2077 - Kennedy

Ég hef enga trú á að núverandi ríkisstjórn verði langlíf. Sigmundur Davíð virðist vaða í villu og svíma. Í næstu kosningum mun fylgið hrynja af Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig stórlega laskaður. Varla að hann nái sér á strik aftur. Hreinn meirihluti er fjarlægari en nokkru sinni í mjög langan tíma. Verst er að samstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna var ekki hótinu skárri. Kannski lofuðu þau ekki eins miklu og Sigmundur Davíð en vinstri sinnað fólk bjóst áreiðanlega við meiru af þeim. Ríkisstjórn þessara flokka var óneitanlega bölvað klúður.

Kannski knattspyrnuhysterían renni nú aðeins af fólki. Landsliðið okkar er samt mun betra en venjulega. Fáar stórþjóðir leggja verulega rækt við landsliðin og vissulega er tækifæri þar fyrir smáþjóðir eins og okkur Íslendinga. Þó eigum við langt í land með að verða á heimsmælikvarða í fótboltanum. Í augum útlendinga erum við Íslendingar fyrst og fremst hlægilegir fyrir að þykjast alltaf vera stærri en við erum.

Þó stöndum við okkur ágætlega á sumum sviðum t.d. í listum og einstaka íþróttagreinum „miðað við fólksfjölda“. Samt erum við hrikalega aftarlega á merinni í flestu öðru. Þó vinsæl iðja sé að hallmæla öllu sem íslenskt er, ætla ég að reyna að falla ekki í þá gryfju. Á margan hátt er mesta furða að við skulum geta haldið uppi menningarþjóðfélagi svo fámenn sem við erum.

Mér finnst þingmaðurinn Birgitta Jónsdóttir breyta fésbókarforsíðunni hjá sér of oft. Einhverjir gætu misst af þessu. Svo ætti hún að hafa nóg að gera við að vekja fólk til Internet-vitundar eins og Pírata er siður. Ég er alls ekki að hallmæla Pírötum. Kaus þá sjálfur og sé ekkert eftir því, en fyrr má nú rota en dauðrota. Af einhverjum orsökum hef ég setið meira við tölvuna í dag (miðvikudag) en venjulega og meðal annars farið hvað eftir annað á fésbókina (já, ég er bara svona – það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.) Hef enga tölu á því hve Birgitta hefur oft breytt um forsíðumynd í dag, en mér finnst það semsagt of oft. Kannski er hún bara vön þessu, öskufljót að því og ekkert við því að segja.

Já, ég lít svolítið á mig sem eins manns fjölmiðil. Oftast eru það svona hundrað manns á dag sem lesa bloggið mitt eða kíkja a.m.k. á það. Mörgu verð ég þó að sleppa sem gaman væri að skrifa um. Hvað skrifelsismagnið snertir er ég alveg á pari við Ómar Ragnarsson, finnst mér. Að öðru leyti er ég alls ekki að líkja okkur saman. Hann skrifar óhemju mikið og Jónas líka. Veit ekki með aðra. Má sjaldan vera að því að lesa langar greinar því mér finnst ég þurfa að skrifa svo mikið.

Nú eru að verða 50 ár frá morðinu á Kennedy. Enn eru menn að búa til samsæriskenningar um þennan atburð. Ef einhver fótur væri fyrir þessum kenningum væri það afar vel af sér vikið að hafa tekist að halda öllu leyndu í 50 ár. Þó margt sé ansi skrítið í sambandi við mál þetta trúi ég því að Oswald hafi gert þetta. E.t.v. samt með einhverri aðstoð. Annars er ekki hægt að ætlast til þess að allir hlutir upplýsist að lokum. Okkar eigin Guðmundar og Geirfinnsmál eru enn óleyst ráðgáta og sama má segja um Palmemálið í Svíþjóð.

IMG 4693Hringleikahúsið í Veróna.


Bloggfærslur 21. nóvember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband