1771 - Ríkisendurskoðandi

Um daginn var ég eitthvað að hneykslast á ríkisendurskoðanda vegna afsakana hans varðandi eftirfylgni við uppgjör fulltrúa stærstu stjórnmálaflokkanna varðandi sveitarstjórnarkosningarnar fyrir nokkrum árum. Þá var stóra málið varðandi fjárhagstölvukerfi ríkisins ekki komið í hámæli. Þegar svo var komið lét ég einhver orð falla á fésbók um að ég héldi að Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi hlyti að segja af sér. Ekki er að sjá að hann ætli að sjá sóma sinn í því. Þess í stað einbeitir hann sér að þeim gamla og góða íslenska sið að skjóta sendiboða válegra tíðinda og hefur kært, eða hótað að kæra, Kastljós ríkissjónvarpsins fyrir að nálgast hugsanlega þessar umtöluðu upplýsingar með ólöglegum hætti.

Einhvernvegin hefur Vigdís Hauksdóttir , sem situr á Alþingi í skjóli Framsóknarflokksins, komist á þá skoðun að mál þetta væri pólitískt og stjórnarandstöðunni bæri að verja ríkisendurskoðanda. Hún hikaði ekki við að kalla skýrsluna sem sagt var frá í Kastljósinu „þýfi“ og sannaði með því endanlega að hún er ekkert annað en ómerkilegur gasprari. Sjálfstæðismenn sem rætt hafa um þetta mál hafa verið mun varkárari. Þannig hefur Kristján Þór Júlíusson fullyrt að með þessu hafi traust það sem þarf nauðsynlega að ríkja milli ríkisendurskoðanda og Alþingis beðið verulegan hnekki. Það er mjög vægt til orða tekið en ætti samt alveg að nægja Sveini til afsagnar.

Kannski gerir hann það samt ekki og stendur storminn af sér. Það er íslenska aðferðin. Sjónvarpið, aðrir fjölmiðlar og þingmenn þreytast fljótlega á því að tala um þetta mál og þá getur hann haldið áfram að stinga málum undir stól og hirða launin sín. Reyndar býst ég við að hann geri ýmislegt fleira og sumt vel. En það er alveg sama, ég fer ekkert ofan af þeirri skoðun minni að honum væri hollast að segja af sér.

Ógrunduð gífuryrði eru ekkert takmark í sjálfu sér. Margir bloggarar temja sér þau samt. Mér finnst það vera gífuryrði að tala um að eitthvað sé „þýfi“ án þess að vita nokkrar sönnur á því. Gífuryrði af því tagi finnst mér enn síður vera sæmandi alþingismanni en bloggurum.

IMG 1628Hér hefur eitthvað gengið á.


Bloggfærslur 26. september 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband