1734 - Víst er kú í Keflavík

Þessi setning er um einkennisstafi bifreiða (Q) og féll fyrir margt löngu, en er mér af einhverjum ástæðum ákaflega minnisstæð. Já, já. Þetta gæti verið öðruvísi skrifað. Beygingaflóttinn er búinn að breyta ám og kúm í rollur og beljur.

Eitt er það nafn sem er mikið notað í umræðum og allskyns greinaskrifum. Erfitt er að stafsetja það rétt. (Finnst mér a.m.k.) Þar er um alþjóðlegu samtökin al-Qaeda að ræða. Það er erfitt að muna þetta og svo virðist sem stór stafur eigi helst að vera í miðju orðinu, á eftir bandstriki. Þeir sem þurfa mikið að nota þetta orð (þ.e. fjalla um alþjóðamál og ýmislegt sem þeim tengist) þurfa að vita hvernig það er skrifað. Mér finnst best að muna það með því að reyna að sjá fyrir mér kúahóp þar sem allar kýrnar eru að éta. Í byrjun er þetta:  alkúaðéta. Með styttingum og lagfæringum verður þetta síðan al-Qaeda. Um að gera að láta framburðinn ekki rugla sig. Hann er alveg sér kapítuli.

Mér hefur reynst vel að hafa þær myndir sem ég geymi í huganum sem fáránlegastar ef ég vil muna eitthvað sérstaklega. Auðvitað gleymir maður með tímanum (nema sannir besservisserar) öllu því sem maður á að vita. Gott ef ég lærði þessa reglu um fáránleikann ekki einhverntíma á ofurminnisnámskeiði. (Sko, þetta man ég) Svo festist fátt í langtímaminninu nema maður rifji það upp. (Taki það semsagt upp úr skammtímaminninu og hristi það pínulítið.)

Fésbókarnotkunin er orðin slík meðal blogglesenda minna að það er mjög til bóta að taka Jónasinn á það sem ég skrifa. Deila semsagt á fésbókina öllum mínum bloggum. Það gerir Jónas Kristjánsson og líklega margir fleiri. Margir (af mínum fésbókarvinum a.m.k.) deila öllu athyglisverðu sem þeir finna á netinu til allra sinna fésbókarvina. Úr þessu verður hið mesta kraðak og er kannski að ganga af fésbókinni dauðri. Með þessu móti er hægt að sleppa því að mestu að lesa vefrit eða vefritsútgáfur því allt athyglisvert kemur á fésbókina. (Annars er það ekki til.) Sumir hafa hana (fésbókina) líka opna allan liðlangan daginn. (Geri ég ráð fyrir.) (Skelfing er ég farinn að nota svigana mikið)

Blogg-gáttin http://blogg.gattin.is/ er líka ágætis uppfinning og þangað fer ég þegar ég man. Á fésbókina fer ég aftur á móti oft á dag. Því ég nálgast hluta af bréfskákunum mínum í gegnum hana. Hinn hlutann nálgast ég í gegnum bloggið mitt svo ég skoða það oft líka. Pósthólfið mitt á Snerpu.is geldur þess.

Oft er það svo að ég er í bestu stuði til að blogga snemma á morgnana. Ef eitthvað af því sem ég blogga um er þess eðlis að mér finnist það e.t.v. vera tímabundið set ég það kannski fljótlega á bloggið. Annars geymi ég það bara, því ef ég les það yfir batnar það venjulega.

Blogga bara um það sem mér dettur í hug. Stundum dettur mér í hug að blogga um eitthvað en þá eru gjarnan aðrir búnir að blogga um það sama og hafa svipaðar skoðanir á því og ég. Sleppi því þá nema ég hafi þeim mun meiri tíma til þess. Af þessu leiðir að ég blogga sjaldan um fréttatengt efni.

Oft finnst mér bloggin mín nokkuð góð. Það finnst mörgum öðrum líka, sýnist mér. Núorðið er ég oftast í kringum 50. sætið (eða ofar) á vinsældalista Moggabloggsins. Hugsa að ég gæti haldið mér á 400 listanum þó ég bloggaði ekki neitt. Það er samt ekki mikil hætta á því að ég hætti að blogga, því mér finnst það svo gaman. Ef ég færi svo t.d. að endursegja eitthvað af því sem ég les yrði ég óstöðvandi.

Nú er Toyota-umboðið loksins farið úr nágrenninu. Hálf er samt ruslaralegt eftir þá. Kannski taka þeir einhvern tíma til. Hvað skyldi koma í staðinn? Hugsanlega stórmarkaður.

IMG 1259Hva, er búið að stela vélinni?


1733 - Harpa

Hjörleifur Stefánsson skrifar grein um Hörpuna á Vísi.is. http://www.visir.is/tviskinnungur-i-ogongum-horpu/article/2012708089921 Allir hefðu gott af að lesa þá grein. Niðurlag hennar er þannig:

„Harpa er þrátt fyrir alla glópskuna gott tónlistarhús og mjög mikilvæg fyrir menningarlíf okkar en hún er afsprengi tímaskeiðs þegar dómgreind ráðamanna var mjög brengluð og hún er vitnisburður um óráðvendni útrásartímabilsins margumtalaða. Nú þurfum við að horfast í augu við staðreyndirnar og hætta meðvirkni með þeim sem fífluðu okkur. Auðvitað eiga stjórnirnar allar að víkja og hæft fólk að koma í þeirra stað.“

Hef engu við þetta að bæta og er sammála greininni í einu og öllu. (Að mig minnir.)

Að einhverju leyti ertu það sem þú bendir á. En þá máttu ekki benda of mikið. Þetta ættu fésbókarneytendur sumir hverjir að taka til sín.

Eyþór Árnason póstaði á fésbókina link á gamla grein sem var mjög góð hjá honum eins og hans var von og vísa. Grein þessa hafði hann skrifað á Moggabloggið á sínum tíma og sendi þá sem lesa vildu fjögur ár aftur í tímann (tímavél?) Afleiðingin varð einkum sú að athugasemdirnar voru svolítið útúr kú.

Sennilega er óvild mín í garð fésbókarinnar sprottin af því að ég vil alltaf vita nokkurn vegin hvað ég er að gera. Ef ég geri vitleysu (sem er ansi oft) vil ég helst vita af hverju það er vitlaust. Fésbókin er orðin svo flókin að fæstir hafa nokkra hugmynd um hvað gerist þegar þeir ýta á þennan takkann eða hinn. Þetta er orðið eins og með bílana. Bílstjórar þurftu áður fyrr helst að vera bifvélavirkjar líka. Þarf að venja mig af þeirri hugsun að vilja endilega skilja tölvur, það er nóg að þær virki.  

IMG 1117Það er eins gott að allir viti þetta.


Bloggfærslur 9. ágúst 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband