að Regnboginn sé samstarf sex flokka. Einnig telst mér til að þarna séu ekki meðtaldir Alþýðufylkingin, Húmanistar og Samstaða. Þetta telst mér til að séu 26 (11+7+5+3) Þetta er of mikið. Helsta sparnaðartillaga mín í komandi kosningum er að fækka þeim niður í þrjá, í mesta lagi. Þá yrðu þeir: Fjórflokkurinn, allir hinir og restin. Þetta finnst mér góð tillaga.
Margaret Thatcher er sögð hafa dáið í gær, mánudag. Eflaust er það alveg rétt. Mér er minnisstæðast varðandi hana það uppnefni sem hún fékk þegar hún varð ráðherra í fyrsta sinn. Mrs. Thatcher, the milk snatcher var hún kölluð. Eftirmælin um hana eru mjög misjöfn. Sumir hægri menn telja hana, ásamt Ronald Reagan kvikmyndaleikaranum í Hvíta húsinu, næstum því í guða tölu og hafa breytt heiminum, eða a.m.k. hinum vestræna heim og fært hann langt til hægri. Róttæklingar margir hafa alla tíð hatað hana og það sem hún stóð fyrir.
Á sínum tíma las ég bók sem á ensku heitir Ripples from Iceland og er eftir Amalíu Líndal. Hún var gift efnaverkfræðingnum Baldri Líndal sem m.a. kom við sögu saltverksmiðjunnar á Reykjanesi. Þessi bók er mér einkum minnisstæð vegna hnitmiðaðrar og vel saminnar gagnrýni á Ísland og Íslendinga, þó hún bæri þeim í heild vel söguna. Meðal annars segir hún frá því að hún hafi farið á æskustöðvar Baldurs þegar hún var nýkomin til landsins. Þar þurfti hún að sitja alein heillengi í ókunnu landi með suðandi flugur allt í kringum sig og karlmennina talandi mál sem hún skildi ekki orð í, bara vegna þess að hún var kona og þótti ekki hæf til að taka þátt í umræðum. Bók þessi kom fyrst út árið 1962 og það getur vel verið að ég hafi lesið hana nokkru seinna og í íslenskri þýðingu.
Geirfinns- og Guðmundarmálin er að mestu dottin úr umræðunni aftur, þó Erla Bolladóttiir reyni eftir mætti að halda henni áfram. Hræddur er ég um að ríkissaksóknari reyni enn og aftur að komast hjá því að taka þetta mál upp þó flest rök mæli með því að svo verði gert. Úrslit málsins geta varla orðið nema á einn veg og þó dæmt verði e.t.v. á annan veg að þessu sinni má búast við að skaðabætur verði torsóttar.
Umræður hafa orðið um þróunarhjálp eða réttara sagt þróunaraðstoð okkar Íslendinga. Hlægilegt er að bera saman velmegunarvanda okkar hér á Íslandi og neyðina víða í Afríku. Gagnrýnivert getur þó verið hið háa kaup og skattfríðindi hinna íslensku starfsmanna við aðstoðina, en hætt er við að annars fengjust ekki hæfir starfsmenn, því miður.
Bakkað var á bílinn okkar um daginn þar sem hann stóð á planinu hér fyrir utan. Nú er hann á réttingaverkstæði Auðuns sem er hér í næsta húsi og við komin á bílaleigubíl á meðan gert er við hann. Ekki veit ég hvort við notum hann mikið en þó getur það vel verið.
Ég á dálítið erfitt með að taka zombie- vampýru- og varúlfa-sögur og kvikmyndir alvarlega. Þó verður varla þverfótað fyrir þessu rusli. Sama er eiginlega um íslenskar draugasögur að segja. Held að ég sé alveg laus við myrkfælni. Var næturvörður í allmörg ár og undarleg hjóð og þess háttar á stórum yfirgefnum vinnusvæðum voru mér bara tilefni til að athuga málið. Og í engum tilfellum leiddi sú athugun neitt einkennilegt í ljós. Þó held ég að mig hafi ekkert skort ímyndunarafl til að ímynda mér að eitthvað hræðilegt væri á seyði. Aðalatriðið var að bíða alls ekki með athugunina.
![]() |
Ég þarf ekki að vera handtekin til að fá athygli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)