22.1.2013 | 15:20
1860 - Synd
Já, ég viðurkenni að ég syndgaði gegn blogg-guðunum (eða æðstu mönnum bloggsamfélagsins) með því að birta viljandi gamla ljósmynd með síðasta bloggi, en ég var enga mynd búinn að öpplóda. Hjá því varð semsagt ekki komist, því ég var búinn að skrifa eitthvað sem ég taldi mig þurfa að koma frá mér. Nú sé ég að fáeinar myndir eru í myndavélinni og það getur verið að ég noti eitthvað af þeim. Látið ykkur semsagt ekki bregða þó snjómyndir sjáist, því veðurlagið hefur verið svolítið óstöðugt að undanförnu.
Þabba sona. Reglufestan allt að drepa. Svo á ég ekki einu sinni mynd til að setja á þetta blogg. Kannski rætist samt úr því í fyrramálið.
Í dag tókum við tvö málverk af blindrömmunum sem þau voru á. Þau höfðu nefnilega skemmst. Eitt sinn höfðu þau hangið uppi og ég mundi vel eftir þeim.
Í dag byrjaði ég að lesa sýnishorn af bók sem Madeleine Albright (fyrrverandi utnaríkisráðherra Bandaríkjanna) skrifaði og gaf út í fyrra og þó hún fjalli svolítið um Prag á stríðsárunum jafnast hún á engan hátt við bókina sem ég skrifaði um í gær.
Nú er ég að skrifa blogginnlegg númer 1860 sé ég efst á síðunni. Afi minn (í móðurætt) fæddist árið 1855 svo bráðum verður hægt að leggja einhverja merkingu í bloggnúmerin hjá mér, en hingað til hefur það verið erfitt.
Hvernig í ósköpunum kemur fólk sér upp pólitískum skoðunum. Og breytir áróður einhverju þar um. Vildi að hægt væri að sanna að svo sé ekki. Held það nefnilega. Er þá öll kosningabaráttan sem svo er kölluð til einskis? Já, það held ég. Þó margt sé rannsakað hefur þetta atriði fengið að vera í friði. Það er líka tiltölulega auðvelt að leiða hamaganginn hjá sér. Þeir sem beita sér sem mest í þessu öllu virðast þó trúa því að þetta hafi áhrif. Ekki dettur mér í hug að einhverjir þeirra sem leggja í vana sinn að kíkja á bloggið mitt fari að taka upp á þeirri ósvinnu að skipta um pólitíska skoðun við að lesa það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2013 | 03:29
1859 - Tunglið
Allt þar til nýlega var talin svolítil hætta (kannski ekki nema einn möguleiki á móti milljón en hætta samt) á því að smástirni eitt sem nefnt er Apophis, sem talið er vera um 325 metrar í þvermál mundi rekast á jörðina árið 2036. Nú hefur smástirni þetta nýlega farið framhjá jörðinni og þá gafst tækifæri til að reikna þetta nákvæmlega og niðurstaðan er sú að þessi hætta er ekki lengur fyrir hendi. Samt er sú hætta alveg jafnmikil og áður að einn góðan veðurdag lendi smástirni á jörðinni og sú hætta er tekin alvarlega af vísindamönnum. Öruggt er að það verður ekki fyrirvaralaust og möguleikar okkar til að koma í veg fyrir slíkan árekstur eru talsvert miklir. Slíkir árekstrar hafa orðið og munu áreiðanlega verða í framtíðinni en óvíst er hvenær.
Tunglið er að detta aftur fyrir sig og lendir líklega einhversstaðar á Kársnesinu eða í sjónum þar úti fyrir. Þannig lítur það a.m.k. út frá mér séð. Varðmaðurinn þar gæti hafa sofnað því klukkan er rúmlega fimm og ég andvaka rétt einu sinni.
Þegar svefntaflan sem ég tók áðan fer að virka þá kemst ég líklega í stuð við að skrifa en verð jafnfram skelfilega syjaður. Hvort skyldi þá vera betra að halda áfram að skrifa eða fara að sofa. Þetta er spurningin sem ég þarf að svara bráðum og ég er ekki í neinum vafa um að ég vel svefninn. Hann er sætari en allt sem sætt er. Svona má reyndar ekki segja því sykur er skylt að hata út af lífinu. Öðru hvoru lendir hann þó í kaffibollanum mínum án þess að ég geti komið í veg fyrir það. Ég held að ég nenni ekki einu sinni að bíða eftir að tunglið detti.
Pólitíska rétthugsunin sem öllu tröllríður núna er verndun einhverrar gígaraðar á Reykjanesi. Til stendur að virkja þá gígaröð kannski einhverntíma seinna, því hún er víst á svæði þar sem slíkt er leyfilegt samkvæmt einhverju plaggi. Meðan rétthugsendur einbeita sér að þeirri verndun á svo að virkja neðri hluta Þjórsár þegandi og hljóðalaust. Þetta er aðferðin sem beitt var við Eyjabakka og rétthugsendur eibeittu sér að á meðan Kárahjúkavirkjum var undirbúin. Merkilegt hvað virkjunarandstæðingum gengur illa að átta sig á þessu. Annars er þetta bara hugmynd sem ég fékk núna rétt áðan og kannski er hún tóm vitleysa. Þetta er varnagli sem ég verð að slá svo ég verði ekki sakaður um öfugan andvirkjunarsinnaáróður. Skil þetta varla sjálfur, en samt er það víst svona.
Þetta er bara mynd sem ég fann og er örugglega búinn að birta áður. Er orðinn uppiskroppa með nýjar myndir, en læt þann vana að hafa mynd aftast í blogginu ráða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)