1937 - Bjarni mun hætta

Enginn vafi er á því að Bjarni Benediktsson mun hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins og það mun gerast fyrir kosningarnar 27. apríl n.k. Hanna Birna Kristjánsdóttir mun að sjálfsögðu taka við enda má gera ráð fyrir að hún hafi ætlað sér það alllengi. Um þátt hennar í þeirri skoðanakönnun sem birt var í Viðskiptablaðinu í dag (fimmtudag) veit ég samt að sjálfsögðu ekkert.

Ýmsar spurningar varðandi komandi þingkosningar leita óneitanlega á hugann. Af hverju hefur Regnboginn (eða Regnbogaflokkurinn) listabókstafinn J? Er það til heiðurs Steingrími Jóhanni? Af hverju nær Dögun ekki betri árangri í skoðanakönnunum en raun ber vitni? Þar er gjörvallur Frjálslyndi flokkurinn innan borðs (að ég held) og margir fleiri. Það er eitthvað bogið við þetta. Mér þykir það næstum því eins skrýtið og fylgisaukning Framsóknarmanna. Og er það virkilega svo að fólk hefur næstum engan áhuga á stjórnarskránni nýju eða er Þorvaldur Gylfasona bara svona leiðinlegur og mikill besservisser?

Í þeirri kosningabaráttu sem nú er að byrja er næstum ekkert rætt um nema loftfimleika Sigmundar Davíðs. Fast er sótt að honum en hann virðist háll sem áll og gefur ekki mikil færi á sér. Því er ekki að leyna að gera má ráð fyrir að eitthvað standi útaf þegar gerðir verða nauðasamningar við raunverulega eigendur gömlu bankanna. Það er reyndar búið að eyða þessari peningavon og það var gert þegar kröfurnar voru seldar. Vitanlega væri hægt að færa þær ennþá meira niður. Þar er komið að veikasta þættinum í röksemdafærslu Sigmundar. Hann segir að hrægammasjóðirnir (sem hann kallar svo)  vilji örugglega semja sem allra fyrst. Engin rök eru færð fyrir þeirri fullyrðingu og kannski vilja þeir ekkert semja um neitt.

Jafnvel þó allt gengi eins og Sigmundur Davíð segir og hagstæðir samningar næðust er ekkert rætt um þau áhrif sem það kynni að hafa á gengið og vilja útlendinga til að fjárfesta hér. Í síðasta lagi er heldur ekki farið að ræða um hvernig þessu 300 milljarða herfangi Sigmundar Davíðs verður skipt og hvort ríkið mundi bara ekki soga það í sína botnlausu hít. Full þörf er fyrir það þar.

Finnst það afar einkennileg tímasetning að birta núna könnun sem sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið mun fleiri atkvæði ef Hanna Birna Kristjánsdóttir hefði verið við stjórnvölinn en ekki Bjarni Benediktsson. Öfl innan flokksins vilja áreiðanlega losna við Bjarna strax eftir kosningarnar í lok þessa mánaðar, en ómögulegt er að skipta núna. Þetta tryggir næstum endanlega mikið afhroð flokksins í komandi kosningum.

Á margan hátt er erfiðara að breyta því eftirá sem sett er á blað en það sem sett er í tölvuskjal. Fólk á mínum aldri eru kannski óvant að setja hugsun sína á blað. (Eða í tölvuskjal). Það er samt lítill vandi, en mikilvægt er að stytta mál sitt nokkuð og endurtekningar ber að forðast. Ekki gengur upp að vera jafnmargorður og maður er jafnan í töluðu máli. Að öðru leyti er þetta alls ekki ýkja frábrugðið hvort öðru.

IMG 2984

 

Tré.


mbl.is „Ég útiloka ekkert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. apríl 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband