1843 - Mannanafnanefnd

Fólk óskapast mikið útaf mannanafnanefnd. Slíkur fíflagangur minnir mig alltaf á Friðrik sem eitt sinn var skólastjóri í Laugargerði á Snæfellsnesi. Krökkunum í skólanum var stranglega bannað að nota tyggjó. Ég minntist einhverntíma á það við hann að mér þætti framfylgd þess banns óþarflega ströng. Hann sagði að það væri rétt, en þá væri líka auðveldara að vera virkilega strangur ef afbrotin væru stærri.

Sama er um nöfnin að segja. Fólk getur belgt sig út vegna mannanafnanefndar án þess að það saki nokkuð. Á meðan er fólk gert að þrælum og heilbrigði þess og lífsgleði stolið frá því, en það gerir minna til. Annars held ég að mannanafnanefnd reyni að vinna starf sitt af samviskusemi og ábyrgð. Langflestir þeirra sem hæst hafa um andlegt og líkamlegt ástand nefndarinnar vita næstum ekkert um starf hennar.

Að íslenskan (og nafngiftirnar líka) skuli hafa haldist óbreytt um aldir er nokkuð sem við ættum ekki að miklast af. Auðvitað væri samt eðlilegra að hafa enga mannanafnanefnd og prestar og aðrir skráningaraðilar réðu hvað þeir gerðu varðandi nöfn og síðan gætu börn, ef þau vildu, skipt um nöfn þegar þroski til þess væri orðinn nægur. Veit ekki til að mannanafnanefnd hafi  nokkurntíma haft afskipti af nafni sem unglingur hefur valið sjálfum sér.

Einhver stöðin eða vefritið kaus mann ársins. Ég kannaðist ekkert við nafnið. Það hlýtur að vera mér að kenna. Fylgist vafalaust ekki nærri nógu vel með fréttum. Líka er möguleiki að fréttamat mitt sé eitthvað frábrugðið því sem er hjá þeim sem völdu þennan mann ársins. Hef líka grun um að menn ársins (bæði karlmenn og kvenmenn) séu fullmargir. Það er þó bara hugmynd. Ekki er mikil hætta á að ég verði maður ársins. Get bloggað af hjartans lyst án þess að vera hræddur um það.

Nú er allur snjór horfinn hér á höfuðborgarsvæðinu. Vonandi verður svo áfram. Mér er eiginlega sléttsama þó það þýði að einhversstaðar verði kal í túni. Verð bara að segja það. Sumsstaðar er snjórinn nefnilega eins og ábreiða yfir viðkvæman gróður. Veit ósköp vel að ekki verður frostlaust til vors en það er alveg leyfilegt að vona að snjór, slabb og krap heyri fortíðinni til.

IMG 2279Gangstéttar eru ekki fyrir óbreytta Kópavogsbúa. 


Bloggfærslur 5. janúar 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband