14.8.2012 | 02:59
1738 - Hatursáróður kirkjunnar
Eftirfarandi klausu setti ég á fésbókina í gær. Held að ég hafi aldrei skrifað jafnlangt innlegg þar. Endurtek það hér á blogginu mínu, en þeir sem þegar hafa lesið það geta auðvitað sleppt því. Aðallega er ég að hugsa um að bjarga þessari snilld frá glatkistunni gaflalausu, sem mér finnst fésbókin vera:
Svokallaðar rökræður eru oft lítils virði. Hver og einn talar einkum um það sem hann (eða hún) hefur áhuga á. Spurningum er ekki svarað og áhersla lögð á það sem viðmælanda finnst ekki skipta máli. Oft er leitað í stjórnmálaskoðanir til að finna rök og þvæla viðmælandanum út í eitthvað annað en hann vill ræða.
Í bloggi mínu í gær ræddi ég m.a. um hina biblíulegu auglýsingu í Fréttablaðinu og taldi hana meinlitla. Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á DV skrifar um þetta mál og kallar auglýsinguna hatursauglýsingu. Ég tel hana ekki vera það og málfrelsið mikilvægara, en vil samt benda á eitt sem styður málflutning Jóhanns á vissan hátt.
Þeir sem telja ekki vera um hatursskrif hjá Jóhanni eða andstæðingum hans að ræða geta varla talið málflutning æstustu múhameðstrúarmanna (islamista) vera hatursskrif. Hugsanlega er hægt að ganga of langt í stuðningi sínum við málfrelsi, en mér finnst ekki að Jóhann eða hans líkar eigi að ákveða það. Hver á þá að skera úr? Þar liggur vandinn einmitt. Ef úrskurður einstakra aðila skiptir jafnmiklu máli og mér finnst Jóhann telja í þessu máli er varla um annað að ræða en spyrja almenning.
Þannig er lýðræðið. En auðvitað er ekki hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um öll mál og skoðanakannanir geta e.t.v. komið í staðinn. Fyrirfram þurfa aðilar þá að fallast á þá aðferðafræði sem notuð er og það getur orðið þrautin þyngri.
Svolitlar umræður þó undarlegar væru spunnust um þetta innlegg þar og þeir sem mikinn áhuga hafa á þessu efni geta séð þær á fésbókinni.
Annars skila deilur um trúarbrögð, (sama er reyndar að segja um mannréttindi) hvort sem er á bloggi eða fésbók, afar litlu. Fyrir því er löng reynsla. Ég ætla rétt að vona að ofurlangur svarhali myndist ekki við þessa færslu.
Örvhendi. Samkvæmt frétt á RUV er dagur örvhendra í dag 13. ágúst. Skv. fréttinni er hlutfall örvhendra barna um 10 prósent. Þetta leyfi ég mér að efast um. Held að hlutfallið sé hærra. Í fréttini var líka sagt að álitið sé að örvhendi stafi aðallega af áfalli á meðgöngu. Er alls ekki sammála því. Annars finnst mér örvhendi og örvhendi alls ekki vera það sama. Oft er um mismunandi sterka tilhneygingu til örvhendis að ræða og það sem einn kallar örvhendi kallar annar eitthvað allt annað. Einhversstaðar hef ég lesið að ef fólk hefur svotil alveg jafna tilhneygingu til örvhendis og rétthendis sé það ávísum á andlega erfiðleika.
Það er ekkert til sem heitir matarskattur og hefur aldrei verið. Á sínum tíma var samt mikið talað um slíkan skatt. Söluskatturinn sálugi var misjafn og sumt var undanþegið honum. Einn af kostunum við virðisaukaskattinn þegar hann var tekinn upp var að hann átti að leggjast á allt jafnt. Ekki leið samt á mjög löngu áður en farið var að mismuna með honum. Flest matvæli bera nú lágan virðisaukaskatt og ferðaþjónustan einnig. Forystufólk þeirrar þjóustu er nú komið í grenjuflokkinn með LÍÚ og hefur hátt um vonsku ríkisstjórnarinnar. Best væri auðvitað að allir borguðu jafnháan virðisaukaskatt, þá mætti jafnvel lækka hann eitthvað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)