1922 - Birgitta segir....

Stjórnmálaástandið er dálítið skrítið þessa dagana. Hræddur er ég um að Árna Páli þyki hann hafa leikið svolítið af sér með því að bjóða uppá þessar sögulegu sættir þegar allir aðrir voru í óða önn að gíra sig upp í kosningar. Árni Páll var nefnilega nýbúinn að ganga í gegnum slíkt og var svo feginn að það var yfirstaðið að hann hélt sennilega að allir aðrir hugsuðu líkt og hann.

Það er nánast óásættanlegt að fá bara að kjósa til alþingis á fjögurra ára fresti. Árlegar þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál ( ekki bara bjór og þessháttar ) gætu bætt hér svolítið úr. Sveitarstjórnarkosningar og forsetakosningar eru hálfgert ómark. Ólafur Ragnar hefur þó nýverið tekið uppá því að gera forsetakosningar eftirtekarverðari en venjulega. Nú styttist semsagt til alþingiskosninga og því er ekki að neita að Framsókn virðist ætla að ná ágætum árangri þar. Auðvitað má þakka ríkisstjórninni fyrir það, en þó held ég að hún hafi reiknað með að Sjálfstæðisflokkurinn fengi mest af því fylgi sem afgangs yrði eftir misheppnaða vinstri stjórn.

Konan mín segir stundum þegar hún segir mér eitthvað „Ekki blogga um þetta.“ Og ég held að ég geri það ekki. Kannski er það helsti veikleikinn við bloggið hjá mér að ég skrifa bara um það sem mér finnst merkilegt. Og meira að segja ekki nema um sumt. Fjölskyldumál og einkamál reyni ég að leiða hjá mér. Enda held ég að fáir hafi mikinn áhuga á því. Lesendum mínum er samt að fjölga, sýnist mér. Líklega stafar það að mestu leyti af því að ég linka í Moggafréttir (sem mér finnst ekki mjög merkilegar) og auglýsi bloggið þar að auki á fésbókinni. Gamalmennablogg er þetta kannski kallað, en það er ekkert endilega neikvætt.

Stundum reyni ég að vera fyndinn, en stundum er ég grafalvarlegur þegar ég blogga. Auðvitað held ég að allir sjái hvort heldur er, en samt er oft vissara að gera ráð fyrir að það fattist illa. Reyni jafnvel stundum að gera grín að sjálfum mér, en viðurkenni fúslega að ég er enginn Þórbergur þegar kemur að því.

Sigurður G. Guðjónsson, sem eitt sinn var stjórnandi á Stöð 2 gerir í blaðagrein ráð fyrir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur myndi stjórn að kosningunum í vor afstöðnum. Ráðherralisti hans er svona:

Forsætisráðherra: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson B.
Utanríkisráðherra: Bjarni Benediktsson D.
Fjármálaráðherra: Frosti Sigurjónsson B.
Innanríkisráðherra: Vigdís Hauksdóttir B.
Atvinnuvegaráðherra: Einar Kristinn Guðfinnsson D.
Mennta- og menningarmálaráðherra: Hanna Birna Kristjánsdóttir D.
Velferðarráðherra: Sigrún Magnúsdóttir B.
Umhverfisráðherra: Eygló Harðardóttir B.

Þetta gengur nú ekki alveg upp hjá honum því mér sýnist skiptingin vera 5:3 og hún er ólíkleg. Hins vegar er sennilegt að B fengi forseta þingsins og báðir flokkar hafa svosem fleiri ráðherraefni.

Svo er alls ekki víst að það verði B og D sem mynda næstu ríkisstjórn. Kosningarnar sjálfar eru eftir.

Einn skrifaði í athugasemdadálkinn hjá mér við síðasta blogg (athugasemd við athugasemd hmm) og las sennilega ekki bloggið áður. Ég skrifaði einmitt svolítið um Norður-Kóreu og gerði það viljandi að linka í þá frétt. Aðsóknin fór bara svolítið úr böndunum, en ég get ekki gert að því.

Eftir því sem Birgitta Jónsdóttir segir á fésbókinni er búið að semja um þinglok. Sennilega stendur þingfundur samt eitthvað framá nótt því ýmis mál þarf að klára. Gaman verður að vita hver áhrif þinglokanna verða á skoðanakannanir. Alls ekki er víst að þau áhrif komi fram alveg strax. Sjálfur get ég bara ítrekað það sem ég hef áður sagt hér á blogginu. Ég mun ekki undir nokkrum kringumstæðum ljá fjórflokknum eða aftaníossum þeirra mitt atkvæði. Píratana eða Lýðræðisvaktina finnst mér mun áhugaverðara að kjósa. Dögun kemur einnig til greina. Endurnýjun á Alþingi þyrfti að verða sem allra mest. Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin hafi með öllu brugðist, alþingi hefur einnig gert það.

IMG 2884Köngull.


mbl.is Birgitta segir samkomulagi náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1921 - Íris Erlingsdóttir

Nú er ég búinn að finna aðferðina. Gá hvaða frétt er nýjust á mbl.is og skrifa smáklausu um það mál og linka síðan í fréttina. Kannski enda ég með að verða eins vinsæll og Páll Vilhjálmsson. Er ég þá kannski kominn í vinnu hjá Davíð frænda?  Hugsanlega get ég farið að kalla mig ofurbloggara. Hver veit nema ég fari bráðum að setja aðsóknartölurnar út fyrir ramma. Það er eiginlega það eina sem ég kann almennilega á varðandi stjórnborðið. Er alltaf hálfhræddur við að breyta nokkru þar.

Fyrst þegar ég sá ( þónokkru fyrir aldamót - í kvikmynd – minnir mig) að Norður-Kóreumenn voru orðnir aðalóvinir Bandaríkjanna fannst mér það fyndið. Það voru þeir gerðir þrátt fyrir að vera algerir ómerkingar á heimsvísu. Kveikjan að allsherjar kjarnorkustríði er samt ekkert fyndin. Ekki er þó víst að allt sé satt og rétt sem sagt er um Norður-Kóreu á Vesturlöndum. Tortíming mannkyns getur orðið með margskonar hætti. Trúlegt er samt að hún verði einhverntíma. Hef enga trú á að Kínverjar leyfi Norður-Kóreumönnum að ganga of langt hernaðarlega. Áhrif Kínverja á gang heimsmála eru að aukast og munu gera það enn frekar í framtíðinni. Sú framtíð er þó talsvert undan og eiginlega er sú spurning hvort núverandi stjórnarfar þar geti haldist til langframa langmerkilegasta spurningin í heimspólitíkinni.

Lífið er orðið of hættulaust. Gallinn er sá að það er ekkert hættulegt að lifa lengur. Þessvegna er það sem fimmtugir kallar finna uppá því að ganga á Everest. Það er ekki nógu hættulegt að tóra bara. Annars öfunda ég þá. Skil bara ekki hvernig þeir hafa efni á þessu. Þetta er alveg rándýrt sport. Það er hægt að halda kostnaðinum niðri ef maður fer aldrei hærra en Helgafell við Hafnarfjörð, en maður fer ekki á Everest nema með dýrasta og fínasta útbúnað í farteskinu.

Íris Erlingsdóttir skrifar grein um Sigmund Davíð í DV sem hún kallar „Rukkum Sigmund um Icesave kostnaðinn“, http://www.dv.is/blogg/iris-erlingsdottir/2013/3/26/rukkum-igmund-um-iceave-kostnadinn/ og vandar honum ekki kveðjurnar þar. Mér finnst hún taka fullmikið uppí sig í þessari grein, en hún er samt athyglisverð. Á sínum tíma var ég fylgjandi því að samið yrði um Icesave. Einkum fannst mér og finnst enn að það að fara með málið fyrir dómstól ESA hafi borið vitni um happdrættishugarfar Íslendinga. Ég batt samt vonir við að ekki yrði mikið deilt um úrslit þess máls eftirá. Að því leyti til finnst mér grein Írisar ómálefnaleg.

Er samt sammála henni um það að Sigmundur sé óttalegur „lukkuriddari“ og fylgi Framsóknar sé að stórum hluta til byggt á Icesave-misskilningi. Það er samt ekkert verra en annnað fylgi. Það að finnast fylgi annarra flokka byggjast á fávisku er merki um þann veikleika sem fylgir íslensku flokkakerfi. Það hefur átt alltof auðvelt með að tryggja sig í sessi. Raunverulega hafa önnur öfl enga möguleika. Fjórflokkurinn hefur allsstaðar hreiðrað um sig. Kannski mun hann samt fá einhverja ráðningu í næstu þingkosningum og hugsanlegt er að hann bæti ráð sitt eitthvað. Sú ráðning mun samt ekki verða umtalsverð því eins og venjulega kemur andstæðingum kerfisins illa saman.

IMG 2879Reitir.


mbl.is Hótar að ráðast á Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband