1774 - Richard Kuklinski - The Iceman

Á Stöð 2 fengum við einu sinni á teipi heimildamynd með viðtali við mann sem hét Richard Kuklinski. Ég man að ég horfði á þetta viðtal frá upphafi til enda og það hafði mikil áhrif á mig. Þetta viðtal var samt aldrei sýnt á Stöðinni og þótti alls ekki viðeigandi. Richard þessi Kuklinski var einn af frægustu leigumorðingjum mafíunnar í Bandaríkjunum og er talinn hafa framið yfir 100 morð um ævina og e.t.v. verið drepinn sjálfur þó í fangelsi væri á þeim tíma. 13 ára var hann þegar hann framdi sitt fyrsta morð.

Líf hans snerist allt um morðin. Meginástæða þess að ekki komst upp um hann fyrr var sú að hann beitti mjög mismunandi aðferðum við þau. Að lokum náðist hann þó og það sem varð honum að falli var tvennt. Annars vegar lét hann ginnast af uppljóstrara sem var afar snjall, en gat þó ekki sannað á hann morð. Ein af aðferðum Kuklinskis var að afvegaleiða rannsakendur morðanna varðandi dánartíma með því að frysta líkin og koma þeim síðar fyrir á afviknum stöðum. Eitt sinn gætti hann þess ekki að láta líkið þiðna nógu vel og ísklumpur fannst í hjarta þess. Það nægði til sakfellingar.

Í viðtalinu lýsir Kuklinski mörgum morða sinna í smáatriðum og er áberandi kaldur og rólegur við það. Mér er minnisstætt að í viðtalinu lýsir hann því fjálglega að sér hafi komið mjög á óvart eitt sinn er hann myrti mann með því að skjóta hann í höfuðið af stuttu færi með öflugri haglabyssu að höfuðið fauk af honum við það.

Þegar talið berst síðan að börnum hans og eiginkonu (sem ekkert vissu um þessa atvinnu hans) sýnir hann áberandi viðkvæmni og eftirsjá. Viðtalið allt er afar vel gert á allan hátt og þó engar skreytingar séu á myndbandinu og ekkert að sjá annað en manninn sjálfan í appelsínugulum fangabúningi er það þannig úr garði gert að ég man ekki eftir að hafa litið af skjánum eitt augnablik þegar ég horfði á það. Kuklinski fæddist árið 1935 og dó árið 2006. 

IMG 1639Malbikað í spreng.


Bloggfærslur 29. september 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband