1893 - Eplaskrælingur

Mig langar dálítið mikið til að vera gáfaður. Sennilega er ég það samt ekki. A.m.k. ekki gáfaðri en aðrir. Þetta er niðurstaða sem ég hef komist að eftir langa og ítarlega umhugsun. Samt sem áður er minn hugur það eina sem ég get miðað við. Sumir eru greinilega gáfaðri en ég og geta jafnvel komið betur fyrir sig orði (og er þá mikið sagt). Mér dettur samt ekki í hug að fara með sjálfan mig neðar en á miðjuna eða svo. Samkvæmt því er ég semsagt í meðallagi gáfaður. Auðvitað standa allir sem lesa þetta mér framar að þessu leyti (annars mundu þeir ekki vera að lesa). Nú er ég líklega kominn á hála braut og sennilega er best að taka upp léttara hjal.

Ég er sérfræðingur í að skrifa um ekkert. Já, sennilega er ég bara nokkuð góður í því. Það get ég gert í löngu máli eða stuttu, alveg eftir því sem óskað er. Ég passa mig líka nokkuð vel á því að taka helst ekki afstöðu. Með því móti má komast hjá því að móðga fólk. Kannski geri ég það samt. En það er þá alveg óvart. Helst vil ég enga afstöðu taka og mæti flestöllu með neikvæðri kaldhæðni.

Kaldhæðnin er ágætisvopn. Það er líka ágætt að tala þannig að fólk haldi alltaf að manni sé alltaf fúlasta alvara. Það geri ég og kannski er það þessvegna sem Baggalútsbrandararnir virka svona vel á mig. Mér finnst sú tegund kímnigáfu sem kemur fram í fréttunum þar oft alveg óborganleg.

Ef við tökum þetta blogg sem dæmi (ekki samt um brandara – heldur um það að skrifa um ekki neitt) þá er ég ekki viss um að neitt merkilegt verði í því. Samt eru furðumargir sem lesa þetta. Auðvitað þykist ég vera sérfræðingur í öllu sem ég skrifa um. Gúgli frændi stendur mér þó framar. Því hann getur flett uppí ótrúlega stóru safni af allskyns upplýsingum og er öskufljótur að því.

Þó ég hafi skondrað á bókasafnið í gær þá finnst mér orðið best að lesa á kyndlinum mínum. (Kindle fire) Bækurnar þar eru líka orðnar ansi margar. Áreiðanlega þónokkur þúsund. Samt þykir mér mest gaman að liggja uppí rúmi og skoða bókarkápur, lesa umsagnir um bækur og dánlóda kannski sýnishorni ef mér líst vel á umsögnina.

Ekki kostar þetta nokkurn skapaðan hlut og hægt er á velja sér ókeypis bækur af öllu mögulegu tagi ef áhugi er fyrir hendi. Þær eru bæði gamlar og nýjar en auðvitað engar metsölubækur. Slíkar eru þó oft boðnar á 1 til 2 dollara í kynningarskyni og oft standa þau tilboð ekki lengi. Já þetta er alltsaman á Amazon ég veit það. Get líka keypt (með stóru kái eða bara hælætað) bækur en tími því sjaldan. Ef myndir eru í bókunum er líka hægt að stækka þær að vild o.s.frv. Svo er kyndillinn líka spjaldtölva þó mér finnist nú fremur óhönduglegt að flakka þar um internetið til lesa blogg o.þ.h. Nú er ég til dæmis að lesa alveg nýja bók þar (á kyndlinum altsvo - útgefna í janúar 2013) um skammtafræði. Hún er eftir Greg Kuhn og heitir „Why Quantum Physicists Do Not Fail“. Þessi bók lítur ljómandi vel út og er vel skrifuð. Segi betur frá henni seinna – ef ég man.

Svo sá ég áðan mynd af Vilborgu Davíðsdóttur sem stóð sig alveg eins hetja við fráfall mannskins síns um daginn og var að lesa viðtal við Ingó ljósmyndara eftir Þórarinn Þórarinsson á Fréttatímanum. Já, ég hugsa talsvert um dauðann en er ekkert upptekinn af honum.

Mér finnst fyndið að hafa fyrirsögnina á þessu bloggi alveg útúr kú. Þetta með eplaskrælinginn er hugsað sem einskonar Baggalútsbrandari.

IMG 2643Landslag, eða hvað?


Bloggfærslur 1. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband