2067 - DV

DV fækkar útgáfudögum úr 3 í 2, segir Mogginn og ekki lýgur hann. Ég sem hélt endilega að DV væri dagblað og kæmi út svona 5 til 7 sinnum í viku. Ekki vissi ég að það kæmi bara út þrisvar. Og nú á enn að fækka útgáfudögum. Dinósárar dagsins eru prentuð dagblöð. Lesa virkilega einhverjir svoleiðis ennþá? Enn sætti ég mig við ofbeldi sjónvarpsins og horfi oft á fréttir þar. Fréttir jafnóðum eru þó betri. Engin ástæða til að geyma þær og voka yfir þeim í allt upp í sólarhring. Mikil endemis vitleysa að lúra á þeim bara til að koma þeim að í einhverjum fyrirfram ákveðnum fréttatíma. Fornaldarhugsun.

Sá um daginn að nöfn barnaníðinga (dæmdra?) voru birt á fésbókinni. Kom verulega á óvart hve margir þeir voru. Hélt að hérna í fámenninu væru þeir miklu færri en þetta. Lagði ekki nöfn þeirra á minnið og er ekki sannfærður um að nákvæmlega þetta sé rétta aðferðin. Hinsvegar er ég sannfærður um að þeir sem hagsmuna eiga að gæta þurfa að geta fengið upplýsingar um heimili dæmdra barnaníðinga fyrirfram. En fjölyrðum ekki meira um þetta. Mál af þessu tagi er ég tilbúinn til að fela lögreglunni að sjá um. Hún er líklegri en flestir aðrir til að feta hinn mjóa veg sanngirni í þessu efni. Ég vantreysti henni mun meira í öðrum málum, sérstaklega fíkniefnamálum.

Sigmundur Davíð forsætisráðherra er sívælandi. Það sæmir ekki manni í hans stöðu að vera sífellt að kveinka sér undan umfjöllun fjölmiðla. Þeir eiga að gagnrýna hans gerðir og gera það. Sífelld jákvæðni þeirra og eilíft meinleysi gagnvart stjórvöldum er hættulegt. Það hefur sýnt sig. Annars ætla ég ekki að gagnrýna ríkisstjórnina sérstaklega. Þessi mánuður (nóvember) getur orðið tími vatnaskila. Kannski efna ríkisstjórnin og Sigmundur sín helstu loforð einmitt í þessum mánuði og þá verður þeim margt fyrirgefið. Verði svo ekki er hætt við að hveitibrauðsdögum stjórnarinnar ljúki fljótlega.

Það kemur mér á óvart (margt kemur mér á óvart) hvað Hallgrímur Helgason, þrátt fyrir alla sína rithöfundarfrægð, er óhræddur við að láta ljós sitt skína á fésbókinni. Af einhverjum ástæðum er ég fésbókarvinur hans og fæ alltaf að vita, ef hann sendir eitthvað frá sér þar. Ekki er Eiríkur Örn svona. Hann er meiri bloggari en fésbókari. Margt sem hann skrifar er þó mjög athyglisvert – finnst mér. Kannski er það samt ekki mikið að marka. Skelfilegt tuð er þetta í mér. Ég virðist ekki geta um annað hugsað en fésbók og blogg. Skelfing er það fáfengilegt.

Þó bloggið mitt sé talsvert lesið (segir Moggabloggsteljarinn) eru afar fáir sem kommenta á það. Ekki veit ég hvort ég á að taka það sem last eða lof en hallast helst að því að það skipti litlu máli í þessu sambandi. En sennilega held ég áfram að blogga eins lengi og nefndur teljari hreyfist. Það er nefnilega skemmtilegast ef einhverjir lesa bullið úr manni. Kannski er það það eina sem ég get. Að bulla endalaust semsagt.

Af hverju er alltaf fjallað um neyðarkall björgunarsveitanna? Mér hefur þó skilist að um kellingu sé að ræða að þessu sinni. Annars minnir þetta mig á Tinnu. Hún var nýbúin að læra að segja bless við alla við brottför. Ætli hún hafi ekki verið svona að verða tveggja ára þá. Þegar hún var eitt sinn að fara þar sem hún þekkti ekki alla með nafni sagði hún bara: „Bless, kall.“

IMG 4314Eden og eplið.


Bloggfærslur 1. nóvember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband