1744 - Ólafur sérstaki

Hef áhyggjur af Ólafi sérstaka. A.m.k. gengur allt voðalega hægt hjá honum. Kannski er hann svona hræddur við dómstólana. Hef á tilfinningunni að verið sé að leita að undankomuleiðum fyrir mestu þjófana. Ef Ólafur flýr til Ingva Hrafns eins og fleiri, þá skal ég trúa því að hann sé að tefja málin viljandi, annars ekki.

Geri alls ekki ráð fyrir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum þó ég bloggi enn á Moggablogginu. Líklega ekki Samfylkinguna heldur. Þessir flokkar eru ákaflega líkir. Keppast báðir við að rugla kjósendur sína í ríminu og þykjast vera vinir litla mannsins. Sem þeir eru alls ekki. Vinstri grænir og framsókn eru svo bara smáflokkar sem tilheyra þó fjórflokknum og ættu skilyrðislaust að hverfa þess vegna. Hvað er þá eftir? Veit það ekki, en í uppstokkuninni sem vonandi verður í næstu þingkosningum gæti svarið fundist.

Hvert skyldu þeir fara sem útskrifast af fésbókinni? Formspring er bara fyrir krakka og unglinga held ég. Er viss um að sumum sem hættu við bloggið á sínum tíma og yfirgáfu það hafi fundist fésbókin taka við á einhvern hátt. Er líf eftir fésbókina? Veit það ekki. Er auðvitað að tala um tölvulíf, sem er eiginlega ekkert líf. Samt á að þröngva því sem mest uppá krakkagreyin því þau eru varnarlaus. Verður ekki sá tími sem sparast við tölvuvæðinguna aðallega frítími fyrir kennarana? Og ef peningar sparast í raun og veru, hvert fara þeir þá?

Já, það er áreiðanlega mest sjálfum mér að kenna. Mér finnst einna merkilegastur sá hluti PussyRiot-sögunnar sem snýr að Garry Kasparov. Skrifaði eitthvað um Spassky vesalinginn hér á síðuna um daginn af því að Mogginn birti þýðingu á frétt um hann. Skákfréttir er samt aðallega að finna á Chessbase http://chessbase.com/ og auðvitað er best að vísa þeim þangað sem eru líkir mér með það að leggja ævinlega eldgamalt skákmat á hlutina.

Jæja, þá er Harpa byrjuð að blogga aftur http://harpa.blogg.is/ og skrifar hvorki meira né minna en um rafbækur að þessu sinni. Er sammála henni um næstum allt. Geri ráð fyrir að hún sé að tala um Kindle fire tölvu eins og ég á líka. Helst vil ég tala um Kyndilinn minn en hún hefur nafnið með einföldu upsiloni og hefur áreiðanlega eitthvað fyrir sér í því.

Á einum stað talar hún um að hægt sé að hafa yfir hundrað bækur í einu í tölvunni og að hún (tölvan) sé um 300 grömm. Þarna hefði ég kannski notað aðrar tölur. Bækurnar gætu sennilega verið um tíuþúsund og þyngdin nálgast 500 grömm. Þetta er í sem stystu máli einkum það sem ég get að bloggi hennar fundið og ráðlegg öllum sem áhuga hafa á rafbókum (Óla Gneista jafnvel líka) að lesa bloggið hennar.
P.S. Sé núna á myndinni hjá Hörpu að líklega er þetta ekki Kindle fire tölva (sem ég vil nú helst kalla spjaldtölvu) sem hún á og þar með eru þessar tölur ómark hjá mér.

IMG 1373Sum fyrirtæki í Auðbrekkunni leggja áherslu á að hafa umhverfið sem óhrjálegast.


Bloggfærslur 22. ágúst 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband