1847 - Nú er manni sagt að dag sé farið að lengja

Með því að skrá þig á fésbókina og ég tala nú ekki um ef þú samþykkir flest sem þar er stungið uppá og lækar og sérar dálítið mikið ertu búinn að gera sjálfan þig að ómerkilegri verslunarvöru. Allar upplýsingar sem fást á fésbókinni eru seldar hæstbóðanda. Ekki þarf samt að gera ráð fyrir að einhverjir misyndismenn komist yfir þessar upplýsingar fljótlega, til þess eru þær alltof almenns eðlis, en vegna þess hve þær eru margar geta þær í framtíðinni orðið nokkurs virði. Enginn veit heldur hvernig hægt verður að nota (eða misnota) þessar upplýsingar seinna meir.

Þegar ég skrifa um pólitík á netið ímynda ég mér að ég sé nægilega grunnur og nægilega djúpur til að nálgast eitthvert meðaltal. Sennilega er þetta tóm ímyndun hjá mér og kannski skiptast lesendur mínir í tvo hópa. Í þeim fyrri eru væntanlega þeir sem vorkenna mér vitleysuna en í hinum þeir sem eru mér að mestu leyti sammála. Hvor hópurinn er svo stærri læt ég lesendur um að ímynda sér. Sjálfur ímynda ég mér áreiðanlega allskyns vitleysu í því efni og sú ímyndun er sífellt að breytast. Jæja, nú er ég hættur þessum speglasjónum.

Leit aðeins á skammstafanirnar sem ég setti á bloggið í gær og sé auðvitað strax að ég hef misritað a.m.k. eina. Það er skammstöfunin WYSIWIG. Hún á auðvitað að vera WYSIWYG, en á því er stór munur eins og allir sjá. Þessi skammstöfun minnir mig að þýði: What You See Is What You Get og er t.d. notuð talsvert í tölvumáli.

Fór áðan út að ganga. Rokið var talsvert og þegar rigningin bættist við sneri ég við. Eiginlega birtir ekkert þessa dagana. Það vantar alveg sólskin svo maður sannfærist um að daginn sé farið að lengja. Nú hefst semsagt biðin langa. Það er að segja biðin eftir vorinu, fuglunum, hitanum, góða veðrinu, sólskininu og græna litnum. Þingkosningarnar í vor eru algjörlega í öðru sæti.

Eiginlega er ég alveg uppiskroppa með myndir núna. Biðst afsökunar á því hvað myndirnar sem fylgja blogginu þessa dagana eru lélegar. Það er líka svo mikið myrkur að það er ekkert sniðugt að taka myndir. Vonandi rætist samt úr þessu fljótlega svo ég þurfi ekki að grípa til gamalla mynda. Það geri ég samt sennilega frekar en að hætta þeim sið að láta eina mynd fylgja hverju bloggi. Þó veit ég það ekki. Kannski hætti ég bara þessari vitleysu.

IMG 2377Dominos.


Bloggfærslur 10. janúar 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband