1756 - Klámið

Bækur með klámfengnu efni fóru mjög dult í mínu ungdæmi. (Roðasteinninn og ýmislegt annað – menn lásu Agnar Mykle með mikilli athygli þá. Mér hefur samt orðið minnsstæðari  smásagan hans um manninn sem keyrði yfir heypokann en klámið) Nú kippa menn sér lítið upp við klám í bókum. Mér finnst samt flestir fjölmiðlar vera uppfullir af klámumræðu um þessar mundir. Sú umræða sem átti sér stað (einkum utan Íslands, kannski) um klámið uppúr 1970 fannst mér mjög áhugaverð, en sú umræða sem fer fram núna, finnst mér ekki vera það. Auðvitað eru samt margir sem þurfa að velta sér uppúr þessu og ekkert við því að segja.

Í dag er föstudagur og ég er að hugsa um að reyna að skrifa eitthvað og setja það upp seinni partinn. Nú er klukkan að verða tíu fyrir hádegi og ég er búinn að vera vakandi talsvert lengi. Þegar maður eldist og þarf ekki að fara til vinnu vaknar maður ennþá fyrr en áður. Það er ekkert varið í að liggja sem lengst í bælinu. Auðvitað fer maður fyrr að sofa en áður. Jafnvel fyrir miðnætti.

Hef tekið eftir því að bloggið mitt er meira lesið um helgar en annars. Kannski fara þá fleiri út fyrir rammann og skoða eitthvað sem þeir skoða yfirleitt ekki á rúmhelgum dögum. Sjálfur geri ég engan greinarmun á því hvort ég skrifa um helgi eða ekki. Það er mikil guðsblessun að stórmarkaðirnir, sem eru þær verslanir sem ég fer helst í, eru opnir um helgar. Skelfing hefur oft verið leiðinlegt að vera gamall áður fyrr. Engar tölvur, ekkert hægt að fara og ekkert hægt að gera. Það er svosem alltaf nóg um að vera samt. Maður nennir bara ekki að vera að þeytast um allt. Svo er bensínið orðið rándýrt.

Var að lesa eitthvað um námskrár og leikskóla og einhver komst þannig að orði að munur hefði verið ef skilgreiningar af þessu tagi hefðu verið til staðar þegar hann var ungur og þá hefði hann kannski gert annað en éta sand. Ég fór aldrei á leikskóla en vel getur verið að ég hafi lært að éta sand samt.

Baráttan gegn ESB er nú óðum að færast yfir á ljósaperur. Skil reyndar ekki af hverju það er. Hef næstum allt þetta kjörtímabil búist við því að Vinstri grænir slitu stjórnarsamstarfinu fyrir kosningar útaf ESB. Samningaviðræðurnar við bandalagið hafa dregist á langinn og nú er ég semsamt að bila í þeirri trú og verið getur að stjórnin lafi út kjörtímabilið. Hvað þá tekur við hef ég enga hugmynd um. Vona samt að það verði ekki Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi hægri hluta Framsóknar.

IMG 1488Vá, það er hægt að opna hurðina!


Bloggfærslur 7. september 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband