29.3.2013 | 12:47
1925 - Föstudagurinn langi
Það er oft erfitt að átta sig á hinum íslenska stjórnmálaveruleika. Sérstaklega á þetta við um alþjóðahyggjuna og hina þjóðlegu föðurlandsást. Slíkt er notað algerlega eftir hentugleikum og sá flokkur sem er alþjóðlega sinnaður í dag getur verið orðinn einangrunarsinnaður á morgun og öfugt. Sama er að segja um einstök mál. Stjórnmálalega séð getur verið nauðsynlegt að sækja fyrirmyndir t.d. að löggjöf til útlanda en í öðrum tilfellum má það alls ekki. Þetta held ég að útlendingar eigi oft erfiðast með að skilja varðandi íslensk stjórnmál.
Alþjóðahyggja og umverfisvernd hefur ekkert með flokkastjórnmál að gera. Hægri og vinstri lýsa flokkunum betur, en þó ekki vel. Þar er venjulega átt við mikil eða lítil ríkisafskipti en áður var einkum rætt um eign á framleiðslutækjum. Sá kapítalismi sem tekið hefur við á Vesturlöndum eftir að kommúnisminn leið undir lok í Ráðstjórnarríkunum hefur reynst afar gallaður. Á Íslandi er öllu blandað saman. Þar geta fulltrúar fjórflokksins rifist endalaust um stóriðju (óskilgreinda) og eitthvað annað (óskilgreint).
Allt er þetta háð peningum, bönkum og völdum. Þar hefur fjórflokkurinn allsstaðar komið sér vel fyrir og skammtar peninga og völd (og jafnvel banka líka) eftir flokkshollustu. Auðvitað eiga þeir bágt sem enga slíka hafa og koma þeir sér því oft upp falskri hollustu og skipta svo um þegar þeim finnst henta.
Þetta er ríkisstjórnartillaga Egils Helgasonar að því gefnu að B og D myndi ríkisstjórn og Framsóknarflokkurinn verði stærri:
Forsætisráðherra: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Utanríkisráðherra: Bjarni Benediktsson
Fjármálaráðherra: Illugi Gunnarsson
Menntamálaráðherra: Hanna Birna Kristjánsdóttir
Atvinnuvegaráðherra: Gunnar Bragi Sveinsson
Umhverfisráðherra: Sigurður Ingi Jóhannsson
Innanríksisráðherra: Ragnheiður Elín Árnadóttir
Velferðarráðherra: Eygló Harðardóttir
(birt án allrar ábyrgðar)
RÚV er vorkunn að þurfa að sinna öllum þessum smáflokkum. Svo er líka hætta á að þeir klóri augun hver úr öðrum. Útvarp Saga er ekki lengur í framboði og ég hef ekki hugmynd um hvern hún styður. Kannski hefur hún einhver áhrif eða a.m.k. Pétur Gunnlaugsson því bæði er hann mjúkmáll, vel að sér og talar við býsna marga.
Nú fer kosningabaráttan brátt að hefjast. Frí verður samt kannski um páskana, á meðan frambjóðendurnir borða páskaeggin sín, en síðan verður allt vitlaust og enginn friður. Ekki er það meining mín að skrifa um pólitík framað kosningum. Reyni að finna eitthvað skemmtilegra til skrifa um. En svona er Ísland í dag.
Man að í tíma hjá Gunnari Benediktssyni kallaði ég Fenrisúlf einhvern tíma Fernisúlf. Þetta var á þeim tíma sem fernisolíu og þurrkefni þurfti næstum hver maður að eiga. Man líka vel eftir Kristjáni frá Djúpalæk en hann stundaði eimitt húsamálun á þessum árum og hefur eflaust átt fernisolíu. Kristmann vann aldrei neitt á þessum árum minnir mig og Jóhannes úr Kötlum ekki heldur. Hann sat samt stundum yfir í prófum.
Rabb kallaði Emil Hannes þetta hjá mér og líkti við þáttinn um daginn og veginn. Einhver kallaði þetta líka raus. Hvort skyldi vera réttara? Sennilega skrifa ég alltof mikið og um næstum ekki neitt. Gæti svosem endursagt efni einhverra bóka, en hver hefur áhuga á því?
Í dag er föstudagurinn langi. Í gamla daga var sá dagur svakalega langur og þessvegna er ég að hugsa um að hafa þetta blogg í lengra lagi.
Lengd dagsins í gamla daga var mest útaf því að ekkert mátti gera. Ekki fara í fótbolta, leika sét úti eða gera neitt skemmtilegt. Seinna meir voru ferðalög að vísu leyfð, en samt mátti ekki fara hvert sem er. Helst átti manni að líða svolítið illa þennan dag. Jafnvel að pína sjálfan sig aðeins. Páskaeggin og maturinn voru þó svolítil huggun harmi gegn og Páskahátíðin í heild var fremur ánægjuleg.
Einkum var það vegna þess að þá var langt frí í skólanum. Seinna meir varð það að einskonar upplestrarfríi og þá ekki nærri eins spennandi. Auðvitað nennti maður aldrei (eða næstum aldrei) að læra neitt heima en að vera í upplestrarfrí var nóg til þess að samviskubitið nagaði mann. Svo vissi maður ekki nema aðrir tæku þetta alvarlega og væru að læra. Hikaði þess vegna við að fara til krakka og spyrja hvort þau vildu koma út að leika.
Mitt heimili var dálítið guðhrætt. Helst átti maður að minnast veru frelsarans á krossinum og kenna mikið í brjósti um hann. Auðvitað fannst mér þetta sem barni og unglingi vera hin mesta vitleysa og þegar ég fullorðnaðist held ég að ég hafi ekki reynt að sá einhverju um þetta í mína krakka.
![]() |
Páfi þvoði fætur ungra fanga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)